Fara í efni  

Háskólinn á Hólum og mikilvægi háskóla fyrir landsbyggðina

Hólaskóli – Háskólinn á Hólum þróaðist frá bændaskóla sem stofnaður var 1882, en skólahald á Hólum má rekja aftur til ársins 1106.  Starf skólans er mikilvægt í margvíslegum skilningi, bæði hérlendis og erlendis. Skólinn einbeitir sér að sérhæfum viðfangsefnum sem hafa mikla svæðisbundna tengingu, þ.e. hestum, ferðamálum og auðlindum sjávar og vatna (þrjár deildir), og leggur mikla áherslu á rannsóknir og þróunarstörf.  Útskrifaðir nemendur hafa látið til sína taka á þessum sviðum. Skólinn tekur þátt í að efla þekkingarstarfsemi, atvinnu- og mannlíf á landsbyggðinni með margs konar samstarfi við sveitarfélög, fyrirtæki, stofnanir og þekkingarsetur,  ekki síst á Norðurlandi vestra. Aðalaðsetur Háskólans á Hólum er á Hólum en auk þess er skólinn með starfsstöð í Verinu vísindagörðum á Sauðárkróki, Háskólasetrinu á Blönduósi og Selasetrinu á Hvammstanga.  Skólinn er þátttakandi í viðamiklum verkefnum í fornleifafræði og fræðum varðandi menningararf í Skagafirði. Samhliða eflingu háskólastarfs hafa umsvif skólans aukist umtalsvert, sem m.a. kemur fram í fjölgun starfsfólks og allt að fjórföldun nemendafjölda á síðustu tíu árum. Metaðsókn er að skólanum fyrir næsta skólaár, en umsóknum fjölgaði um 46% milli ára. Á árunum 1998-2008 fjölgaði íbúum með lögheimili á Hólum um 30%. Athugun á efnahagslegum áhrifum skólans á nærumhverfið sýnir að neyslutekjur svæðisins eru miklar og tilvist skólans styrkir grunnstoðir samfélagsins í Skagafirði, t.d. þjónustu Grunnskólans austan Vatna.  Tilvist Háskólans á Hólum hefur beint og óbeint eflt margvíslega aðra þekkingarstarfsemi í héraðinu, bæði með því að laða að nýja starfsemi og með víðtæku samstarfi við aðila utan héraðs og alþjóðlega. Í íbúakönnun á Norðurlandi vestra kom fram að 92% svarenda telja skólann mikilvægan fyrir svæðið.

Starfsemi háskóla  hefur stóraukist um allan heim undanfarinn áratug og þessi þróun hefur verið mjög greinileg hérlendis. Þannig tvöfaldaðist fjöldi íslenskra háskólanema  á tímabilinu 1997- 2006.  Samhliða þessu hefur almenn áhersla á samfélagslegt mikilvægi háskóla stóraukist. Þetta sést m.a. í fjölgun háskólastofnana og þekkingarsetra í dreifðum byggðum, sem og þróun fjar- og dreifnáms, bæði erlendis og hérlendis. Sveitarfélög og fyrirtæki leggja sífellt meiri áherslu á að styrkja með öllum tiltækum ráðum starfsemi á háskólastigi í heimabyggð. Því virðist sem sú almenna staðreynd að háskólar séu grundvöllur öflugs atvinnulífs og menningar þjóða birtist okkur nú í æ ríkara mæli í smærri og dreifðari samfélagseiningum.  Stofnun Háskólans á Akureyri árið 1987 markaði viss tímamót í þessum efnum hérlendis, en í kjölfarið fylgir síðan efling háskólastarfs á Bifröst, Hvanneyri og Hólum. Á sama tíma stóreflir Háskóli Íslands starfsemi fræðasetra á landsbyggðinni og einnig eru stofnuð sjálfstæð háskólasetur og háskólanámssetur, m.a. tengd símenntunarmiðstöðvum, víða um land.

Efnahagsleg- og menningarleg áhrif aukins háskólastarfs í dreifðum byggðum eru mjög greinileg og vel þekkt víða um heim. Í fyrsta lagi fjölgar háskólanemum á viðkomandi svæðum. Í öðru lagi hækkar menntunarstig íbúa bæði vegna þess að brautskráðir nemendur eru líklegri en ella til að setjast að í héraðinu og vegna þess að háskólastarfsemin krefst háskólamenntaðs fólks í akademísk störf og fólks með góða menntun, ef ekki háskólamenntun, í önnur störf. Háskóli laðar enn fremur að nemendur í framhaldsnám (meistara- og doktorsnema). Í þriðja lagi hefur háskólastarfið og hærra menntunarstig íbúa jákvæð áhrif á efnahag og menningu. Þetta felst fyrst og fremst í aukinni fjölbreytni, nýsköpun og fagmennsku; sem styrkir atvinnu- og mannlíf, laðar að fleira fólk og eykur tengsl og samstarf innan og utan héraða. Í fjórða lagi hefur háskólastarf jákvæð áhrif á sjálfsmynd íbúa og ímynd samfélaga; háskólarnir og fólk sem þeim tengist taka t.d. þátt í margs konar samfélagslegum verkefnum þar sem þekking og menntun hefur jákvæð og hvetjandi áhrif.Í fimmta lagi hafa umsvif háskólastarfsins margvísleg bein og óbein efnahagsleg og menningarleg áhrif, svo sem á útsvars- og neyslutekjur sveitarfélaga og þjónustufyrirtækja af starfsfólki og nemendum; og ekki síður á rekstrarforsendur grunnstofnana samfélaga svo sem leikskóla og grunnskóla.  Síðast en ekki síst má nefna að efling staðbundins háskólastarfs eykur aðgengi fræðimanna og nemenda almennt að mikilvægum auðlindum náttúru og menningar til rannsókna, sem í mörgum tilfellum tengjast héraðsbundinni sérstöðu. Þetta eykur gæði og árangur rannsókna, eflir samstarf og styttir ferðalög í stóru landi. Ýmis fleiri atriði mætti draga fram. Í stuttu máli má greina öll ofangreind áhrif aukins háskólastarfs á landsbyggðina hérlendis og rannsóknir staðfesta það að hluta.

En mikilvægt er að gera sér grein fyrir að stutt er síðan þessi þekkingarvæðing landsbyggðarinnar hófst hérlendis og að atburðarásin hefur bæði verið hröð og ekki alltaf fylgt sérstökum áætlunum eða stefnu. Þó hafa byggða- og sóknaráætlanir sveitarfélaga og ríkisins í æ ríkara mæli falið í sér eflingu hvers kyns þekkingarstarfsemi í heimabyggð.  Ljóst er að með því að virkja þann kraft sem þessi þróun felur í sér og hugsa á heildrænan og skipulegan hátt um framtíð háskólastarfs um land allt er hægt að ná miklum árangri, bæði hvað snertir kennslu og rannsóknir háskóla, sem og samfélagslegt hlutverk þeirra.

Skúli Skúlason
Rektor Hólaskóla, Háskólans á Hólum

Skráning á póstlista

  • Byggðastofnun  |  Sauðármýri 2  |  550 Sauðárkrókur 
  • Sími 455-5400
  • postur@byggdastofnun.is
  • Opið frá kl. 8:30-12:00 & 13:00-16:00  | kt. 450679-0389