Fara í efni  

Hugleiðingar um gildi landshlutamiðla

Tæknibreytingar í blaðaútgáfu á þeim nærri þremur áratugum sem liðnir eru frá stofnun Bæjarins besta á Ísafirði hafa verið miklar og hraðar. Hlutverk miðla sem þjóna einstökum landshlutum eða svæðum hefur þó ekki breyst. Sérstaða þeirra gagnvart miðlum á landsvísu er hin sama og var. Erlendir fjölmiðlar flytja stöku sinnum fréttir frá Íslandi en hérlendis koma þeir ekki í staðinn fyrir íslenska fjölmiðla. Á sama hátt koma fjölmiðlar á landsvísu ekki í staðinn fyrir landshlutamiðla.

Svæðismiðill er í miklu nánara sambandi við fólkið sem hann þjónar en miðill á landsvísu. Í svæðismiðli er hægt á markvissan hátt að koma á framfæri og jafnframt að fylgjast með því sem fram fer á svæðinu.

Svæðismiðill flytur fréttir í návígi og greinir frá óteljandi smærri viðburðum sem miðlar á landsvísu sinna ekki og geta með engu móti sinnt. Svæðismiðill á ef til vill erfiðara um vik en miðill á landsvísu að stunda harðvítuga rannsóknarblaðamennsku í sínu heimahéraði þar sem allir þekkja alla, en á móti kemur, að þessu návígi fylgja ómetanlegir kostir hvað varðar öflun frétta.

Svæðismiðill er besti vettvangur skoðanaskipta í héraði sem völ er á.

Auglýsingar í svæðismiðli ná með markvissari hætti til ákveðins landshluta eða svæðis en auglýsingar í miðlum á landsvísu. Auk þess sem auglýsingar í héraðsmiðli þjóna þannig hlutverki sínu betur – eru betri auglýsingar – eru þær ódýrari. Fyrir utan það sem hér hefur verið nefnt er landshlutamiðill með vissum hætti sameiningartákn landshlutans. Hann stuðlar að samkennd fólksins sem þar býr. Landshlutamiðlar eru einhver beittustu vopnin í þrotlausri varnarbaráttu landsbyggðarinnar, baráttu byggðanna fyrir tilveru sinni og framtíð.

Þrátt fyrir það sem hér hefur verið rakið heyrir maður nánast aldrei viðurkenningarorð. Í því felst þó kannski einmitt mesta viðurkenningin. Kannski er Bæjarins besta og útgerð þess í nærri þrjátíu ár svo sjálfsagður hluti af daglegu lífi að óþarfi sé að minnast á það! Þegar Bæjarins besta hóf göngu sína var Netið ekki til og menn óraði ekki fyrir því sem koma myndi. Núna eru liðin rúm tólf ár frá því að vefútgáfa Bæjarins besta fór í loftið – vefurinn bb.is, sem hefur alla tíð verið afar mikið sóttur og er enn í dag, eins og fram kemur í samræmdri vefmælingu Modernus.

Reynslan sýnir, að á okkar hraðfleygu tímum er sífellt erfiðara að spá fyrir um breytingar – á nánast öllu í daglegu lífi. Ekki verður neinu spáð hér um það hvenær prentmiðlar líða undir lok, verða undir í samkeppninni við netmiðla og ljósvakamiðla, en að því hlýtur að koma. Hvergi á landinu var blaðaútgáfa eins öflug alla síðustu öld og á Ísafirði. Mjög lengi framan af var þar þó um pólitísk blöð að ræða. Þau fluttu vissulega ýmsar almennar fréttir en megintilgangur þeirra var pólitískur áróður og þau lituðust mjög af því. Tilkoma óháðra landshlutablaða á síðasta fjórðungi síðustu aldar, ekki aðeins á Ísafirði heldur um allt land, var mikil framför. Pólitísku blöðin ólu á sundrungu í héraði, þveröfugt við það sem óháðu miðlarnir gera.

Jafnvel á þeim stutta tíma sem liðinn er frá því að vefútgáfur landshlutablaða hófu göngu sína hafa orðið miklar breytingar á því sviði. Ekki aðeins tækniframfarir heldur það sem meira máli skiptir – sá mikli fjöldi lítilla fréttavefja í nánast hverri byggð og hverjum hreppi sem komið hefur til sögunnar. Þar er annars vegar um vefi sveitarfélaga að ræða og hins vegar einkaframtak.

Framan af þjónaði vikublaðið Bæjarins besta fyrst og fremst norðanverðum Vestfjörðum – Ísafirði og núverandi Ísafjarðarbæ, Bolungarvík og Súðavík. Fyrst og fremst hefur blaðið stundað sjálfstæða fréttaöflun og fréttavinnslu á því svæði og gerir enn. Núna þjónar bb.is hins vegar öllum Vestfjarðakjálkanum. Fylgst er með litlu vefjunum á skipulegan hátt. Vitnað og vísað er í fréttir þeirra, þær eru teknar upp og þeim er miðlað til miklu fleiri lesenda. Fylgst er með fundargerðum sveitarstjórna og undirnefnda þeirra um alla Vestfirði og fréttir unnar úr því sem þar kemur fram. Þetta hefur svo haft það í för með sér, að stöðugt oftar er haft samband við bb.is til að benda á fréttnæma viðburði um allan kjálkann.

Svæðismiðill þjónar ekki aðeins fólkinu sem búsett er á svæðinu. Hann þjónar líka brottfluttum og öðrum sem vilja í fjarlægð fylgjast á markvissan og auðveldan hátt með því sem fram fer á tilteknu svæði eða í tilteknum landshluta. Svæðismiðill er gluggi þar sem hægt er að kíkja inn og skoða sig um á svæðinu sem hann þjónar.

Barátta landshlutablaðanna fyrir tilveru sinni síðustu áratugina hefur verið háð á ýmsum vígstöðvum. Þar má nefna aukna skattlagningu, en ekki síður dreifingarkostnaðinn, sem hefur jafnt og þétt orðið þyngri byrði og stærri hluti af kostnaðinum við útgáfuna. Framfarir og hagræðing í flestum greinum virðast einhvern veginn ekki hafa náð til póstþjónustunnar. Prentaða blaðið fær hluta af tekjum sínum af auglýsingum en verður jafnframt að treysta á áskriftarsölu og lausasölu. Vefurinn er hins vegar eingöngu háður tekjum af auglýsingum.

Fyrir kemur að fólk segir upp áskriftinni með þeim ummælum, að þetta komi allt á vefnum. Það er mikill misskilningur. Efni prentaða blaðsins og vefjarins skarast ekki nema að nokkrum hluta. Blaðið og vefurinn styðja hvort annað og bæta hvort annað upp. Burðarefnið í blaðinu kemur alls ekki á vefinn, svo sem mannlífsviðtölin stóru í sérhverju tölublaði, sem hafa verið aðalsmerki Bæjarins besta allt frá árinu 1986 eða í rúman aldarfjórðung. Þau eru sannkallaður aldarspegill og fjársjóður til framtíðar.

Rekstur fréttavefja er einfaldari og ódýrari en útgáfa og dreifing prentaðra blaða, auk þess sem fréttir og auglýsingar eru komnar til lesenda á einu andartaki. Dagurinn þegar síðasta fréttablaðið verður prentað á pappír hérlendis, hvort sem það verður dagblað eða landshlutablað, mun rata á spjöld sögunnar.

Sigurjón J. Sigurðsson stofnaði vikublaðið Bæjarins besta á Ísafirði árið 1984 ásamt Halldóri Sveinbjörnssyni og hefur verið ritstjóri þess alla tíð.

 

 

 

 

 

 

 

 

Skráning á póstlista

  • Byggðastofnun  |  Sauðármýri 2  |  550 Sauðárkrókur 
  • Sími 455-5400
  • postur@byggdastofnun.is
  • Opið frá kl. 8:30-12:00 & 13:00-16:00  | kt. 450679-0389