Fara í efni  

Fólksfjölgun á landsbyggðinni?

Sú stefna hefur verið ráðandi í byggðamálum á Íslandi að viðhalda skuli og efla byggð alls staðar á landinu. Af almennri umræðu mætti þó ráða að þessi stefna hafi beðið skipbrot og flóttinn frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins sé óstöðvandi. Í framtíðinni verði Ísland borgríki á suðvesturhorninu með gríðarstóra náttúruparadís og frístundasvæði fyrir borgarbúa á meginhluta landsins.

Séu mannfjöldatölur Hagstofu Íslands skoðaðar blasir þó við nokkuð önnur mynd. Frá 1901–2010 fjölgaði Íslendingum úr tæpum 78 þúsundum þúsundum í tæp 320 þúsund. Fjölgunin var langmest á höfuðborgarsvæðinu en annars staðar á landinu fjölgaði íbúum engu að síður úr tæpum 70 þúsundum í tæp 118 þúsund eða um 67%. Fjölgunin var mismikil eftir landshlutum en verulegrar fólksfækkunar gætti aðeins á Vestfjörðum á þessu 110 ára tímabili.

Mannfjöldaþróun á Íslandi á 20. öld hefur einkennst af almennri þéttbýlisvæðingu fremur en fólksfækkun á landsbyggðinni sem slíkri. Árið 1901 voru Reykjavík, Ísafjörður og Akureyri einu þéttbýliskjarnar landsins þar sem íbúar voru fleiri en þúsund talsins. Árið 2010 átti það við um sjö byggðakjarna á höfuðborgarsvæðinu og 24 byggðakjarna utan þess. Þá bjuggu ríflega 80 þúsund Íslendingar eða fjórðungur þjóðarinnar í slíkum byggðakjörnum utan höfuðborgarsvæðisins. Þetta er talsvert meiri fjöldi en bjó á Íslandi öllu í upphafi 20. aldar.

Byggðakjarnar utan höfuðborgarsvæðisins með yfir þúsund íbúum dreifast nokkuð jafnt um landið. Fimm þeirra eru á Suðurnesjum, fjórir á Vesturlandi, fimm á Norðurlandi, fjórir á Austurlandi, fimm á Suðurlandi en aðeins einn á Vestfjörðum. Á tímabilinu 2001–2010 fjölgaði íbúum þessara byggðakjarna að meðaltali um 15% sem er nokkuð yfir landsmeðaltali. Þótt fólki fækki raunar í fimm þessara byggðakjarna er ekki ástæða til að hafa áhyggur af verulegri fólksfækkun í nema tveimur þeirra.

Staða þessara 24 byggðakjarna er nokkuð mismunandi eftir stærð og aðstæðum á hverjum stað en almennt einkennast þeir þokkalegum vinnumarkaði, þjónustu og afþreyingu og tiltölulega greiðum samgöngum við höfuðborgina og þar með við önnur lönd. Þeir mynda á vissan hátt net þéttbýlis á landsbyggðinni sem heldur smærri stöðum og dreifbýlinu í byggð.

Byggðakjarnar með færri en þúsund íbúa eru 64 talsins samkvæmt Hagstofu Íslands. Í þessum byggðakjörnum búa tæplega tuttugu þúsund manns og er íbúafjöldinn nánast óbreyttur frá því árið 2000. Tæpur þriðjungur þessara smærri byggðakjarna er í örri sókn og er fólksfjölgun þar næstum fjórfalt landsmeðaltal. Þessir kjarnar eru flestir innan áhrifasvæðis Reykjavíkur eða Akureyrar og hafa vaxið hratt í skjóli þeirra, en slíkir kjarnar hafa einnig byggst upp í kringum háskólastofnanir og ákveðna framhaldsskóla á landsbyggðinni.

Tæplega þriðjungur þeirra byggðakjarna sem telja færri en þúsund íbúa er í þokkalegu jafnvægi hvað íbúaþróun varðar en í rúmlega þriðjungi þeirra hefur verið veruleg fólksfækkun á síðustu árum eða 20% að meðaltali á síðasta áratug. Þessir byggðakjarnar eiga það flestir sameiginlegt að þar búa færri en 350 manns og fjarlægð til Reykjavíkur, Akureyrar eða Egilsstaða er meiri en hundrað kílómetrar. Miðað við óbreytta þróun má búast við að byggð leggist af í 4–8 þessara kjarna á næstu tuttugu árum.

Nokkur dæmi eru um það frá 20. öldinni að byggð hafi lagst af í byggðakjörnum af svipaðri stærð og má þar nefna Flatey á Breiðafirði, Djúpavík við Reykjarfjörð, Flatey á Skjálfanda og Skálar á Langanesi. Í opinberri umræðu um byggðamál hefur nánast legið blátt bann við því að ræða möguleikann á því að fleiri litlir byggðakjarnar leggist í eyði hér á landi. Nú virðist hins vegar óhjákvæmilegt að það muni í einhverjum tilvikum gerast og því mikilvægt að ræða þá þróun af skynsemi og alvöru.

Í þessu sambandi skiptir vilji íbúanna vitaskuld höfuðmáli. Nokkur dæmi eru um einangruð byggðarlög þar sem fáeinir tugir einstaklinga lifa í sátt og samlyndi. Nánast engin þjónusta er í boði á slíkum stöðum og atvinna, verslun, þjónusta, menntun og afþreying byggir á greiðum samgöngum við stærri þéttbýlisstaði. Í slíkum tilvikum hlýtur sanngjörn byggðastefna að fela í sér stuðning við íbúana til að búa áfram heima hjá sér á þessum forsendum.

Í öðrum tilvikum stefnir hugur margra íbúa hins vegar á brott og fólksfækkunin mun gera það ómögulegt fyrir hina að búa þar áfram. Í slíkum tilvikum má líta á mannfjöldaþróunina sem hamfarir á borð við eldgos, jarðskjálfta eða snjóflóð og spyrja mætti hvort bæta eigi íbúunum slíkt tjón á svipaðan hátt og Viðlagatryggingar bæta tjón vegna náttúrhamfara.

Mikilvægt er að umræða um þessi viðkvæmu mál koðni ekki niður í úreltri skiptingu landsins milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar. Aldrei í sögunni hafa jafnmargir búið á landsbyggðinni og mikill meirihluti býr í þéttbýli þar sem fólki fjölgar eða íbúafjöldinn stendur nokkurn veginn í stað. Víða þarf að efla atvinnulíf og þjónustu til frekari sóknar en það er langt því frá að landsbyggðin í heild sé í nauðvörn líkt og stundum mætti ráða af umræðu um byggðamál.

Um 1–3% þjóðarinnar býr hins vegar í byggðakjörnum utan höfuðborgarsvæðisins sem eiga við verulegan vanda að stríða og í sumum tilvikum er vandséð hvernig þeim byggðakjörnum verði bjargað. Mikilvægt er að mótuð verði varnarstefna fyrir þessi byggðarlög samhliða sóknarstefnu fyrir þau byggðarlög sem betur standa. Í því sambandi hljóta sjónir að beinast sérstaklega að bættum samgöngum og eflingu stærri þjónustukjarna sem stutt geta við fámennari byggðarlög í vanda.

Þóroddur Bjarnason lauk BA-prófi frá Háskóla Íslands árið 1991, meistaraprófi frá University of Essex í Bretlandi árið 1995 og doktorsprófi frá University of Notre Dame í Bandaríkjunum árið 2000. Hann er prófessor í félagsfræði við Háskólann á Akureyri og stundar rannsóknir á lífskjörum unglinga og byggðaþróun á Íslandi.

Fleiri greinar má sjá með því að smella á hnappinn Umræðan

Skráning á póstlista

  • Byggðastofnun  |  Sauðármýri 2  |  550 Sauðárkrókur 
  • Sími 455-5400
  • postur@byggdastofnun.is
  • Opið frá kl. 8:30-12:00 & 13:00-16:00  | kt. 450679-0389