Fara í efni  

Um starfsumhverfi fyrirtækja á landsbyggðinni

Helgina 11.-12. mars síðastliðinn var haldið námskeið á Bifröst með verslunareigendum og verslunarstjórum dreifbýlisverslana af öllu landinu. Þetta var önnur vinnuhelgin af þremur í námskeiði sem nefnist Blómstrandi Dreifbýlisverslun. Námskeiðið er sett á laggirnar sem tilraunaverkefni og byggir á fyrirmynd frá Noregi en þar hefur verið rekið með góðum árangri verkefni sem nefnist Merkúr programmet.  Námskeiðið á Íslandi er hluti af þriggja ára NPP verkefni sem heitir Retail in Rural Regions, alla jafna nefnt RRR, sem unnið hefur verið á vegum Rannsóknarmiðstöðvar verslunarinnar, Byggðastofnunar og þriggja atvinnuþróunarfélaga: Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða, SSNV og Atvinnuþróunafélag Þingeyjarsýslu. Verkefninu RRR lýkur á þessu ári og verður lokaráðstefna þess haldin í Þingeyjarsýslu í nóvember 2011.  Í verkefninu var komið á  tengslaneti milli nokkurra svæða á norðurslóðum sem eiga við sambærileg byggðavandamál að stríða. Dreifðar byggðir með viðvarandi fólkfækkun, erfiðar, dýrar og langar flutningsleiðir fyrir aðföng svo dæmi séu nefnd.

Í verkefninu er horft til starfandi fyrirtækja í verslun og þjónustu í dreifbýli, allt frá litlum einyrkjum í matvöruverslun til Samkaupsverslana.  Eins er horft til sérvöruverslana ýmiss konar  ss. bókabúðir, blómaverslanir, sportvöruverslanir og fataverslanir hringinn í kringum landið. Verkefninu er ætlað að styrkja stoðir landsbyggðarinnar með því að veita þeim sem reka slíkar verslanir ráðgjöf og þjálfun. Hér er reynt að takast á við þau vandamál og álitaefni sem þessi fyrirtæki standa frammi fyrir en hlutverk verslana í dreifbýli er stórlega vanmetið. Sú mótsögn er ríkjandi að þegar verslunin hverfur úr byggðarlaginu flytjast síðustu íbúarnir á brott og þegar íbúum fer fækkandi er ekki lengur grundvöllur fyrir rekstri verslunar. Í verkefninu verða lagðar fram tillögur og ábendingar til sveitarstjórna og ríkisvaldsins um skilvirkar stuðningsaðgerðir til að halda verslun við lýði í litlum byggðarlögum.  

Hár flutningskostnaður bæði fyrir aðföng og afurðir á markað, stopular samgöngur og léleg samningsstaða við birgja vegna smæðar heimamarkaðarins eru þau vandamál sem starfandi verslunarfyrirtæki standa helst frammi fyrir sem áskoranir. Í þeim erfiðleikum sem verslunareigendur eiga sameiginlegt á landsbyggðinni kristallast vandi lítilla og meðalstórra fyrirtækja á landsbyggðinni, bæði í verslun, þjónustu og litlum iðnaði, sem og stærri fyrirtækja. Ný fyrirtæki og frumkvöðlar á landsbyggðinni horfa fram á sömu vandamálin þegar þau íhuga að hefja rekstur. Hér á Vestfjörðum eru lítil iðnfyrirtæki, sprotarnir okkar, að hugsa sér til hreyfings suður þar sem hátt raforkuverð, hár flutningskostnaður aðfanga og afurða á markað er hreinlega að sliga þau. Mikil áhersla hefur verið lögð í stoðkerfinu á tækifæri í nýsköpun bæði í starfandi fyrirtækjum og hugmyndir að  stofnun  nýrra sprotafyrirtækja.  Sú stefna er tilgangslaus ef ekki er hlúð að þeim fyrirtækjum  og atvinnuvegum sem fyrir eru. 

Enginn velkist í vafa um að fyrirtækjum og fólki heldur áfram að fækka úti á landi ef ekkert er að gert. Allt tal um samgöngubætur sem myndu lækka flutningskostnað er stimplað sem kjördæmapot. Samgöngubætur eru reiknaðar út frá arðsemismati, fjölda íbúa og hagkvæmni út frá núverandi umferð. Talað er um kostnað á höfðatölu í því sambandi. Eins og bættar samgöngur munu ekki hafa áhrif á það að vegirnir verði nýttir af fólki af öllu landinu. Hvað þá að umferð muni aukast eða að fólki ætti  jafnvel eftir að fjölga á  hinum endanum á veginum.  Viljinn til að  jafna þann aðstöðumun sem fyrirtæki á landsbygginni búa við þegar horft er til flutningskostnaðar er að því er virðist enginn hjá stjórnvöldum, hvorki í dag né hefur verið undanfarin ár. Það er eins og það sé órjúfanlegt lögmál að í dreifbýli þurfi að vera hátt vöruverð, lélegir vegir og hár flutningskostnaður. Því til stuðnings má benda á skýrslur á skýrslur ofan og aðgerðarleysið í kjölfarið.

Skýrslur um flutningskostnað eru fjölmargar, þar má helst nefna þessar. Skýrslu nefndar sem Samgönguráðuneytið skipaði árið 2003 þar sem ma.  er bent á þann  ójöfnuð sem skapast með álagningu virðisaukaskatts á flutningskostnað[1]. Skýrsla Byggðastofnunar frá  2004 heitir   Könnun á flutningskostnaði framleiðslufyrirtækja á Íslandi.  Tillögur starfshóps um jöfnun  flutningskostnaðar sem viðskiptaráðherra skipaði í í desember 2007,  komu fram  í júní 2008,  þar sem lagðar eru til aðgerðir um jöfnun flutningskostnaðar  að norskri fyrirmynd [2]. Þessar tillögur voru aldrei teknar lengra. Þar kemur fram sérálit fulltrúa Fjármálaráðneytisins sem sér enga ástæðu til að grípa til sértækra aðgerða og grípa þar af leiðandi inn í eðlilega verðmyndun á markaði.  Álit Samkeppnisstofnunar kemur jafnframt fram þar sem haldið er fram að ekki sé hægt að halda uppi einhvers konar flutningsjöfnun án þess að það sé í andstöðu við samkeppnislög. Vert er að benda á að  það er ekkert sett út á fákeppnina og þá staðreynd að  að það eru tvö flutningsfyrirtæki allráðandi á markaðnum. Markaðs og samkeppnissjónarmið eru eingöngu túlkuð landbyggðinni í óhag. Einnig er vert að benda á skýrslu sem gerð var fyrir samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið í maí 2010, sem ber heitið Mat á hagkvæmni strandflutninga[3].  

Greiningarvinna Þórodds Bjarnasonar prófessors við hug- og félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri sem hann kynnti á fyrirlestri sem hann hélt í október 2010 við Háskólasetur Vestfjarða, sýndi  svo ekki er um villst að landsbyggðin greiðir meira en hún fær tilbaka. Fyrir hverjar 2 krónur sem landsbyggðin aflar verður 1 króna eftir í Reykjavík.  Hagstofan birtir upplýsingar um hagtölur atvinnugreina ofl. en hvers vegna er ekki hægt að flokka og birta þær eftir fjórðungum, landssvæðum, sveitarfélögum þannig að það sé ekki alltaf látið að því liggja að fólk ,,úti á landi“ sé alltaf betlandi um fjármagn? Þetta ríkjandi skilningsleysi á mikilvægi landsbyggðarinnar fyrir hagkerfið í heild og  skortur á aðgengilegum upplýsingum um  þær útflutningstekjur sem hér skapast er hrópandi. Kröfur landbyggðarinnar um bættar samgöngur, umræða um háan flutningskostnað og ákall til leiðréttingar á samkeppnisumhverfi fyrirtækja og bættum íbúaskilyrðum er mætt af algjöru skilningsleysi á ójöfnuðinum sem ríkir milli höfuðborgarinnar og landsbyggðarinnar. Horft er framhjá mikilvægi þessara byggðarlaga út frá áhrifum þeirra á heildarhagkerfið og framleiðslu útflutningsverðmæta. Hér er ekki verið að fara fram á neinar ölmusur  heldur er verið  að fara fram á sanngjarna leiðréttingu á  samkeppnisskekkjunni  í starfsumhverfi fyrirtækja á landsbyggðinni. Hér þarf að horfa á heildarmyndina og styðja starfandi  fyrirtæki  til frekari atvinnuuppbyggingar á landsbyggðinni sem byggja á mannauði og náttúruauðlindum  svæðanna og þeim tækifærum sem fara munu forgörðum ef ekkert er að gert.

Guðrún Eggertsdóttir, Verkefnastjóri Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða


[1]http://www.innanrikisraduneyti.is/media/Skyrsla/skyrslaumflutnkostnad.pdf 

[2]http://www.efnahagsraduneyti.is/media/innri_skjol/Skyrsla_starfshops_um_fyrirkomulag_flutningsjofnunar.pdf

[3]http://www.innanrikisraduneyti.is/media/utgafa2010/Hagkvaemni_strandflutninga_04062010-.pdf

Skráning á póstlista

  • Byggðastofnun  |  Sauðármýri 2  |  550 Sauðárkrókur 
  • Sími 455-5400
  • postur@byggdastofnun.is
  • Opið frá kl. 8:30-12:00 & 13:00-16:00  | kt. 450679-0389