Flutningsjöfnunarsjóður olíuvara
Flutningsjöfnunarsjóður olíuvara starfar samkvæmt lögum nr. 103/1994. Markmið laganna er að jafna flutningskostnað olíuvara á milli landshluta.
Lagt er flutningsjöfnunargjald á allar olíuvörur sem fluttar eru til landsins og ætlaðar eru til nota innan lands og rennur gjaldið í sérstakan sjóð, flutningsjöfnunarsjóð olíuvara. Byggðastofnun, að fenginni tillögu stjórnar flutningsjöfnunarsjóðs olíuvara, ákveður gjald á olíuvörum fyrir minnst þrjá mánuði í senn og skal fjárhæð flutningsjöfnunarsjóðsgjalds, eftir ákveðinni flokkaskiptinu, við það miðuð að tekjur af gjaldinu nægi til að greiða flutningskostnað á því magni af þeim olíuvörum sem flytja þarf frá næstu innflutningshöfn eða olíuhöfn til þeirra olíuhafna eða útsölustaða sem jöfnun flutningskostnaðar nær til svo að fullnægt verði eftirspurn eftir þeim olíuvörum sem dreift er þaðan.
Stjórn Flutningsjöfnunarsjóðs olíuvara úrskurðar hvað teljast skuli flutningskostnaður. Er stjórninni skylt að ákveða að jöfnun flutningskostnaðar milli innflutningshafnar, olíuhafnar og útsölustaða skuli takmörkuð við kostnað af þeim flutningsháttum sem ódýrastir eru á hverjum tíma.
Allur kostnaður af starfsemi flutningsjöfnunarsjóðs olíuvara greiðist af tekjum sjóðsins og skal tekið tillit til þess við ákvörðun flutningsjöfnunargjalds.
Stjórn Flutningsjöfnunarsjóðs olíuvara er skipuð þremur mönnum sem ráðherra skipar til tveggja ára í senn. Forstjóri Byggðastofnunar eða staðgengill hans er formaður stjórnarinnar, ráðherra skipar einn stjórnarmann án tilnefningar en jafnframt situr í stjórninni einn stjórnarmaður, tilnefndur sameiginlega af þeim olíufélögum sem annast olíudreifingu í öllum landshlutum, eða meirihluti félaganna. Ráðherra getur ákveðið að í stað eins sameiginlegs fulltrúa sitji í stjórninni einn fulltrúi frá hverju slíku olíufélagi. Olíufélögin sameiginlega eða meirihluti þeirra fer saman með eitt atkvæði við ákvarðanatöku í stjórn sjóðsins.
Stjórn Flutningsjöfnunarsjóðs olíuvara og Byggðastofnun sjá um daglegan rekstur og greiðslur á kostnaði við flutningsjöfnun í samræmi við lög um flutningsjöfnun olíuvara svo og reglur og ákvarðanir stjórnar sjóðsins.
Formaður stjórnar Flutningsjöfnunarsjóðs olíuvara er Arnar Már Elíasson, arnar@byggdastofnun.is