Fara í efni  

Vangaveltur um vaxtarsamninga

Formlegum samningstíma Vaxtarsamnings Suðurlands og Vestmannaeyja lauk nú um áramótin. Hinsvegar mun öll sú vinna og eldmóður sem fór af stað með samningnum  vissulega halda áfram. Við tímamót sem þessi er nauðsynlegt að horfa til baka og vega og meta hvað var að gerast á meðan á samningnum stóð. Byrjum á því að rifja upp tilgang VSSV.

Vaxtarsamningur Suðurlands og Vestmannaeyja var samstarfsverkefni opinberra- og einkaaðila um uppbyggingu atvinnulífs á Suðurlandi. Samningurinn var undirritaður í árslok 2006 og Atvinnuþróunarfélagi Suðurlands falin framkvæmd hans. VSSV hefur byggt á hugmyndafræðinni um klasa þar sem einstaklingar, fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög taka höndum saman um eflingu atvinnulífs. Höfuðárhersla hefur verið lögð á þátttöku grasrótarinnar og að sem minnstu fjármagni væri varið í umsýslukostnað. Ávallt var haft að leiðarljósi að allir þátttakendur hefðu ávinning af þátttöku sinni í samningnum.

VSSV hefur lagt mikla áherslu á atvinnuþróun þeirra svæða sem glímt hafa við neikvæða íbúaþróun og einhæft atvinnulíf. Þar er enn mikið verk fyrir höndum. Oft á tíðum er það fólksfæðin sem helst hamlar uppbyggingu hinna dreifðari byggða og vöntun á þeim sem hafa burði til að draga vagninn. Til þess að þessi svæði megi sannarlega njóta ávaxta byggðaþróunar af þessu tagi er mikilvægt að byggja enn frekar undir þau fyrirtæki og þær stofnanir sem fyrir eru á svæðinu til þess að þær megi eflast og öðlast um leið svigrúm til að taka þátt í rannsóknar- og þróunarstarfsemi í framtíðinni.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þessum þremur árum sem VSSV hefur starfað. Á samningstímanum var samþykktur stuðningur við 43 verkefni en heildarfjöldi þátttakenda í þessum verkefnum telur í hundruðum. Aðeins eitt verkefni var andvana fætt og í öðru var tekin ákvörðun að halda ekki áfram við stöðumat þegar fyrsta áfanga var lokið. Þá standa eftir 41 verkefni sem unnið hafa markvisst að árangri hvert fyrir sig, sum höfðu fyrirfram ákveðinn endapunkt en mörg hafa eflst og dafnað á leiðinni og jafnvel hafið samstarf við önnur verkefni/klasa og er það vel.

Skoðanakönnun sem lögð var fyrir þátttakendur í lok síðasta árs leiddi í ljós almenna ánægju með vaxtarsamninginn. Helstu niðurstöður voru þessar:

  • Flest þátttökufyrirtækin eða 74% eru lítil fyrirtæki þar sem starfsmannafjöldinn er innan við fimm manns.
  • 70% sögðu að VSSV hafi skapað aðstæður fyrir nýsköpun í sínu fyrirtæki.
  • 83% nýttu VSSV til markaðssetningar.
  • 83% sögðu að VSSV hefði hjálpað við tengslamyndun innan svæðis eða erlendis.
  • 70% töldu hafa orðið sýnilegan árangur innan síns fyrirtækis.
  • Oftast tóku 1-3 starfsmenn beinan þátt í klasanum.
  • Mestu hagræðingar virtist gæta við markaðssetningu og þróun innan fyrirtækjanna en  minna vildu menn kannast við að nýsköpun hafi átt sér stað.
  • 35% vildu ekki meina að þátttaka hafi leitt til hagræðingar í þeirra fyrirtæki.
  • 91% þátttakenda töldu að tilurð VSSV hafi stuðlað að aukinni samvinnu á Suðurlandi.

Starfsmenn AÞS hafa haft góða sýn yfir klasavinnu á Suðurlandi og sjá þeir greinilegan mun á starfsumhverfi samningsins  frá upphafi. Nú sjá Sunnlendingar frekar hag sinn og ávinning í því að vinna saman að uppbyggingu og með því er hálfur sigurinn unninn.

Nýlega var undirritaður nýr Vaxtarsamningur fyrir Suðurland en gert er ráð fyrir því að Sveitarfélagið Hornafjörður verði þátttakandi í þeim samningi. Talsverðar breytingar eru gerðar í nýjum samningi hvað varðar framkvæmd hans og dregið er úr áherslunni á handleiðslu við verkefnin. Framlög í vaxtarsamninganna voru nú reiknuð samkvæmt nýrri reiknireglu sem gerði það að verkum að Suðurland er að fá hlutfallslega hærra framlag í nýja samningnum en þeim gamla.

Atvinnuþróunarfélag Suðurlands mun áfram annast framkvæmd Vaxtarsamnings Suðurlands en ný stjórn mun móta stefnu fyrir samninginn sem unnið verður eftir. Við horfum bjartsýn fram á veginn. Suðurland er land tækifæranna og þar býr mikill eldmóður í fólki.

Sædís Íva Elíasdóttir.
Höfundur er framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Suðurlands.

Skráning á póstlista

  • Byggðastofnun  |  Sauðármýri 2  |  550 Sauðárkrókur 
  • Sími 455-5400
  • postur@byggdastofnun.is
  • Opið frá kl. 8:30-12:00 & 13:00-16:00  | kt. 450679-0389