Fara í efni  

Brothættar byggðir

Brothættar byggðir, byggðaþróunarverkefni

Á myndinni hér að ofan má sjá þau byggðarlög sem hafa tekið þátt í verkefninu Brothættar byggðir. Ljósu byggðarlögin njóta enn virkrar aðkomu Byggðastofnunar í verkefninu en dökku byggðarlögin hafa lokið þátttökutímabilinu með aðkomu Byggðastofnunar og vinna þau nú áfram að eflingu byggðarinnar, ýmist með samstarfi íbúa og sveitarfélagsins og í sumum tilvikum einnig viðkomandi landshlutasamtökum.

Dalabyggð - Dala Auður  - Þátttökutímabil 2022-2025

Meginmarkmið: 

  • Samkeppnishæfir innviðir
  • Skapandi og sjálfbært atvinnulíf
  • Auðugt mannlíf
  • Öflug grunnþjónusta

Stöðvarfjörður - Sterkur Stöðvarfjörður  - Þátttökutímabil 2022-2025

Meginmarkmið: 

  • Fyrirmyndar umhverfi
  • Samheldið samfélag
  • Öflugt atvinnulíf
  • Sterkir innviðir

Strandabyggð - Sterkar Strandir  - Þátttökutímabil 2020-2023

Meginmarkmið: 

  • Sterkir innviðir og öflug þjónusta
  • Stígandi í atvinnulífi
  • Stolt og sjálfbært samfélag

Bakkafjörður - Betri  Bakkafjörður - Þátttökutímabil 2019-2024

Meginmarkmið: 

  • Sterkir samfélagsinnviðir
  • Öflugt atvinnulíf
  • Aðlaðandi ímynd Bakkafjarðar
  • Skapandi mannlíf

Þingeyri - Öll vötn til Dýrafjarðar - Þátttökutímabil 2018-2022

Meginmarkmið:

  • Fjölskylduvænt samfélag
  • Skapandi samfélag
  • Umhverfisvæn útivistarparadís
  • Framúrskarandi útvörður Ísafjarðarbæjar

Borgarfjörður eystri - Betri Borgarfjörður - Þátttökutímabil 2018-2021

Meginmarkmið:

  • Gott mannlíf
  • Fjölbreytt atvinnulíf
  • Öflugir innviðir
  • Einstakt umhverfi

Árneshreppur - Áfram Árneshreppur - Þátttökutímabil 2017-2023

Meginmarkmið:

  • Traustur landbúnaður og sjávarútvegur
  • Einstakt menningarlandslag og náttúra
  • Öflugir innviðir
  • Samheldið samfélag

Grímsey - Glæðum Grímsey - Þátttökutímabil 2015-2022

Meginmarkmið:

  • Traustur grunnatvinnuvegur
  • Samheldið og þróttmikið samfélag
  • Einstakur staður

Öxarfjarðarhérað - Öxarfjörður í sókn - Þátttökutímabil 2015-2020

Meginmarkmið:

  • Framandi áfangastaður
  • Framsækni í matvælaframleiðslu
  • Uppbyggilegt samfélag
  • Öflugir innviðir

Hrísey - Hrísey, perla Eyjafjarðar - þátttökutímabil 2015-2019

Meginmarkmið:

  • Aðlaðandi og aðgengilegt eyjarsamfélag
  • Fjölbreytt atvinnulíf
  • Sterkir innviðir

Skaftárhreppur - Skaftárhreppur til framtíðar - Þátttökutímabil 2015-2019

Meginmarkmið: 

  • Öflugir innviðir
  • Skapandi atvinnnulíf
  • Heillandi umhverfi

Breiðdalshreppur - Breiðdælingar móta framtíðina - Þátttökutímabil 2013-2018

Meginmarkmið:

  • Áhugaverður búsetu- og áningarstaður
  • Trygg atvinna
  • Góð grunnþjónusta
  • Öflugt mannlíf

Bíldudalur - Bíldudalur til framtíðar - Þátttökutímabil 2013-2016

Meginmarkmið:

  • Í Bíldudal voru ekki mótuð eiginleg megin- og starfsmarkmið heldur var unnið eftir áherslum íbúa á íbúaþingi

Raufarhöfn - Raufarhöfn og framtíðin - Þátttökutímabil 2012-2017

Meginmarkmið

  • Sérstæður áfangastaður
  • Traustir grunnatvinnuvegir
  • Blómstrandi menntun
  • Öflugir innviðir 

Markmiðið með verkefninu Brothættum byggðum er m.a. að fá fram skoðanir íbúanna sjálfra á framtíðarmöguleikum heimabyggðarinnar og leita lausna á þeirra forsendum í samvinnu við ríkisvaldið, landshlutasamtök, sveitarfélagið, brottflutta íbúa og aðra. Hugmyndin var frá upphafi sú að með verkefninu á Raufarhöfn yrði til aðferð eða verklag sem hægt væri að nota á fleiri stöðum sem stæðu frammi fyrir svipuðum vanda.

Settar voru á fót verkefnisstjórnir fyrir hvert byggðarlag. Í þeim sitja fulltrúar Byggðastofnunar, viðkomandi sveitarfélags, landshlutasamtaka og loks tveir fulltrúar íbúa. Í upphafi verkefnisins er haldið tveggja daga íbúaþing þar sem rædd er staða byggðarinnar og leiðir til úrlausna og framfara. Á íbúaþinginu leggja íbúarnir sjálfir til umræðuefni og raða viðfangsefnunum eftir mikilvægi. Framhald verkefnisins byggir á niðurstöðum íbúaþingsins og eru íbúar upplýstir um hvernig skilaboð þingsins eru höfð til hliðsjónar og málum fylgt eftir, t.d. með því að kynna áherslur íbúa fyrir ríkisvaldi og stofnunum. Stefnumótun með framtíðarsýn og markmiðum fyrir byggðarlagið byggir á niðurstöðum íbúaþings og stöðugreiningu fyrir byggðarlagið. Stefnumótunin er síðan kynnt á íbúafundi. Íbúafundir eru haldnir árlega til að fara yfir stöðu verkefnisins.

Verkefnið hlýtur nýtt heiti í hverju byggðarlagi fyrir sig og í flestum tilvikum hafa íbúarnir sjálfir valið heitin með tillögum og atkvæðagreiðslu um þær. Heitin bera í sér bjartsýni og kjark, sem vegur upp á móti brothættu heiti heildarverkefnisins. Heiti verkefna má sjá í yfirliti efst á síðu.

Svæðin sem nú er unnið á eiga sameiginlegt að þar hefur á síðustu árum verið mikil fólksfækkun og skekkt aldursdreifing.  Skortur er á húsnæði, sérstaklega íbúðarhúsnæði á leigumarkaði. Bætt fjarskipti og umbætur í raforkumálum hafa verið brýn málefni víða, sem og samgöngubætur og bætt þjónusta. Á síðustu árum hafa hins vegar orðið stórstígar framfarir í fjarskiptamálum og í sumum tilvikum í samgöngumálum einnig.

Árið 2014 fór fram bæði innra og ytra mat á verkefninu. Meðal annars var skoðuð norsk áætlun sem nefnist Regional omstilling. Ítarleg verkefnislýsing var gerð fyrir verklagið í Brothættum byggðum, m.a. byggt á norsku fyrirmyndinni sem og mati á verkefninu, sem Ernst & Young gerði fyrir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og hófst sú matsvinna haustið 2014 og lauk í ársbyrjun 2015. Verkefnislýsing og viðaukar hennar birtust á heimasíðu Byggðastofnunar vorið 2016 og var jafnframt kynnt á fundi með starfsfólki ráðuneytisins og fulltrúum stýrihóps Stjórnarráðsins. Finna má verkefnislýsinguna hér.

Starfsmenn Byggðastofnunar telja að merkja megi ýmis jákvæð áhrif verkefnisins Brothættra byggða til dæmis aukna virkni og samstöðu íbúa, auk ýmissa verkefna sem farið hafa af stað í tengslum við verkefnið með og án verkefnastyrkja. Gerð er grein fyrir þróun verkefnisins í hverju byggðarlagi og verkefnisins í heild í ársskýrslum einstakra byggðarlaga og í ársskýrslu Byggðastofnunar fyrir verkefnið, sjá hér.

Verkefnið Brothættar byggðir hefur verið fest í sessi sem aðgerð í stefnumótandi byggðaáætlun 2018-2024. Stjórnvöld hafa tekið þessari  aðferðafræði Byggðastofnunar af áhuga og jákvæðni. Verkefnið hefur verið kynnt víða, jafnt innan lands sem utan. 

Uppfært 03.11.2023. 

Skráning á póstlista

  • Byggðastofnun  |  Sauðármýri 2  |  550 Sauðárkrókur 
  • Sími 455-5400
  • postur@byggdastofnun.is
  • Opið frá kl. 8:30-12:00 & 13:00-16:00  | kt. 450679-0389