Fara í efni  

Að búa í einu landi

Nokkuð hefur borið á því í umræðunni undanfarin misseri, eða allt frá því að spilaborgin sem fjármálageirinn í landinu fór fyrir hrundi nánast til grunna á haustdögum 2008, að  framleiðslu- og útflutningsgreinarnar verði forsenda endurreisnar efnahagslífsins. Þessu hafa stjórnmálamenn haldið á lofti og ekki síst hafa margir af svokölluðum talsmönnum landsbyggðarinnar haldið þessu á lofti og fagnað. Röksemdafærslan er tiltölulega einföld; fjármálageirinn óx (það er vafasamt að tala um að hann hafi dafnað) fyrst og fremst á höfuðborgarsvæðinu með tilheyrandi eftirspurn á flestum sviðum, þ.m.t. vinnuafli sem enn jók á fólksflóttann frá landsbyggðinni. Við hrunið snarféll þessi eftirspurn og hlutfallsleg samkeppnisstaða annarra atvinnuvega batnaði. Þeir atvinnuvegir eru styrkleikar landsbyggðarinnar og  því er blómaskeið hennar nú framundan. En er þetta nú allt eins einfalt og ætla mætti?

Ef við skoðum þetta með samkeppnisstöðuna þá má sjálfsagt færa rök fyrir því að bilið  milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar hafi minnkað. Það byggir hins vegar einungis á því að fall höfuðborgarsvæðisins hafi orðið meira en fall landsbyggðarinnar. Samdrátturinn í efnahagslífinu hefur nefnilega líka komið fram á landsbyggðinni. Samkeppnisstaða hennar hefur því ekki batnað heldur hefur það gerst að samkeppnisstaða höfuðborgarsvæðisins hefur versnað. Það hefur slegið á þann vöxt sem þar hefur verið mörg undanfarin ár og byggðist á miklum vexti fjármálageirans fyrst og fremst.

En fleira kemur til. Samkvæmt nýútkominni skýrslu um hagvöxt einstakra landshluta 2003-2008 kemur fram að megin framleiðsluatvinnugrein þjóðarinnar – sjávarútvegurinn – hefur verið að færast af landsbyggðinni á stórhöfuðborgarsvæðið. Þannig jókst hlutur höfuðborgarinnar, Suðurnesja og Vesturlands í greininni  úr 39% í 47% á tímabilinu og er skýringin talin vera nálægð við Keflavíkurflugvöll og útflutningshafnir.  Svæðið hefur einfaldlega samkeppnisforskot á aðra landshluta þegar kemur að framleiðslustarfsemi vegna þess hvernig ríkisvald og einkaaðilar hafa byggt upp flutningskerfi landsins. Að óbreyttu mun því sú þróun sem þegar sér stað halda áfram. Uppbygging útflutningsframleiðslu í landinu mun verða á suðvestursvæðinu af þeirri ástæðu að sú staðsetning gefur, að öðru jöfnu, samkeppnisforskot vegna gríðarlegs flutningskostnaðar til og frá útflutningshöfnum landsins. Ef horft er á hagvöxt eftir atvinnugreinum kemur í ljós að opinber starfsemi hefur eflst á landinu öllu en þó hefur hún, líkt og sjávarútvegurinn,  að nokkru leyti færst  frá Vestfjörðum og Norðurlandi til höfuðborgarsvæðisins. Nú sem aldrei fyrr er svo uppi krafa um samdrátt í opinberum rekstri. Skyldi landsbyggðin sleppa við hana í ljósi þess samdráttar sem þar hefur þegar orðið?

Skv. áðurnefndri skýrslu var hagvöxtur á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum 40-45% á tímabilinu 2003-2008. Á sama tímabili var hann 31% á Austurlandi, 20% á Suðurlandi og 18% á Vesturlandi. Vöxturinn er að mestu bundinn við áhrifasvæði stóriðjuframkvæmdanna fyrir austan, þ.e. Fjarðabyggð og Fljótsdalshérað og á hinum svæðunum eru það nærsvæði höfuðborgarinnar sem bera uppi hagvöxtinn, Akranessvæðið og svæðið vestan Þjórsár. Á tímabilinu var hagvöxturinn 3% á Vestfjörðum, -5% á Norðurlandi vestra og Norðurland eystra rak svo lestina með -6% hagvöxt. Verðmætasköpunin hefur með öðrum orðum dregist saman og það jafnvel þó íbúum hafi fjölgað, eins og á Norðurlandi eystra, þó svo að sú fjölgun hafi öll orðið á Eyjafjarðarsvæðinu en íbúum Þingeyjarsýslu fækkaði um 5,8 % á tímabilinu. Þannig hefur hvort tveggja gerst, að verðmætasköpunin hefur dregist saman með þeirri íbúafækkun sem almennt hefur orðið  á landsbyggðinni en einnig hafa tekjur á íbúa dregist saman og tekjubilið á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis aukist. Árið 2003 var framleiðsla á mann sú sama yfir landið, 2,1 millj. á íbúa en 2008 var hún 2,7 millj. á höfuðborgarsvæðinu en 2,2, millj. á landsbyggðinni og langlægst á Norðurlandi eða 1,8 millj. Þessi þróun er raunar í takt við það sem þekkt er á Evrópska efnahagssvæðinu, að á sama tíma og tekjubil á milli landa minnkar fyrir áhrif hins sameiginlega markaðar þá eykst það á milli svæða innan landa, þar sem dreifbýlið dregst aftur úr borgarsvæðunum. Þessar staðreyndir er tekist á við í byggðastefnu ESB en sér ekki stað hér á landi.

Það er því ljóst að „blessuð kreppan“ mun ekki snúa við þeirri byggðaþróun sem verið hefur í landinu undanfarna áratugi. Sé ætlunin að gera það þarf að nást raunveruleg sátt um það að jafna samkeppnisskilyrði  milli landshluta og verja til þess hluta þeirra fjármuna sem varið er til uppbyggingar þeirra innviða, m.a. í samgöngumálum, sem hingað til hafa fyrst og fremst aukið samkeppnisforskot suðvestursvæðisins gagnvart öðrum landshlutum.

Reinhard Reynisson
framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga

Skráning á póstlista

  • Byggðastofnun  |  Sauðármýri 2  |  550 Sauðárkrókur 
  • Sími 455-5400
  • postur@byggdastofnun.is
  • Opið frá kl. 8:30-12:00 & 13:00-16:00  | kt. 450679-0389