Fara í efni  

Flutningsjöfnuður höfuðborgarsvæðisns og annarra svæða í kreppunni

Gera má ráð fyrir að hægja muni á fjölgun íbúa á nágrannasvæða höfuðborgarsvæðisins í kreppunni eða þeim hreinlega fækka. Skipta má landinu upp í þrennt; höfuðborgarsvæði, landsbyggðina nær og fjær. Landsbyggðin nær eru staðir utan höfuðborgarsvæðisins en innan 120 km vegalengdar frá Reykjavík. Landsbyggðin fjær er öll svæði þess utan. Ef horft er til gömlu kjördæmanna má segja að Reykjanes, Suðurland og Vesturland tilheyri landsbyggðinni nær að mestu leyti.

Tveimur til fimm árum fyrir hrunið hafði flutningsjöfnuður höfuðborgarsvæðisins (aðfluttir umfram brottflutta) gagnvart nærliggjandi kjördæmum verið þeim í vil í fyrsta skipti í langan tíma (mynd til vinstri). Nú kveður við annan tón og er greinilegt af nýjustu tölum Hagstofunnar yfir árið 2008 og þá sérstaklega 2009 að þróunin hefur snúist við. Árið 2008 fluttust 750 fleiri frá höfuðborgarsvæðinu til Reykjaness heldur en frá Reykjanesi til höfuðborgarsvæðisins. Árið 2009 var þessi straumur  í hina áttina. Þá fluttu 350 fleiri til höfuðborgarsvæðisins frá Reykjanesi heldur en frá frá höfuðborgarsvæðinu til Reykjaness. Samskonar viðsnúningur á sér stað á Vesturlandi og Suðurlandi en í mun minna mæli.

Smellið á myndirnar til að sjá þærri í meiri upplausn

Breytingar á fasteignaverði og ferðakostnaði ráða trúlega miklu. Einstaklingar sem nú flytja til baka eru trúlega þeir sem fluttu af höfuðborgarsvæðinu á hagvaxtarskeiðinu vegna tækifæra í lægra fasteignaverði en héldu áfram vinnu sinni á höfuðborgarsvæðinu og óku á milli. En fleira kemur til. Minni umferð á götum höfuðborgarsvæðisins mun einnig renna stoðum undir þróunina. Þá forgangsraðar fólk með öðrum hætti þegar kreppir að vegna lægri tekna og náttúrugæði sem áttu sinn þátt í flutningi út á jaðarsvæðin á uppgangstímanum, reka nú lestina. Gera má jafnvel ráð fyrir að ófaglærðir geti séð sér hag í því að flytja til af landsbyggðinni nær til landsbyggðarinnar fjær þar sem skortur er á fólki til þeirra frumvinnslustarfa sem þar eru ríkjandi. Einhverjir kunna jafnvel að eiga eign þar ennþá, er þeir tóku sig upp í góðærinu og fluttu vegna hærri launa. Þegar horft er til fjarlægari kjördæma (Vestfjarða, Norðurlands-vestra, Norðurlands-eystra og Austurlands) er þróunin á hinn veginn. Þar virðist sambandið styrkjast gagnvart höfuðborgarsvæðinu a.m.k. það sem af er kreppunni (mynd til hægri). Akureyri lýtur algerri sérstöðu á landsbyggðinni fjær þar sem staða hennar minnir meira á blöndu af landsbyggðinni nær og höfuðborgarsvæðinu. Þess skal getið að hér er um skammtímaáhrif að ræða og búast má við að þegar kreppunni sleppir, munu búferlaflutningar lúta aftur hinum hefðbundnari lögmálum, þar sem höfuðborgarsvæðið og landsbyggðin nær styrkjast meira heldur en landsbyggðin fjær.

Vífill Karlsson
Atvinnuráðgjafi SSV og Lektor við Háskólann á Akureyri

Skráning á póstlista

  • Byggðastofnun  |  Sauðármýri 2  |  550 Sauðárkrókur 
  • Sími 455-5400
  • postur@byggdastofnun.is
  • Opið frá kl. 8:30-12:00 & 13:00-16:00  | kt. 450679-0389