Fara í efni  

Ferðaþjónusta á Íslandi - Það sem við vitum og það sem okkur vantar að vita

Almennt séð erum við í öfundsverðri stöðu á Íslandi. Nánast allir sem koma til landsins fara um Leifsstöð. Aðrir fara um höfnina á Seyðisfirði og brotabrot kemur um aðra flugvelli, s.s. Akureyri eða Egilsstaði. Það sem við vitum um þá sem koma til landsins byggjum við á gögnum um fólk sem fer frá landinu. Ferðamálastofa heldur úti talningu á þeim sem fara frá landinu og er merkt við þjóðerni eftir því hvaða vegabréf fólk sýnir við öryggishliðið. Þannig höfum við nokkuð ítarlegar tölur um ferðafólk á Íslandi, en árið 2009 fóru 493.941einstaklingar með erlent ríkisfang frá landinu. Augljóst er þó að farandverkamenn og fólk í viðskiptaerindum er talið hér með, þó líta megi á báða hópa sem ferðafólk. Við þennan fjölda bætast svo farþegar á skemmtiferðaskipum en þeir voru 59.308 árið 2008 á 83 skipum sem komu til Reykjavíkur. Flest þessara skipa komu við í fleiri en einni höfn og voru þau eilítið færri 2009. Hitt er svo annað mál í hvaða tilgangi þetta fólk er að ferðast, hvaða þjónustu það nýtir sér, hvert það fer og hve lengi það gistir. Til að komast að því þarf að spyrja fólk. Ferðamálastofa hefur gert stöku kannanir en síðan 2004 hefur einkafyrirtækið Rannsóknir og ráðgjöf ferðaþjónustunnar (RRF) spurt fólk á Leifsstöð um þessa þætti og fleiri. Ferðamálastofa kaupir nú nokkrar spurningar af fyrirtækinu til prufu, en öll gögn sem safnast eru í eigu fyrirtækisins en ættu að geta gefið nokkuð góða almenna mynd að ferðafólki sem til landsins kemur. Hafa ber þó í huga að aðeins er spurt í Leifsstöð (þó stöku sinnum á Seyðisfirði) og ekki sjálfgefið að einstök svæði, fyrirtæki eða sveitarfélög geti nýtt sér upplýsingarnar.

Það sem brennur á flestum þegar ferðaþjónustu ber á góma er hvort hún skapi okkur einhverjar tekjur. Mikil trú er bundin við ferðaþjónustu, sérstaklega á krepputímum fyrr og nú. Ferðaþjónusta birtist okkur þannig sem bjargvættur byggða og lyftistöng atvinnulífs. Hagstofan, með nýútgefnum hliðarreikningum fyrir greinina, hefur með höndum gögn til að átta sig á heildarumfangi greinarinnar á landsvísu. Hinsvegar vitum við ekki hvað ferðaþjónustan er að skila einstökum svæðum, landshlutum eða sveitarfélögum, né heldur hvernig fyrirtækjum farnast í greininni. Samspil einstakra svæða og fyrirtækja sem á þeim starfa er einnig rannsóknarefni en ekki er sjálfgefið að tekjur, sem koma inn í fyrirtæki af ferðaþjónustu, séu tekjur sem skilja eitthvað eftir sig á tilteknu svæði. Til þess þarf að átta sig á samspili fyrirtækja í ferðaþjónustu, eignahaldi, fjárfestingu og stöðu fyrirtækja í greininni gagnvart öðrum og hinu opinbera. Ekkert hefur verið unnið á þessum sviðum. Einnig er vert að skoða þjónustu í fyrirtækjum sem kenna sig við ferðaþjónustu. Þessi fyrirtæki hafa með höndum að veita fólki það sem það þarfnast meðan það er að heiman, ekki bara grunnþjónustu til að tryggja að fólk lifi af, heldur ólík stig gæða og verðs – allt eftir því hvernig þjónustu og upplifun menn telja að ferðafólkið sé að sækjast eftir. Þjónustan er beintengd væntingum fólks ekki síður en þörfum, bæði þeirra sem veita hana og þiggja og þannig tvinnast upplifun af þjónustu saman við þjónustuna. Þjónusta ferðaþjónustufyrirtækja er stundum kölluð ferðavara og er þá átt við þann pakka sem tengir saman upplifun og þjónustu, allt frá það sem býðst á einu hóteli að því sem felst í hringferð um landið með öllu því sem skoðað er og þar sem er gist. Til að nýsköpun geti þrifist í greininni og nýjar ferðavörur orðið til þarf að skilja það hráefni sem er til grundvallar ferðavörunni. Þannig vitum við almennt að ferðafólk sem hingað kemur sækist eftir upplifun af náttúru landsins, en þá er spurningin hvar er hana að finna og hvernig er mögulegt að njóta hennar. Til þess þarf að kortleggja auðlindir ferðaþjónustu, rétt eins og Landsvirkjun er búin að meta möguleika sína til orkuframleiðslu í vatnsföllum landsins og Hafró er með stofnstærðir fiska nokkuð á hreinu, sem og hvar þá er að finna. Skipuleg vinna á landsvísu með þessum hætti er ekki hafin, en best væri að safna gögnum um auðlindir greinarinnar í einn grunn sem einnig gæti nýst við skipulagsvinnu í einstökum sveitarfélögum.

Edward H. Huijbens, Rannsóknamiðstöð ferðamála.

Skráning á póstlista

  • Byggðastofnun  |  Sauðármýri 2  |  550 Sauðárkrókur 
  • Sími 455-5400
  • postur@byggdastofnun.is
  • Opið frá kl. 8:30-12:00 & 13:00-16:00  | kt. 450679-0389