Fara í efni  

Fréttir

Fyrsta enskumælandi pólitíska ráð á landinu er í Mýrdalshreppi og hlaut það samfélagsviðurkenningu Byggðastofnunar í ár

Fyrsta enskumælandi pólitíska ráð á landinu er í Mýrdalshreppi og hlaut það samfélagsviðurkenningu Byggðastofnunar í ár
Frá afhendingu Landstólpans

Ráðið var sett á laggirnar fyrir tveimur árum og er skipað sjö fulltrúum af sex þjóðernum, sem endurspeglar hið fjölbreytta samfélag í Vík en þar býr fólk af um 20 þjóðernum. Fjöldi erlendra íbúa á kjörskrá fjórfaldaðist í kjölfar breytinga á kosningalögum því í stað þess að hafa þurft að búa á staðnum í fimm ár til að vera gjaldgeng í sveitarstjórnarkosningum þurfti eingöngu að hafa búið þar í þrjú ár.

Hugmyndinni að var komið út í umræðuna fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar, haldnir voru fundir á ensku og kosningaefni gefið út á ensku og íslensku og hafa viðtökur íbúa verið afar góðar og mikill áhugi fyrir því að sitja í ráðinu.

Ráðið hefur verið ötult við að kynna þjónustu sveitarfélagsins fyrir nýbúum og koma með ábendingar hvar sveitarfélagið gæti komið betur til móts við einstaklinga af erlendum uppruna. Enskumælandi ráð eflir samfélagslega þátttöku íbúa sem annars væri hætt við að yrðu jaðarsettir og gefur erlendum íbúum vettvang til þess að koma sjónarmiðum og áherslum sínum á framfæri. 

Allar fundargerðir ráðsins eru skrifaðar bæði á íslensku og ensku og veita þannig ráðsmeðlimum og þeim sem lesa fundargerðirnar jafnframt aukna innsýn í íslenska tungu en eru um leið öllum skiljanlegar. Ráðið hefur fjallað um íslenskukennslu og hefur fjallað umtalsvert um leiðir sem hægt væri að fara til þess að efla stöðu tungumálsins í enskumælandi hagkerfi, sem ferðaþjónustusamfélög jafnan eru.

Verkefnið er til þess fallið að koma í veg fyrir jaðarsetningu og þá tilfinningu að ákveðnum hópum í samfélaginu finnist þeir afskiptir. Af því leiðir að upplifun hlutaðeigandi íbúa af samfélaginu verður jákvæðari sem getur um leið dregið úr örri íbúaveltu sem loðað hefur við samfélög þar sem ferðaþjónusta er undirstöðuatvinnugrein

Stór hluti íbúa afskiptur

Einar Freyr Elínarson sveitarstjóri í Mýrdalshreppi segir að eftir þessar breytingar hafi komið í ljós að stór hluti samfélagsins væri í raun frekar afskiptur og hefði hvorki rödd né tækifæri til að koma sínum hugmyndum á framfæri og taka raunverulega þátt í stefnumótunum og stjórnvaldsákvörðunum í sveitarfélaginu. ,,Við erum með fjölmennan hóp erlendra íbúa sem  greiða fulla skatta til samfélagsins og hafa rétt til að kjósa til sveitarstjórna. Sökum aðstæðna hafa ekki allir sömu tækifæri til þess að læra íslensku í ljósi þess að enska er ráðandi tungumál í ferðaþjónustu sem er okkar stærsta atvinnugrein. Okkur þótti mikilvægt jafnréttismál að allir íbúar hefðu raunveruleg tækifæri til þess að eiga aðkomu að stefnumótun og ákvarðanatöku og enskumælandi ráðið er liður í því. Það er skipað pólitískt í þetta ráð og greitt fyrir setu á fundum sama hátt og í öðrum ráðum“ segir Einar Freyr.

Sveitarstjórn var alvara

Tomasz Chochołowicz formaður ráðsins sagðist í fyrstu ekki hafa trúað því hversu mikla áherslu ætti að leggja á stofnun enskumælandi ráðs.  “Ég var smá tíma að átta mig á því að Einari og öðrum í sveitarstjórn væri fúlasta alvara með stofnun ráðsins. Ég var búinn að búa í Vík í átta  ár en fannst ég aldrei  tilheyra að fullu eða geta haft einhver áhrif á samfélagið. Það er frábært að þarna sé kominn vettvangur fyrir íbúa af erlendum uppruna til að hafa áhrif innan stjórnsýslunnar og geta komið sínum hugmyndum á framfæri.“

 

Landstólpinn hvatningar-og bjartsýnisverðlaun

Viðurkenningin var afhent á ársfundi Byggðastofnunar sem fram fór í Bolungarvík í vikunni og er þetta í þrettánda sinn sem viðurkenningin er veitt. Landstólpann hafa hlotið einstaklingar, fyrirtæki og hópar sem þykja hafa skarað fram úr í verkefnum sínum og störfum.  Landstólpinn er viðurkenning hugsuð sem nokkurs konar hvatningar- og bjartsýnisverðlaun.

 


Til baka

Fréttasafn

2024
janúar febrúar mars apríl
2023
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2022
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2021
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2020
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2019
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2018
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2017
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2016
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2015
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2014
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2013
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2012
janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
2011
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2010
janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
2009
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2008
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2007
mars maí júní júlí ágúst september október nóvember
2006
janúar febrúar mars maí júní ágúst september
2005
janúar febrúar mars júní október nóvember desember
2004
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október
2003
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí september október nóvember desember

Skráning á póstlista

  • Byggðastofnun  |  Sauðármýri 2  |  550 Sauðárkrókur 
  • Sími 455-5400
  • postur@byggdastofnun.is
  • Opið frá kl. 8:30-12:00 & 13:00-16:00  | kt. 450679-0389