Fara í efni  

Verslun í dreifbýli, Retail in Rural Regions

Á undanförnum árum og áratugum hefur verslunarrekstur í dreifbýli, tekið miklum breytingum. Verslunum hefur víða fækkað, sérstaklega sérverslunum.  Vöruúrval hefur minnkað, oft í takt við fækkun íbúa.  Minni velta í verslunum leiðir gjarnan af sér að verslanirnar  njóta ekki bestu kjara við innkaup og eiga því erfitt um vik að bjóða hagstætt verð.  Það leiðir svo aftur til þess að íbúar versla oftar í stærri þéttbýliskjörnum og stærri verslunum, og viðskipti á netinu aukast einnig jafnt og þétt.

Með vaxandi verslun íbúa utan svæðis verður rekstrargrundvöllur fyrir dreifbýlisverslunum enn veikari.  Sums staðar er einungis ein verslun er eftir með brýnustu nauðsynjar eða jafnvel engin, þar sem rekstrargrundvöllur er ekki fyrir hendi.  Og þegar síðasta verslunin lokar, hversu langt er þá, þar til síðustu íbúarnir fara?

Þetta hljómar snúið, en hvað er til ráða?

Undir merkjum Norðurslóðaáætlunar Evrópusambandsins og með stuðningi NORA, er nú unnið að verkefni sem miðar sérstaklega að því að styrkja verslun í dreifðum byggðum á Norðurslóðum.  Verkefnið hefur hlotið nafnið Retail in Rural Regions (RRR).

Markmið verkefnisins eru:

  • Að gera kanna kauphegðun og viðhorf neytenda í dreifbýli á Norðurslóðum.
  • Að skoða þann hóp sem stendur fyrir verslunarrekstri á þessum svæðum og rekstrarumhverfi verslananna.
  • Að bjóða fræðslu og ráðgjöf til eigenda og stjórnenda dreifbýlisverslana í því skyni að styrkja persónulega og faglega færni þeirra
  • Að leita leiða til að styrkja afkomu dreifbýlisverslana, meðal annars með því að gera starfsemina fjölþættari (e. multifunctional).
  • Að koma á framfæri við yfirvöld ábendingum varðandi rekstrarumhverfi og möguleg stuðningsúrræði fyrir verslanir og búsetuskilyrði í dreifðum byggðum.

Með þátttöku í verkefninu hefur hverri verslun staðið til boða að taka þátt í námskeiðum og fá ráðgjöf yfir tólf mánaða tímabil.  Haldnar eru þrjár sameiginlegar vinnu- og námslotur á verkefnistímanum þar sem verslunarfólkið kynnist og ber saman bækur sínar.  Þá hafa verslunareigendur einnig heimsótt hvern annan í því skyni að skoða verslanir hver hjá öðrum, gefa og þiggja góð ráð og hugmyndir.

Á Íslandi má almennt segja að 6%-15% af útsöluverði vöru liggi í flutningskostnaði, ef verslað er í dreifbýlisverslunum.  Það er því sérlega mikilvægt að góð stjórnun sé á birgðahaldi og flutningum.  En það er fjölmargt annað sem verslunareigendur geta gert til að bæta afkomu verslana sinna.  Má þar nefna:

  • Að taka inn fleiri þjónustuþætti sem skilað geta arðsemi til rekstrarins, svo sem sölu veiðileyfa, miðasölu vegna staðbundinna viðburða, sölu á lottó- og öðrum happdrættismiðum, sölu- og bókunarþjónustu fyrir ferðaþjónustufyrirtæki, dvd leigu, útlánsþjónustu á búnaði eða tækjum, heimsendingarþjónustu eða annað það sem hentað gæti í viðkomandi samfélagi.
  • Að nýta upplýsingatækni og aðrar hagkvæmar leiðir til að miðla kynningu og upplýsingum til viðskiptavina og leita eftir viðhorfum þeirra, þar má til dæmis nýta, Facebook, Twitter og vefkannanir.
  • Að leita samstarfs við aðra verslunareigendur um innkaup og flutninga til að njóta sem bestra kjara á þessum þáttum.
  • Að leita samstarfs við opinbera aðila, um viðskipti og stuðning er varðar rekstrarskilyrði dreifbýlisverslana.
  • Að nýta þá ráðgjöf og þjónustu sem í boði er hjá stoðkerfi atvinnulífsins.

Þeir verslunareigendur sem tekið hafa þátt í RRR verkefninu á Íslandi hafa almennt verið ánægðir með árangurinn og telja að þátttakan hafi bæði styrkt þá persónulega og afkomu verslunarinnar.

Verslanir í dreifbýli eru nauðsynlegur hluti af grunnþjónustu og gegna mikilvægu félagslegu hlutverki. Vert er að hvetja alla til að gefa verkefninu gaum í því skyni að standa vörð um verslanir og búsetuskilyrði í dreifðum byggðum á Norðurslóðum.  Nánari upplýsingar um RRR verkefnið má finna á vefsíðunni: 

http://www.rrr-project.net/  

Katrín María Andrésdóttir, atvinnuráðgjafi SSNV

Skráning á póstlista

  • Byggðastofnun  |  Sauðármýri 2  |  550 Sauðárkrókur 
  • Sími 455-5400
  • postur@byggdastofnun.is
  • Opið frá kl. 8:30-12:00 & 13:00-16:00  | kt. 450679-0389