Fara í efni  

Byggðastefna til framtíðar

Markviss og árangursrík byggðastefna verður að taka mið af fjölbreyttum þörfum einstaklinga, margbreytileika byggðarlaga og ólíkum aðstæðum einstakra landssvæða.  Í umræðum um byggðamál hefur verið sterk tilhneiging til þess að líta á landsbyggðina sem einsleitt svæði þar sem hvert byggðarlag um sig glímir við afmörkuð, staðbundin vandamál á borð við illfært fjallaskarð, rekstrarerfiðleika útgerðarfyrirtækis eða ónóga læknisþjónustu. Á hinn bóginn séu málefni höfuðborgarsvæðisins órjúfanlegur hluti stefnumótunar í „samgöngumálum þjóðarinnar“, „málefnum fyrirtækjanna í landinu“ eða „heilbrigðismálum landsmanna“. Við mótun íslenskrar byggðastefnu til framtíðar er nauðsynlegt að brjótast upp úr hjólförum þessarar stöðnuðu umræðu.

Þéttbýlið á suðvesturhorni landsins hefur raunar um rúmlega tveggja alda skeið notið markvissrar og samfelldrar byggðastefnu sem borið hefur ríkulegan ávöxt. Þessi byggðastefna hófst fyrir alvöru í upphafi nítjándu aldar með skipulögðum flutningi allra helstu menningar- og valdastofnana landsins til Reykjavíkur en náði veldisvexti á tuttugustu öld. Þannig hefur landsmönnum tekist að byggja Reykjavík upp sem þá miðstöð stjórnsýslu, fjármála, viðskipta, fjölmiðla, menntunar og menningarstarfs sem Jón Sigurðsson taldi til dæmis eina meginforsendu sjálfstæðrar þjóðar. Að því markmiði uppfylltu er tímabært að huga að nýrri byggðastefnu sem fært getur slík gæði til allra landsmanna.

Reykjavík myndar nú ásamt nágrannasveitarfélögum sínum ríflega tvö hundruð þúsund íbúa samfellda byggð frá Hafnarfirði að Kollafirði. Þetta svæði hefur ýmis alþjóðleg borgareinkenni þótt vitaskuld sé það ekki sambærilegt við stórborgir annarra landa. Utan Reykjavíkursvæðisins búa hins vegar um 116 þúsund manns eða álíka margir og Íslendingar voru allir árið 1936. Íbúar hinnar svokölluðu „landsbyggðar“ eru því um þessar mundir fleiri en nokkru sinni fyrr í Íslandssögunni. Þessi byggðarlög eru þó afar fjölbreytt og búa við ólík tækifæri, áskoranir og vandamál. Þeim væri því hugsanlega betur lýst með fleirtöluorðinu „landsbyggðir“, líkt og þegar rætt er um margbrotnar óbyggðir Íslands.

Þannig búa til dæmis um fimmtíu þúsund manns í þéttbýli eða dreifbýli innan við hundrað kílómetra frá Reykjavíkursvæðinu og hefur þeim fjölgað hratt á undanförnum árum. Sumir vilja telja þessi byggðarlög til höfuðborgarsvæðisins fremur en landsbyggðarinnar, enda býður hefðbundin tvískipting landsins ekki upp á aðra möguleika. Hins vegar má segja að hér sé fremur um að ræða ákveðna tegund landsbyggða sem njóta að mörgu leyti góðs af nábýlinu við Reykjavíkursvæðið, sérstaklega hvað varðar atvinnutækifæri og fjölbreytta þjónustu.

Á sama tíma getur reynst erfitt að halda uppi fjölbreyttri atvinnustarfsemi og þjónustu í mikilli nálægð við borgarsamfélagið. Samkeppni við fyrirtæki sem búa við mun meiri stærðarhagkvæmni er oft erfið og í opinbera geiranum felst hagræðing iðulega í því að auka vægi miðlægrar þjónustu á kostnað grenndarþjónustu í nálægum byggðarlögum. Jafnframt ógnar sókn eftir landi til byggingarframkvæmda og frístundaiðkunar mjög landbúnaði á þessu svæði og grefur þannig undan hefðbundnum sveitasamfélögum.

Á vaxtarsvæðum Mið-Norðurlands og Mið-Austurlands búa samanlagt um 42 þúsund manns og svipar þróun þeirra svæða að sumu leyti til þess sem gerst hefur á suðvesturhorni landsins. Stærri þéttbýliskjarnar hafa vaxið og dafnað sem miðstöðvar stjórnsýslu, atvinnulífs og menningar og bætt búsetuskilyrði fólks á stórum svæðum. Á sama tíma hefur dregið úr verslun og þjónustu í smærri byggðarlögum og sum þeirra hafa fengið ákveðin einkenni úthverfa. Þótt einstök byggðarlög eigi við fólksfækkun að stríða hefur íbúum á þessum svæðum í heild fjölgað umtalsvert á undanförnum áratugum. Vegna innanlandsflugsins er miðbær Reykjavíkur í seilingarfjarlægð og íbúar þessara vaxtarsvæða geta því tekið nokkurn þátt í pólitísku, efnahagslegu og menningarlegu lífi höfuðborgarinnar.

Þessi vaxtarsvæði njóta einnig að ákveðnu marki þjónustu öflugra ríkisstofnana og einkafyrirtækja á Reykjavíkursvæðinu sem stundum eru með útibú á þessum svæðum eða sinna þeim með starfsmönnum í innanlandsflugi. Oft er þó um einfaldar þjónustustöðvar undir beinni stjórn höfuðstöðvanna að ræða sem hafa því mun minni samfélagsleg áhrif en þau sjálfstæðu fyrirtæki eða stofnanir sem annars myndu líta dagsins ljós. Jafnframt líta slíkir aðilar sjaldan á starfsemi í öðrum landshlutum sem hluta kjarnastarfsemi sinnar og því hverfa útibúin fljótt á niðurskurðar- og aðhaldstímum.

Á Snæfellsnesi, á Vestfjörðum, í Húnavatnssýslum, í Norður-Þingeyjarsýslu, í Skaftafellsýslum og í Vestmannaeyjum búa samanlagt um 8% þjóðarinnar eða um 25 þúsund manns. Á þessum svæðum eru mörg sjávarþorp sem hafa orðið misvel úti í breytingum á sjávarútvegi, sveitir sem hafa mismikil hlunnindi af ferðaþjónustu, frístundabyggð eða launuðum aukastörfum og litlir þjónustukjarnar sem sumir hafa orðið fyrir barðinu á svæðisbundinni hnignun landbúnaðar, sjávarútvegs eða annarrar framleiðslu.

Þessum svæðum er yfirleitt lítið sinnt af opinberum stofnunum sem telja sig flestar uppfylla skyldur sínar gagnvart hinni einsleitu „landsbyggð“ frá Reykjavík eða með starfsemi á vaxtarsvæðum Mið-Norðurlands og Mið-Austurlands. Með sama hætti telja mörg fyrirtæki á Reykjavíkursvæðinu það ekki svara kostnaði að sinna þessum byggðarlögum með viðunandi hætti. Þótt aðstæður séu vitaskuld misjafnar glíma mörg byggðarlög á þessum svæðum því við svipuð vandamál sem tengjast einhæfu atvinnulífi, takmörkuðum aðgangi að lánsfé, skorti á verslun og þjónustu, erfiðum samgöngum og háum flutningskostnaði til og frá mörkuðum.

Byggðastefna til framtíðar hlýtur að endurspegla þessar ólíku aðstæður landsbyggðanna. Í því sambandi er mikilvægt að efla frumkvæði heimamanna og ábyrgð þeirra á eigin samfélagi. Þannig getur flutningur verkefna frá ríki til sveitarfélaga unnið markvisst gegn tilhneigingu ríkisvaldsins til að þjappa allri opinberri þjónustu saman í Reykjavík og stuðlað að því að opinbert fé sé nýtt sem best í samræmi við aðstæður á hverjum stað. Slík valddreifing kallar óhjákvæmilega á sterka svæðisbunda samstöðu og samstillt átak gegn hrepparíg og þröngri hagsmunagæslu einstakra byggðarlaga.

Jafnframt eflingu sveitarfélaga og landshlutasamtaka þarf að huga sérstaklega að stöðu byggðamála innan stjórnarráðsins. Þótt tilhneiging hafi verið til þess að skilgreina byggðamál sem atvinnumál í þröngum skilningi hefur stefnumótun ríkisins til dæmis í samgöngumálum, heilbrigðismálum, velferðarmálum og mennta- og menningarmálum ekki síður djúpstæð áhrif á þróun byggðar í landinu. Nauðsynlegt er að reglubundin samþætting allra málaflokka stjórnarráðsins sé á hendi aðila sem hefur bæði formlega stöðu og fjárhagslegt bolmagn til að framfylgja yfirlýstri byggðastefnu stjórnvalda.

Þóroddur Bjarnason lauk BA-prófi frá Háskóla Íslands árið 1991, meistaraprófi frá University of Essex í Bretlandi árið 1995 og doktorsprófi frá University of Notre Dame í Bandaríkjunum árið 2000. Hann er prófessor í félagsfræði við Háskólann á Akureyri og stjórnarformaður Byggðastofnunar.

 

 

Skráning á póstlista

  • Byggðastofnun  |  Sauðármýri 2  |  550 Sauðárkrókur 
  • Sími 455-5400
  • postur@byggdastofnun.is
  • Opið frá kl. 8:30-12:00 & 13:00-16:00  | kt. 450679-0389