Fara í efni  

Að búa í lifandi landi

Undanfarnar vikur hefur umheimurinn fylgst agndofa með eldsumbrotum á landinu mínu, fyrst í aðdáum á fallegu hraungosi, sem hefur verið kallað túristagos vegna fegurðar og þess hve nálægt því var hægt að komast, en síðan með skelfingu vegna ösku og flóða í síðara gosinu og áhrifa þess á flugsamgöngur.   

Fregnir berast af því að íbúar annarra landa telji að það sé hættulegt að búa á Íslandi, að það sé jafnvel hættulegt að heimsækja Ísland. Það er áhyggjuefni því ferðaþjónusta er mikilvægur þáttur í atvinnulífinu. Það er stundum erfitt að búa á Íslandi, bæði af manna völdum og náttúrunnar, en ekki hættulegt.  Við eigum góða náttúruvísindamenn, öflugar hjálparsveitir, berum virðingu fyrir náttúruöflunum og erum eins vel búin undir sjónarspil þeirra og kostur er. Við þekkjum hvar og hvenær er von á eldsumbrotum, flóðum og öskufalli, jafnvel jarðskjálftum, höfum búið okkur undir hamfarir náttúrunnar og kunnum að bregðast við þeim. Það er nánast einsdæmi að nokkur láti lífið eða slasist í eldsumbrotum, flóðum eða jarðskjálftum á Íslandi okkar tíma.

Það var afar athyglisvert og þægilegt að hlusta á Magnús Tuma Guðmundsson sýna Kötlugos í sögulegu samhengi í Kastljósi fyrir skömmu. Þar með vitum við að ef Katla tæki upp á því að gjósa í kjölfar Eyjafjallajökuls er sennilegt  að það gos verði svipað að stærð og það sem við erum að lifa þessa dagana. Sem sagt frekar lítið og ekki ástæða til að æðrast. Enda ekkert við málinu að gera annað en að vera viðbúin og það erum við.

Langflestir Íslendingar hafa lítið af eldgosinu á suðausturhorni landsins að segja annað en fréttir fjölmiðla. Vegna þess að norðlæg vindátt hefur verið ríkjandi lengst af gostímanum hefur engin aska fallið nema rétt kringum eldfjallið og á svæðinu suður af því og þar er styst til sjávar. En einmitt á því svæði, í skjóli eldfjallsins sem hefur sofið í hundrað ár, er öflugur landbúnaður, m.a eina bújörðin á Íslandi þar sem ræktað hefur verið hveiti og öflugustu kornræktarbændur landsins eru búsettir á svæðinu. Nú hylur þykkt og hart öskulag tún og akra, nýbornar ærnar, sem fyrir skömmu voru flestar hvítar, eru nú kolgráar jafnvel þó þær hafi verið settar á hús um leið og gosið hófst. Annasamasti tími bænda á venjulegu ári er framundan. Nú bætast önnur og óhefðbundin verk við og margar erfiðar spurningar liggja í loftinu.

Einhverjir hefðu gefist upp við þessar aðstæður og flutt á mölina og sjálfsagt gera það einstaka bændur. En aðrir eru þegar farnir að laga til og hreinsa. Bjóða fram vélakost sinn til nágranna sem ekki eiga svo hægt sé að fjarlægja öskuna úr nánasta umhverfi. Og þar sem öskulagið er ekki of þykkt mun hún hinn besti áburður.   

Hinn sýnilegi skaði og ógn er eitt en annað er hið ósýnilega. Óöryggið,  þreytan og óttinn um daglegt líf og afkomu sem fylgir þessu öllu. Blessuð börnin sem hafa þurft að flýja heimili sín dag eftir dag, hafa ekki getað sótt skóla né lifað eðlilegu rósemdarlífi sveitarinnar.

Mikilvægasta verkefni Íslendinga í nánustu framtíð er að hlú að ungu lífi; börnum og ungmennum, dýrunum og gróðri. Ef það er vel gert mun tilveran brosa við okkur  á ný.

Sem betur fer kunna landsmenn margir að líta út fyrir eigin túngarð og samhjálpin lifir enn góðu lífi á Íslandi. Hún fær m.a.  nýja birtingarmynd á Facebook þar sem stofnaður hefur verið hópur fólks af mölinni sem er að  skipuleggja aðstoð þéttbýlisfólks við fólkið fyrir austan. Það er góð tilfinning að vera vitni að því.

Anna Kristín Gunanrsdóttir
Stjórnarformaður Byggðastofnunar

Skráning á póstlista

  • Byggðastofnun  |  Sauðármýri 2  |  550 Sauðárkrókur 
  • Sími 455-5400
  • postur@byggdastofnun.is
  • Opið frá kl. 8:30-12:00 & 13:00-16:00  | kt. 450679-0389