Fara í efni  

Háskólastarfsemi á landsbyggðinni

Íslenska menntakerfið hefur ekki farið varhluta af þeim samfélagsbreytingum sem orðið hafa á íslensku samfélagin undanfarið og þá sérstaklega háskólasamfélagið. Vegna þeirra breytinga sem orðið hafa og til að standast samanburð við önnur vestræn ríki hafa kröfur um menntun þegnanna aukist.

Háskólar eða háskólastofnanir eru nú starfandi í öllum landshlutum og þar getur fólk valið um það að stunda staðnám, fjarnám eða sambland af hvoru tveggja. Tæknin hefur gert það kleift að nú skiptir búseta ekki máli, hægt er að stunda nám hvar sem er á landinu, jafnt við innlenda sem erlenda háskóla. Einnig hefur þáttur símenntunar aukist enda er sú stefna í gangi að fólk sé að læra allt sitt líf og það verði að halda þekkingu sinni við, eigi það að eiga möguleika á vinnumarkaði í síbreytilegum heimi.

Hér áður fyrr fór einungis ákveðinn hluti þjóðarinnar í háskólanám en í dag eru það nánast allir. Við það hefur háskólasamfélagið breyst því nemendur þess eru ólíkari en áður og hafa ólíkan bakgrunn. Sú kennsla sem boðið er upp á þarf því að vera fjölbreyttari til þess að mæta þessum ólíku þörfum. Með tilkomu fjarnámsins breyttust hlutirnir ennþá meira vegna þess að þá þurftu nemendurnir ekki að vera í skólanum til þess að geta stundað sitt nám. Hið fastmótaða háskólasamfélag og sú kennsla sem þar fór fram á meðan nemendurnir voru í staðnámi í skólanum hefur gert það að verkum að losnað hefur um og nemendur hafa meira val um það hvernig og hvaðan þekkingin sem þeir sækjast eftir kemur. Háskólasamfélagið getur ekki lengur stýrt því hvaða þekkingu nemendur eiga að tileinka sér né heldur á hvaða hátt það skuli gert.

Á landsbyggðinni hefur sama þróunin í menntamálum verið uppi á tengingnum. Landsbyggðafólk hefur sýnt mikinn áhuga á að mennta sig og gert kröfur um að sú tækni sem er til staðar í dag sé notuð til þess að það geti stundað nám í sinni heimabyggð. Þessi áhugi og sá þrýstingur sem íbúar landsbyggðarinnar hafa beitt, ásamt möguleikum sem sköpuðust með netinu, hafa leitt til þess að flestir háskólar landsins bjóða nú upp á fjarnám. Það hefur gjörbylt aðstæðum fólks á landsbyggðinni. Nú þarf fólk ekki að flytja til þess að fara í nám heldur getur það stundað nám í heimabyggð. Með því móti aukast líkurnar á því að fólk búi áfram í heimabyggð sinni og festi þar enn frekar rætur.

En það er ekki nóg að mennta fólk, atvinnutækifæri að loknu námi þurfa einnig að vera til staðar. Atvinnutækifærin fyrir háskólamenntað fólk hafa, til þessa, verið á höfuðborgarsvæðinu en það sama er ekki hægt að segja um landsbyggðina. Uppbygging háskólastofnana á landsbyggðinni og fjölgun atvinnutækifæra fyrir háskólamenntað fólk þarf að haldast í hendur. Sé það ekki gert frestum við einungis því að fólk flytji burt, það býr í heimabyggðinni á meðan það getur stundað nám en að því loknu flyst það þangað sem það getur fengið atvinnu við hæfi, hvort sem það er hér á landi eða erlendis. Með því að vinna að uppbyggingu háskólastofnana á landsbyggðinni og fjölgun atvinnutækifæra á sama tíma eru meiri líkur á að halda því fólki sem á landsbyggðinni býr og meiri líkur eru á að fá unga fólkið okkar til þess að flytja heim aftur og taka þannig þátt í að byggja upp samfélög á landsbyggðinni.

Það hefur lengi loðað við að sú þekking sem verður til á landsbyggðinni sé öll flutt á höfuðborgarsvæðið. Með þessu er átt við að venjan hefur verið sú að vísinda- og fræðimenn við háskólastofnanir hafa að rannsóknum loknum  unnið úr þeim og kynnt niðurstöður innan vísinda- og fræðasamfélagsins. Fólk á þeim landssvæðum þar sem rannsóknirnar voru gerðar veit oft á tíðum ekkert hvaða niðurstöður fengust úr rannsóknunum. Þekkingin sem varð til á ákveðnu landssvæði var flutt í burtu og heimamönnum ekki gert kleift að nýta niðurstöðurnar svæðinu til framdráttar. Þessu þarf að breyta og til þess þarfa að fjölga og efla rannsóknastofnanir á landsbyggðinni þannig að þær geti tekið þátt í og stundað sjálfstæðar rannsóknir. Vísindin mega ekki einungis vera vísindanna vegna eða aðeins fyrir þröngan hóp fræðasamfélagsins heldur til þess að efla skilning okkar á ákveðnum fyrirbærum og nýta þau í þágu fólksins í landinu.

Anna Guðrún Edvardsdóttir er fædd í Reykjavík árið 1960. Hún er stúdent frá Menntaskólanum í Hamrahlíð, lauk B.Ed. prófi frá Kennaraháskóla Íslands árið 1985 og meistaraprófi  í stjórnun menntastofnana við sama skóla ári 2004. Hún stundar nú doktorsnám við Menntavísindasvið Háskóla Íslands þar sem rannsóknarefnið er háskólamenntun og byggðaþróun.

Skráning á póstlista

  • Byggðastofnun  |  Sauðármýri 2  |  550 Sauðárkrókur 
  • Sími 455-5400
  • postur@byggdastofnun.is
  • Opið frá kl. 8:30-12:00 & 13:00-16:00  | kt. 450679-0389