Fara í efni  

ESPON 2030

 

 

Hvað er ESPON og fyrir hvern er það?

ESPON er ein af áætlunum ESB um milliríkjasamstarf sem Ísland er þátttakandi í. ESPON, sem stendur fyrir European Territorial Observatory Network, miðar að því að efla magn og gæði byggðarannsókna í löndum Evrópu og greiða aðgengi opinberra stjórnvalda að áreiðanlegum og vönduðum gögnum og rannsóknarniðurstöðum til notkunar í opinberri stefnumótun innan byggðamála.

ESPON aflar, safnar og býr til gögn, gagnasöfn, kort og aðrar upplýsingar um byggðamál út frá þörfum þeirra þjóða sem í áætluninni taka þátt, en öll 27 ríki ESB, ásamt Íslandi, Noregi, Liechtenstein og Sviss taka þátt í ESPON og samfjármagna það. Niðurstöður ESPON geta átt erindi til allra stjórnstiga, eftir því sem við á, auk þess sem hagaðilar innan þátttökulandanna (stjórnvöld á öllum stigum, stofnanir o.fl.) geta kallað eftir sértækum greiningum út frá staðbundnum forsendum og þörfum.

ESPON hefur starfað frá árinu 2002 og nú, í lok árs 2022, setti ESPON af stað sína þriðju starfsáætlun, ESPON 2030. Í þessari nýju starfsáætlun er öllum störfum, rannsóknum og viðburðum innan ESPON skipt niður í flokka eftir ákveðnum áhersluþemum (e. Thematic Action Plans, TAPs) sem skilgreind eru af stýrinefnd áætlunarinnar út frá þörfum þátttökulandanna, vísindasamfélagsins og annarra hagsmunaaðila. Til þessa hafa fjögur áhersluþemu verið skilgreindir, en von er á allt að 6 til viðbótar á næstu misserum.

Fyrstu fjögur þemu sem lögð verður áhersla á í hinu nýja ESPON 2030.
Næstu fjögur áhersluþemu eru þegar í mótun.

Allar rannsóknarniðurstöður, gögn, kort og aðrar upplýsingar sem framleidd eru á vegum ESPON eru öllum aðgengileg í gegnum heimasíðu ESPON, ESPON PORTAL. Þar er hægt að skoða öll kort ESPON og fletta upp rannsóknarniðurstöðum eftir málefni, gagnasöfnum eða löndum. Þetta þýðir að þó svo að rannsóknir og viðfangsefni ESPON ráðist af þörfum stjórnvalda í þátttökulanda áætlunarinnar, þá geta allir nýtt niðurstöðurnar, s.s. vísindasamfélagið, háskólar, ráðgjafar, fyrirtæki, félagasamtök, fréttamiðlar og almenningur.

Framkvæmdastjórn ESPON, ESPON Managing Authority, hefur aðsetur í Lúxemborg og er rekstur þess á ábyrgð ráðuneytisins fyrir sjálfbæra þróun og innviði.

Með samkomulagi við Innviðaráðuneytið hefur Byggðastofnun annast þátttöku Íslands í ESPON og tilnefnt fulltrúa í stýrinefnd áætlunarinnar. Stýrinefndin (e. Monitoring committee) sækir reglulega fundi, tekur allar meiriháttar ákvarðanir ESPON og vaktar framvindu áætlunarinnar. Öll þátttökulönd ESPON eiga einn fulltrúa í Monitoring Committee.

Landstengiliður Íslands í ESPON 2030 er Ragnhildur Friðriksdóttir (ragnhildur@byggdastofnun.is).

Hægt er að fylgjast með helstu fréttum og viðburðum ESPON á heimasíðu ESPON, facebook og Twitter.

 

Síðast uppfært 22.12.2022

Skráning á póstlista

  • Byggðastofnun  |  Sauðármýri 2  |  550 Sauðárkrókur 
  • Sími 455-5400
  • postur@byggdastofnun.is
  • Opið frá kl. 8:30-12:00 & 13:00-16:00  | kt. 450679-0389