Fara í efni  

Brain Drain Brain Gain • Spekileki Vitskusegull

(Erindi haldið á málþingi Hagræn og félagsleg áhrif menntunar á jaðarsvæði – þekkingarsamskipti milli Íslands og Skotlands, Ísafirði, 30.11.2011.)

Háskólasetur Vestfjarða er lítil stofnun, sem starfar eingöngu á háskólasviði. Setrið var stofnað 2005 og var eina skilgreinda hlutverkið til að byrja með að halda utan um fjarnámið, en vonir Vestfirðinga takmörkuðust sjálfsagt ekki við það. Háskólasetur Vestfjarða hefur á síðustu sex árum þróast og boðið upp á fjarnám, frumgreinanám, og alþjóðlegt meistaranám í samvinnu við Háskólann á Akureyri, sem og sumarnámskeið og þjónustu fyrir vettvangsskóla.

Hvert svæði, hvert land, vill halda í ungt og efnilegt fólk, hvert svæði, hvert land er hrætt við spekileka/brain drain, eins og umræða um Íslendinga, sem flytja til Noregs þessa daga sýnir. Þessi umræða átti sér stað á landsbyggðinni í mörg ár. Háskólasetri, eins og öllum menntastofnunum á landsbyggðinni, er ætlað að draga úr spekileka og þegar vel vill til, snúa honum við og verða vitskusegull. En menntastofnanir á jaðarsvæðum kunna að leika svæði sitt grátt ef þær mennta menn á brott. Ef atvinnumöguleikar haldast ekki í hendur við aukna menntun, sem hægt er að sækja sér í gegn um staðnám eða fjarnám á landsbyggðinni, er hætta á að menn mennti sig fyrst og flytja svo á brott. Því er gott að staldra aðeins við og skoða, hvaða námsframboð uppfyllir eiginlega þessar kröfur í hvað miklum mæli.

Í eftirfarandi grein skal námsframboð Háskólaseturs greint með tilliti til tveggja atriða: hagræn og félagsleg áhrif annars vegar og aðdráttarafl á námsmenn hins vegar, eða hvort viðkomandi námsframboð virki sem vitskusegull, sem virkar á móti spekileka (brain gain vs. brain drain).

Námsframboð, sem um er að ræða eru gjörólík:
  • Fjarnám frá háskólum landsins
  • Frumgreinanám
  • Meistaranám í Haf- og strandsvæðastjórnun
  • Fyrirhuguð námsleið í sjávartengdri nýsköpun.
Fjarnám frá háskólum landsins

Hagræn og félagsleg áhrif fjarnáms eru jákvæð. Námsmenn, sem eru oftast fjölskyldufólk, þurfa ekki að flytja til að sækja sér menntun, með tilheyrandi kostnaði fyrir samfélagið og einstaklinginn. Fjölskyldurnar eru áfram í sinni heimabyggð og gegna þar félagslegum hlutverkum sínum í stórfjölskyldum og samfélagi. Að námi loknu munu þeir standa til boða á vinnumarkaði sem betur menntað starfsfólk, sem oft hefur verið vöntun á á landsbyggðinni.

Þegar fjarnámið er hins vegar hugsað fram í tíma og uppsafnaðar þarfir vinnumarkaðarins er uppfylltar, kann að vera til staðar hætta á óánægju og brottmenntun, ef námsmaðurinn að námi loknu finnur ekki starf við hæfi. Framsæknustu námsmennirnir munu þá leita sér vinnu utan svæðis. Aukin menntun þarf því að haldast í hendur við þarfir vinnumarkaðarins annars vegar og nýjar stöður hins vegar.

Ef fjarnámið er greint frá sjónarhóli spekileka og vitskuseguls, er afstaða tvíbent. Annars vegar þurfa námsmenn ekki að flytja og þeir standa á eftir með meiri menntun. Á hinn bóginn verður vart við að fjarnámið höfðar mest til fólks sem er bundið vegna vinnu eða fjölskyldu, það virðist hins vegar ekki höfða sérlega mikið til ungra námsmanna beint eftir stúdentspróf. Ef fjarnámið eykur væntingar manna um atvinnumöguleika umfram það sem er í boði á svæðinu, getur það leitt til brottmenntunar og á því hlutdeild í spekileka, sem það átti þó að fyrirbyggja.

Frumgreinanám

Háskólasetur bauð upp á frumgreinanám í staðnámi á Vestfjörðum í samvinnu við HR árin 2008 og 2009. Hagræn og félagsleg áhrif eru mjög svipuð og í fjarnámi. Námsmenn afla sér aukinnar þekkingar og menntunar í staðnámi meðan þeir halda áfram að gegna sínu hlutverki í samfélaginu, sem vegur þungt í fámennum samfélögum.

Þegar þessir námsmenn vilja hins vegar meira og lengra og fara í áframhaldandi nám, standa þeir frammi fyrir takmörkuðu framboði af fjarnámi. Hér er hætta á að nemendurnir flytji á brott í leit að námi að frumgreinanámi loknu og getur frumgreinanámið að því leyti verið ágæt nemendaöflun/recruitment fyrir háskóla, sem bjóða upp á það, en ekki endilega fyrir háskólasetur, sem hefur ekkert staðnám upp á að bjóða að frumgreinanámi loknu, nema mjög takmarkað framboð fjarnáms. Útskriftartölur hjá Háskólasetri voru of lágar til að draga haldbærar ályktanir, en hættan á spekileka er til staðar, meðan það er á hinn bóginn varla til sá námsmaður, sem flytur til Vestfjarða til að fara í frumgreinanámið.

Meistaranám í Haf- og strandsvæðastjórnun

Þegar Háskólasetur Vestfjarða þróaði námsleið í staðnámi, var einmitt það í forgrunni: Svæðið er of fámennt og upptökusvæðið of lítið til að nokkurn tímann bera heila námsleið og nemendur fyrir sunnan mjög ólíklegir til að vilja flytja vestur fyrir nám, sem er líka til á höfuðborgarsvæðinu. Svarið við þessu var mjög sérhæft alþjóðlegt meistaranám í haf- og strandsvæðastjórnun.

Hagrænu áhrifin eru áberandi, enda koma nær allir námsmenn inn á svæðið og bera með sér sína framfærslu. Háskólaborgir græða sjálfsagt á sínum námsmönnum, enda bíta þeir og brenna í borginni, meðan tekna er oft aflað úti á landi, í tilfelli Háskólaseturs í útlöndum, þar sem foreldrarnir eru eða þar sem námsmenn eru í sumarvinnu. Í úttekt Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða á hagrænum áhrifum Háskólaseturs Vestfjarða kemur fram að fyrir hverja krónu sem ríkið ver í Háskólasetrið koma tvær tilbaka í samfélagið og vegur þar mest meistaranámið, enda framfærslukostnaður námsmanna aðkomufé.

Námsmenn standa til boða á vinnumarkaðnum að námi loknu, sem er gott, en reynslan sýnir að þó að þeir fái mjög áhugaverð störf úti, er lítið af störfum við hæfi á Vestfjörðum. Einhverjir hafa fengið rannsóknartengd störf, þar sem íslenskukunnátta var ekki forsenda, á landsbyggðinni og sýnir það að þessir námsmenn taka ekki endilega Reykjavík fram yfir annað. Ætla má að það séu árlega 5-10 námsmenn sem væru mjög til í að lengja sína dvöl á Ísafirði, ef þeir fengju starf við hæfi.

Félagslega er eftirtektarvert, hvað námsmennirnir tengjast vel inn í samfélagið, þeir fara í hljómsveit, kór, íþróttafélög o.fl., þrátt fyrir litla eða enga íslenskukunnáttu þorra þeirra. Þeir koma inn með nýjar hugmyndir og auðga ekki síst aldurshópinn milli tvítugs og þrítugs. Fyrir vikið verður staðurinn meira aðlaðandi fyrir einmitt þennan aldurshóp vegna vaxandi fjölbreytileika lífsmynstra, sem ungu fólki virðist oft finnast vanta á litlum stöðum á landsbyggðinni. Sumir verða eftir, finna maka eða vinnu, eins og gengur og gerist. Takmörkuð íslenskukunnátta setur þó mörk á félagslega þátttöku útlendinga meðal námsmannanna.

Erfiðara er að greina meistaranámið frá sjónarhorni spekileka: Flestir nemendur flytja aftur út af svæðinu að námi loknu, þeir koma inn með bakkalárgráðu og fara með meistaragráðu og er það bæði brain gain og brain drain. Stundakennarar koma sömuleiðis inn á svæðið með sína þekkingu, en þeir eru hvað mest vannýtta auðlind eins og stendur. Þó myndast tengsl aðkomukennara við Vestfirðinga, ekki síst meðal starfsmanna í rannsóknageiranum. Háskólasetrið virkar sem vitskusegul í því sambandi enda alltaf hópur nemenda og kennara á svæðinu. Eftir að þeir fara, eru þó allavega meistararitgerðir þeirra eftir, en um 75% námsmannanna velja sér vestfirskt eða íslenskt þema og má kalla þetta brain gain. Háskólasetur Vestfjarða er á þessu stigi mest í mun að stuðla að þekkingaryfirfærslu.

Fyrirhuguð námsleið í sjávartengdri nýsköpun

Er hægt að halda fleiri útskriftarnemum á Vestfjörðum? Meðan Háskólasetrið getur ekki skapað störf við hæfi er lítið annað en að státa sér af ágætum hagrænum áhrifum og af því að vera með fullt af ágætum sendiherrum úti í löndum. En meðan aðrir skapa ekki störf, geta nemendurnir hugsanlega gert það sjálfir. Í hverjum árgangi hefur leynst einhver frumkvöðull. Það bara vantar að virkja þá.

Hjá Hákólasetri er því í undirbúningi námsleið í sjávartengdri nýsköpun í samvinnu við NMÍ og HA. Gert er ráð fyrir að nær öll kennslan verði samkennd námsframboði í Háskólasetri eða samstarfsneti íslenskra háskóla, en mikilvægur hlutur náms er fullvinnsla nýsköpunarverkefnis. Gert er ráð fyrir innan við fimm nemendum á ári, en markmiðið er að einn á ári nái að skapa sér lifibrauð á Vestfjörðum með sína nýsköpunarhugmynd.
Beinu hagrænu áhrifin verða kannski ekki sérlega mikil vegn lágs námsmannafjölda, þó svo að nýsköpunarverkefnin geti sjálfsagt undið upp á sig. Það eru hins vegar miklu frekar félagslegu áhrifin, sem skipta hér máli. Það eru frumkvöðlarnir, sem vantar á jaðarsvæðin og það að vera með flóru nýsköpunarverkefna í gangi breytir ímynd tap-svæðis í eitthvað áhugavert, aðlaðandi svæði, sem aftur á móti hefur áhrif sem erfitt er að mæla.

Háskólasetur Vestfjarða hefur á fyrstu starfsárum sínum einbeitt sér að því að koma af stað staðbundnu námi, enda voru það kröfur samfélagsins. Þetta staðbundna nám er hagfræðilega mjög jákvætt fyrir svæðið, en hagfræðilegu áhrifin samsvara því sem Skandinavar kalla"regimentseffekt" og mætti útleggjast á íslensku með "Keflavíkuráhrif": Fólk, sem bítur og brennur, sem dælir einhverjum peningum út í samfélagið, þó að það komi og fari, eins og á Miðnesheiði forðum.

Það er þó til lengdar sóun á verðmætum að takmarka háskólastarfsemi til hagrænna Keflavíkuráhrifa. Það er hægt að gera meira úr því en að láta fólk bíta og brenna. Þessi auðlind, sem er fólgin í ungu, áhugasömu og drífandi fólki, á að nýta betur en svo. Nú þarf að setja stefnu að Silicon Valley, þó leiðin kunni að vera löng.

Peter Weiss, forstöðumaður Háskólaseturs Vestfjarða

Skráning á póstlista

  • Byggðastofnun  |  Sauðármýri 2  |  550 Sauðárkrókur 
  • Sími 455-5400
  • postur@byggdastofnun.is
  • Opið frá kl. 8:30-12:00 & 13:00-16:00  | kt. 450679-0389