Fara í efni  

Mikilvægi þekkingarstarfsemi í byggðaþróun

Í áfangaskýrslu starfshóps um þekkingarsetur á Íslandi er að finna grunnupplýsingar um  starfsemi 189 starfsstöðvar þekkingarsetra á landsbyggðinni, en þar störfuðu 864 starfsmenn í 552 stöðugildum árið 2009.

Um er að ræða mjög fjölbreytta starfsemi með tilheyrandi efnahags- og menningarlegum áhrifum á hverju svæði. Fullyrða má að umfang og fjölbreytileiki þessarar starfsemi komi mörgum á óvart.

Þekkingarstarfsemi á landsbyggðinni einkennist af smáum en fjölbreyttum einingum. Háskóla- og rannsóknastarfsemi og tengsl hennar við atvinnulífið og stoðkerfi þess hefur jákvæð áhrif á samfélög, t.d. á fjölbreytni í atvinnu- og mannlífi. Menningarstarfsemi býr í haginn fyrir nýsköpun,hún eykur framtakssemi í atvinnulífi svæða og dregur að menntað vinnuafl.

Í stefnu Vísinda- og tækniráðs er lögð áhersla á að efla stoðir rannsókna og nýsköpunar til sóknar í atvinnulífi og samfélagi. Lögð er sérstök áhersla á aukið samstarf háskóla, stofnana og fyrirtækja við rannsóknir og nýsköpun.

Á Íslandi er fjöldi háskóla, stofnana, hugvitsmanna og fyrirtækja sem stunda rannsóknir og nýsköpun og við núverandi aðstæður þarf að nýta sem best þá krafta. Þó samstarf þessara aðila hafi aukist mikið á undanförnum árum verður að efla það enn frekar.

Samþætt áætlanagerð hefur verið mikið í umræðunni að undanförnu og bætt vinnubrögð ríkis og sveitarfélaga á því sviði. Stefna Sóknaráætlunar er að styrkja menntun og menningu, nýsköpun og þróun, umhverfismál og samfélagslega innviði. Heildstæð sýn og sameiginleg markmið tryggja markvissari og öflugri áætlanagerð bæði á landsvísu en ekki síður fyrir einstök landssvæði, þar sem byggt er á greiningu á styrkleikum og veikleikum hvers svæðis fyrir sig og dregin er fram lykilhæfni svæðisins ásamt skýrri forgangsröðun og framtíðarsýn.  Með lykilhæfni svæðis á ég ekki einvörðungu við auðlindir náttúrunnar heldur ekki síður  viðkomandi samfélags í víðum skilningi þ.m.t. þekkingu, færni og virkni íbúa og atvinnulífs auk menningarlegs bakgrunns þess og áherslur.

Hefðbundin skipting auðlinda í náttúruauðlindir, vinnuafl og fjármagn er takmarkandi. Þekking er einnig auðlind sem markar nýjar leiðir til auðlindanýtingar. Þverfaglegt þekkingarsamfélag er forsenda öflugs og framsækins atvinnulífs og það er hægt að byggja upp hvar sem menningarlegar forsendur leyfa. Með aukinni samþættingu í starfi þekkingarsetra getur orðið til sú grunnstoð sem að hluta a.m.k. er forsenda öflugrar svæðisbundinnar þróunar.

Þekkingarsamfélagið tekur til allra atvinnugreina og er grundvöllur allrar skynsamlegrar og sjálfbærrar auðlindanýtingar. Forsenda skilvirkrar nýsköpunar er flæði þekkingar á milli fyrirtækja, háskóla, rannsóknastofnana og samfélags. Byggja þarf upp virk samskiptanet þekkingarsetranna því samskipti og samstarf eru mikilvægir þættir í rannsóknum og þróun. Slík samskipti eru lykillinn að því að umbreyta rannsóknum og þróun í nýsköpun, vöruþróun, viðskiptatækifæri og samfélagsumbætur.

Raunveruleg nýsköpun getur aðeins sprottið úr öflugum menningarjarðvegi. Því þarf að samþætta nýja þekkingu við rótgróna, svæðisbundna þekkingu. Það skapar hverju svæði fyrir sig sérstöðu sem styrkir stöðu þess.

Samhliða uppbyggingu þekkingarsamfélagsins víða um land hefur þátttaka í verkefnum ýmissa fjölþjóðlegra samstarfsáætlana stóraukist og þá sérstaklega evrópskra. Stór alþjóðleg samstarfsverkefni kalla oftar en ekki á þverfaglega nálgun að viðfangsefnum og því er mikilvægt að þátttakendur þekkingarsamfélagsins séu í þverfaglegu samstarfi til að geta nýtt sér þau tækifæri sem bjóðast og horfa til hagsbóta fyrir svæðisbundna þróun.  Sem dæmi um fjölþjóðlega samstarfsáætlun má nefna Norðurslóðaáætlun (NPP) en þar hafa Íslendingar tekið þátt í nærri 50 samstarfsverkefnum sem næstum öll eru staðsett á landsbyggðinni.

Þórarinn Sólmundarson, sérfræðingur á Þróunarsviði Byggðastofnunar.

Skráning á póstlista

  • Byggðastofnun  |  Sauðármýri 2  |  550 Sauðárkrókur 
  • Sími 455-5400
  • postur@byggdastofnun.is
  • Opið frá kl. 8:30-12:00 & 13:00-16:00  | kt. 450679-0389