Fara í efni  

Betri landsbyggð í fleiri litum en kæfulitunum!

Þegar gamalt ár er kvatt og nýju fagnað er ekki laust við að grípi um sig þörf til að spá í hvað við tekur í ljósi undangengins árs. Þá er mikilvægt að horfa útyfir áhyggjur og harmakvein sem stafa af niðurskurði í fjármálum ríkis- og sveitarfélaga. Hvað blasir við byggðaþróun á Íslandi eftir hrun hugarfarsins, „með lánum skal land byggja“? Í hverju felast lykilatriðin?  Án þess að fara ofan í saumana á knýjandi málefnum landsbyggðar sem eru mörg langar mig að velta upp ákveðnum víddum sem oft falla í skuggann af öðru augljósara í umræðunni um byggðaþróun en sem engu að síður eru afar mikilvæg fyrir mannvist og búsetuþróun til lengri tíma.

Atvinnuþróun á landsbyggðinni hefur orðið fjölþættari í öðrum greinum en hefðbundnum greinum, en einnig hafa hinar hefðbundnu greinar að sumu leyti orðið fjölbreytilegri. Þetta er mikilvægt skref til að tryggja lífseiglu fjölbreytts búsetumynsturs á Íslandi til lengri tíma. Betur má þó ef duga skal þar eð áhrif aukins litrófs á mismunandi byggðarlög hafa verið mjög mismunandi. Ef einhver regla er þar á er hún að stærri byggðarlög njóta góðs af etv. á kostnað þeirra minni. Miðleitni og samþjöppun er nánast lögmál sem óneitanlega veikir undirstöður smærri byggða. Þá er umhugsunarefni að Ísland er eitt fárra landa í heiminum ásamt öðrum útnárum eins og Ástralíu og Alaska þar sem búsetuþróun er eins dreifð og klofin. Borgvæðing (urbanisation) er ein helsta áskorun byggðar í dreifbýli en einmitt í kreppu kemur líka berlega í ljós að þanþol landsbyggðar við sveiflum og úthald er jafnvel meira en borgríkisins, um það vitna atvinnuleysistölur.

Ísland er í raun borgríki og strandríki miðað við að tæp  92% landsmanna búa innan við 100 km frá strönd í þéttbýli. Hafið er altumlykjandi. Sjórinn hefur þó ekki alltaf átt upp á pallborðið í vitund landans um eigið ágæti, sérstaklega ekki í víðtækari skilningi. Þegar betur er að gáð er þekking á lífríki hafs og stranda takmörkuð af því megináhersla í rannsóknum hefur verið lögð á að afla upplýsinga um mikilvægustu fiskistofna við landið og þá þætti sem mestu skipta fyrir afkomu og ástand þeirra.  Mér finnst of fáir vera að færa sér í nyt fjársjóð hafsins útyfir hefðbundna sókn í hefðbundna stofna með hefðbundnum aðferðum. Þeir sem þó eru að því eru að gera góða hluti í fræðslu, ferðaþjónustu, rannsóknum og bættri nýtingu á hráefni á ólíkan hátt. Aukaafurðir af ýmsu tagi og það sem hefur verið gloprað niður má upphugsa aftur, þróa enn frekar og færa til betri vegar.

Pólitísk markmið og sýn vanta fyrir íslenska landsbyggð þegar kemur að íbúaflóru landsins. Sérstakt er einnig að ekki er minnst á innflytjendur í vaxtarsamningum, menningarsamningum og fylgiriti með byggðaáætlun 2010-2013, eins og fram hefur komið í rannsóknum Magnfríðar Júlíusdóttur landfræðings.

Eina merkjanlega fjölgun íbúa á landsbyggðinni frá 1986 (sjá hagstofa Íslands) hefur helgast af aðfluttum með erlent ríkisfang, umfram brottflutta. Afhverju er ekki litið til þessa fólks sem hreyfiafls í atvinnuþróun og nýsköpun á landsbyggðinni? Afhverju er einungis vísað í erlenda verkamenn sem þarf þar sem ekki er hægt að manna störf vegna m.a viðvarandi brottflutninga. Hvað væri tónlistarlíf hér á landi án margs þess hæfileikaríka fólks sem okkur hefur hlotnast? Mörgum sjávarbyggðum væri ekki stætt á að halda úti veiðum og vinnslu án þess fjölda upprunalega erlends starfsfólks sem til þeirra starfa ganga hér á landi. Þegar litið er til frumkvöðla í íslenskri ferðaþjónustu á ólíkum sviðum er hægt að fullyrða að stór hluti frumkvöðla ferðaþjónustu séu af erlendum uppruna, á það bæði við um þá sem hófu hér starfsemi og þá sem koma að daglegum rekstri ferðaþjónustufyrirtækja í samtímanum.

Hvorki eitt né annað er lykilatriði í byggðaþróun landsbyggðar, heldur ætti bæði og flest að vera það. Fjölbreytileiki landsbyggðar, fleiri litir í kæfunni ætti að vera markmið. Nú þegar taka á til endurskoðunar stoðkerfi atvinnustuðnings og nýsköpunar er afar mikilvægt að litið sé til sem flestra þátta, líka ólíkra íbúa.

Anna Karlsdóttir, lektor í land- og ferðamálafræði við Háskóla Íslands.

Skráning á póstlista

  • Byggðastofnun  |  Sauðármýri 2  |  550 Sauðárkrókur 
  • Sími 455-5400
  • postur@byggdastofnun.is
  • Opið frá kl. 8:30-12:00 & 13:00-16:00  | kt. 450679-0389