Fara í efni  

Reglur um skuld- og skilmálabreytingar

Hér má nálgast umsóknareyðublað um skuldbreytingu.

Í þessum kafla er að finna reglur um skuldbreytingar og breytingar á skilmálum skuldabréfa og lánssamninga sem kunna að leiða til eftirgjafar skulda eða annarra ívilnana fyrir skuldara, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 107/2009.

Umsóknum um skuld- eða skilmálabreytingar skal beint til lánasérfræðings á fyrirtækjasviði Byggðastofnunar. Umsóknum skulu fylgja nauðsynleg gögn og upplýsingar um stöðu fyrirtækis til þess að afstöðu sé hægt að taka til beiðninnar. Lánasérfræðingur skal gera tillögu um afgreiðslu málsins til lánanefndar Byggðastofnunar sem tekur ákvörðun um afgreiðslu.

Með úrræðum þessa kafla um skuld- og skilmálabreytingar skal leitast við, eftir því sem mögulegt er, að jafnvægi komist á virði eigna viðskiptavinar og greiðslugetu, og fjárskuldbindingar fyrirtækja.

Við afgreiðslu lánanefndar skal einkum litið til eftirfarandi atriða:

Eigna- og skuldastöðu lántaka. Ekki er ætlast til þess að eftirgjöf skulda leiði til jákvæðrar eiginfjármyndunar hjá lántaka. Er það skilyrði því í raun sett fyrir skilmálabreytingum lánssamninga sem kunna að leiða til eftirgjafar skulda, að ekki séu til nægar eignir eða tryggingar fyrir skuldum lántakenda og er það í samræmi við ákvæði 16. gr. reglugerðar fyrir Byggðastofnun nr. 347/2000. Hins vegar ber að líta til þess að þróun á fjármálamörkuðum síðasta ár getur að verulegu leyti skekkt eignastöðu lántaka sem þarf þó ekki alltaf að útiloka að með breyttum eða endurnýjuðum lánssamningum sé grundvöllur fyrir áframhaldandi rekstri hans.

Þá skal einnig taka tillit til greiðslugetu lántaka og leggja þannig mat á rekstrargrundvöll hans með hlutlægum hætti, þ.e. fyrirsjáanlegs sjóðstreymis hjá fyrirtækjum og tekjumöguleikum hjá einstaklingum, og þess gætt að skuldastaða sé með þeim hætti að lántakar sjái sér fært að greiða af lánum með fyrirsjáanlegu sjóðstreymi, hvort sem er úr rekstri eða af launatekjum. Við mat á sjóðsstreymi er horft til þess hvort rekstrarafkoma fyrir afskriftir og fjármagnsliði sé jákvæð, enda er það forsenda þess að fyrirtækið geti greitt af skuldum sínum. Við mat á sjóðsstreymi skal litið til rekstraráætlunar fyrirtækis með hliðsjón af sögulegri afkomu þess og horfum í ytra umhverfi.

Lánanefnd skal leggja mat á hæfi lántakenda, stjórnenda og eigenda fyrirtækja til að efna samninga um skuldbreytingar og breytingar á skilmálum lánssamninga, en óumflýjanlegt er að taka tillit til þess við mat á greiðsluhæfi fyrirtækja hvort eigendur og stjórnendur þeirra njóti trausts og trúnaðar hjá Byggðastofnun. Óhjákvæmilega er hérna að einhverju leyti um huglægt mat lánanefndar að ræða, en meðal þeirra atriða sem taka má tillit til eru til dæmis samstarfsvilji lántaka, upplýsingagjöf af hans hálfu og hvort lántaki hafi út frá fyrri samskiptum sínum við stofnunina sýnt í verki að hann muni ná þeim markmiðum sem skulda- og skilmálabreytingar kveða á um. Hér vegur viðskiptasagan þungt.

Skilyrða má skuld- og skilmálabreytingar, t.d. með því að takmarka launagreiðslur til stjórnenda og eigenda fyrirtækja og aðila tengdra þeim, banna arðgreiðslur tímabundið, banna samruna og sölu eigna, nema með sérstöku samþykki Byggðastofnunar. Jafnframt er ljóst að ekki er unnt að ná fram skuld- eða skilmálabreytingu án þess að nauðsynleg gögn um efnahag og rekstur lántaka, gagna sem eru eftir atvikum staðfest eða könnuð af endurskoðendum, þegar um fyrirtæki er að ræða, og gögn um efnahag og greiðslugetu þar sem um einstaklinga er að ræða, séu lögð fram til stofnunarinnar.

Telji lántaki vafa leika á lögmæti eða réttmæti kröfu Byggðastofnunar á hendur honum, og telji hann sig eiga rétt á niðurfellingu láns í heild eða að hluta af þeim sökum skal hann beina ítarlega rökstuddri kröfu um slíkt til lánanefndar stofnunarinnar sem skal taka afstöðu til erindisins. Niðurstöðu lánanefndar í slíkum málum er heimilt að skjóta til stjórnar Byggðastofnunar.

Lánanefnd skal gæta samræmis við ákvörðunartöku um skuldbreytingar og breytingar á skilmálum er leiða til eftirgjafar skulda, eftir því sem unnt er.

Allar ákvarðanir um skuld- og skilmálabreytingar skulu bókaðar í fundargerðir lánanefndar Við afgreiðslu beiðna um skuld- og skilmálabreytingar skal lánanefnd taka mið af samkeppnislögum og áliti Samkeppniseftirlitsins nr. 3/2008, um ákvarðanir banka og stjórnvalda um framtíð fyrirtækja á samkeppnismörkuðum.

Lánanefnd getur ákveðið að lengja í lánum viðskiptavinar í samræmi við greiðslugetu, kveðið á um að hann skuli einungis greiða vexti af lánum sínum í ákveðinn tíma og ákveðið breytingar á gjalddögum.

Jafnframt getur lánanefnd ákveðið að mæla með að lán viðskiptavinar séu sett í greiðslujöfnunarferli í samræmi við samþykkt stjórnar Byggðastofnunar frá 20. maí 2009 þar sem samþykkt var að taka upp greiðslujöfnun erlendra lána, svokölluð teygjulán. Miðað verður við stöðu láns 2. maí 2008 þegar greiðslumark er fundið. Lánanefnd hefur þó heimild til að víkja frá þeirri reglu og miða greiðslumark við greiðslugetu viðskiptavinar.

Greiðslumark skal að öllu jöfnu vera tengt vísitölu neysluverðs en Lánanefnd verði þó heimilt að víkja frá þeirri reglu í undantekningartilfellum og hafa hana óverðtryggða. Heimild verður sett í skilmálabreytingar á þann veg að hægt verði að endurskoða greiðslujöfnunin ef sýnt þykir að lánstími lengist umfram 50% af upphaflegum lánstíma. Mögulegt verður að hætta við greiðsluaðlögun ef viðskiptavinur óskar þess, auk þess sem Byggðastofnun verður heimilt að fella greiðslujöfnun niður. Þá er viðskiptavini heimilt að greiða inn á höfuðstól lána og gjalddaga sem eru í greiðslujöfnun.

Ákvarðanir um breytingu lána í hlutafé í heild eða hluta, sem og ákvarðanir um niðurfellingu lána í heild eða að hluta skulu áfram háðar samþykki stjórnar og umsögn Ríkisendurskoðunar í samræmi við önnur ákvæði reglna þessara og reglugerðar nr. 347/2000 fyrir Byggðastofnun.

Samþykkt á fundi stjórnar Byggðastofnunar 18. desember 2009, 30. ágúst 2010 og 6. desember 2013 og staðfestar af Fjármálaeftirlitinu 16. september 2010.

Skráning á póstlista

  • Byggðastofnun  |  Sauðármýri 2  |  550 Sauðárkrókur 
  • Sími 455-5400
  • postur@byggdastofnun.is
  • Opið frá kl. 8:30-12:00 & 13:00-16:00  | kt. 450679-0389