Fara í efni  

Raufarhöfn

Raufarhöfn og framtíðin

Raufarhöfn var fyrsta verkefnið í Brothættum byggðum og hófst á árinu 2012. Íbúaþing var haldið í upphafi árs 2013 og var verkefninu gefið nafnið Raufarhöfn og framtíðin. Verkefninu lauk þegar Byggðastofnun dró sig í hlé úr verkefninu í lok árs 2017.

Um byggðarlagið:

Raufarhöfn er einn nyrsti byggðakjarni landsins, staðsettur austan til á Melrakkasléttu. Á sjöunda áratug síðustu aldar var staðurinn eitt aðal síldarpláss landsins og íbúar nálægt 600 talsins. Á síðunni raufarhöfn.is má lesa eftirfarandi lýsingu (nokkuð stytt hér):

Náttúruleg höfn Raufarhafnar er varin klettahöfða, Höfðanum er teygir sig austur í hafið, svo gott sem út í Íshafið sjálft. Framundan Höfðanum, stendur áberandi stakur klettahöfði; Hólminn og skilur sund þeirra á milli. Handan hafnarinnar er þessi mynd greinileg og eftir raufinni, sem aðskilur Höfðann og Hólmann, dregur jörðin og staðurinn nafn sitt.

Raufarhafnarkirkja er fyrir botni hafnarinnar þar sem fyrsta byggð þorpsins var … Raufarhöfn var lengst af sérstakt prestakall en hefur nú verið sameinað Skinnastaðaprestakalli.

Á Melrakkaási, norðan við þorpið, er  Heimskautsgerðið – mikið mannvirki sem sækir hugmyndafræði sína til Snorra-Eddu og er forvitnilegt fyrir gesti og gangandi að skoða.

Oft getur verið kalsasamt á Raufarhöfn þegar norðaustan suddinn ber þar upp á dögum saman, en þar er líka fallegt og friðsælt í stafalogni og sólskini; hafflöturinn spegilsléttur svo langt sem augað eygir.

Íbúaþróun á Raufarhöfn hefur um langt árabil verið neikvæð.  Íbúar voru 383 árið 1994, en voru 166 í ársbyrjun 2014. Þetta er að líkindum mesta íbúafækkun sem orðið hefur í nokkru byggðarlagi á landinu á þessu tímabili. Mest var fækkunin í yngri aldurshópum. Erfiðleikar höfðu verið í atvinnulífi á árunum frá aldamótum, en sjávarútvegur helsta atvinnugreinin.

Fyrsti íbúafundur í verkefninu sem hlaut nafnið „Raufarhöfn og framtíðin“ var haldinn í október 2012. Haldið var íbúaþing í janúar 2013 og farið var yfir skilaboð íbúaþingsins og hvernig þeim yrði fylgt eftir á íbúafundi í febrúar sama ár. Þátttaka á íbúafundum á Raufarhöfn var mjög góð, t.d. tók ríflega þriðjungur íbúa þátt í íbúaþinginu í upphafi verkefnis. Íbúafundir voru haldnir í október 2015, febrúar 2017 og janúar 2018.

Alls voru 15 málaflokkar til umræðu á þinginu. Þar vó þyngst óskin um aukinn byggðakvóta, því næst efling ferðaþjónustu, svo ráðstöfun og uppbyggingu húsa og lóðar sem áður voru í eigu SR og loks atvinnumál almennt. Sumar af þeim hugmyndum hafa gengið eftir, t.d. fengu heimamenn 400 tonna úthlutun úr 1800 tonna viðbótaraflamarki til byggðarlaga „í alvarlegum vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi“. Styrkur að fjárhæð 25 m.kr.  til ferðaþjónustu á svæðinu fékkst úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða sem var nýttur til frekari uppbyggingar Heimskautsgerðisins. Ýmsir möguleikar í ferðaþjónustu hafa verið skoðaðir, t.d. á endurbótum á Hótel Norðurljósum og ýmis smærri verkefni. Sjávarútvegsfyrirtækið GPG fjölgaði starfsmönnum og hefur haldið uppi stöðugri starfsemi allt árið. Opnuð var alþjóðleg náttúrurannsóknastöð, Rannsóknastöðin Rif, en hugmyndin að henni var kynnt fyrir verkefnisstjórn sem veitti henni brautargengi með stuðningi Vaxtarsamnings Norðausturlands. Unnið er að hugmyndum um nýtingu svokallaðra SR-húsa og tengist það m.a. áðurnefndri umsókn til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða, sem lið í að byggja Raufarhöfn upp sem áfangastað ferðamanna. Ráðinn var hafnarvörður, Orkusetur veitti styrki til endurbóta á íbúðarhúsum til lækkunar húshitunarkostnaðar og gerð var könnun á íbúðarhúsnæðismarkaði. Loks má nefna að í tengslum við verkefnið voru stofnuð íbúasamtök og félag eldri borgara. Samantekt frá íbúaþingi má nálgast hér.

Kristján Þ. Halldórsson frá Kópaskeri var ráðinn verkefnisstjóri á Raufarhöfn frá mars 2013 og starfaði út júní 2014. Vorið 2015 var Silja Jóhannesdóttir ráðin verkefnisstjóri fyrir verkefnið og í ársbyrjun 2016 tók hún einnig við verkefnisstjórn fyrir verkefnið í Öxarfjarðarhéraði. Silja mótaði ásamt verkefnisstjórninni framtíðarsýn og markmið fyrir verkefnið og kynnti íbúum og fékk samþykki þeirra. Starfað var eftir þeirri stefnumótun út verkefnistímann.

Veittir eru verkefnastyrkir á vegum Brothættra byggða til þróunarverkefna og annarra samfélagseflandi verkefna á þeim svæðum sem taka þátt. Sjá má yfirlit yfir veitta verkefnastyrki í öllum þátttökubyggðarlögum hér. Hér fyrir neðan má skoða yfirlit styrkja í Raufarhöfn og framtíðin  í PDF skjali.

Í verkefnisstjórn sátu: Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings, Reinhard Reynisson, framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga, Pétur Þór Jónasson, framkvæmdastjóri Eyþings, Birna Björnsdóttir og Júlíus Helgason f.h. íbúa Raufarhafnar og loks Kristján Þ. Halldórsson og Sigríður K. Þorgrímsdóttir frá Byggðastofnun. 

Hér má skoða gögn sem tengjast mótun verkefnisins og framvindu þess:

Facebooksíða verkefnisins 

Raufarhöfn og framtíðin - Markmið og framtíðarsýn

Raufarhöfn og framtíðin - Skilaboð íbúaþings, janúar 2014

Heildaryfirlit styrkja - Raufarhöfn og framtíðin

Mynd: Raufarhöfn séð frá Melrakkaási / Kristján Þ. Halldórsson.

Uppfært 22.03.2023.

Skráning á póstlista

  • Byggðastofnun  |  Sauðármýri 2  |  550 Sauðárkrókur 
  • Sími 455-5400
  • postur@byggdastofnun.is
  • Opið frá kl. 8:30-12:00 & 13:00-16:00  | kt. 450679-0389