Fara í efni  

Eigendastefna um eignarhluti Byggðastofnunar í hlutafélögum

Inngangur

Margvíslegar ástæður geta verið fyrir hlutafjáreign Byggðastofnunar.  Í lögum um Byggðastofnun nr. 106/1999, eru ekki skilgreindar með skýrum hætti heimildir Byggðastofnunar til hlutafjárkaupa, og í hverjum tilvikum slíkt sé heimilt, að öðru leyti en því að í 8. tl. 4. gr. laganna kemur fram að það sé meðal verkefna stjórnar að taka ákvarðanir um hlutafjárkaup og þátttöku í eignarhalds- fjárfestingar- og þróunarfélögum.  Almennt skal fjárhagsleg fyrirgreiðsla miðast við að stofnunin sé ekki beinn þátttakandi í atvinnurekstri. Þó er stofnuninni heimilt að taka þátt í félagi með allt að 30% hlutafjárframlagi ef ríkar ástæður eru til að mati stjórnar stofnunarinnar. Í reglugerð nr. 347/2000 um Byggðastofnun, eru heimildir stofnunarinnar skilgreindar nánar að þessu leyti, og eiga einkum við þegar um er að ræða stofnun nýrra fyrirtækja, eða þátttöku í eignarhalds-,  fjárfestingar- og þróunarfélögum.  Byggðastofnun er þó ætíð heimilt að verja kröfur sínar með því að breyta þeim í hlutafé. Þá er Byggðastofnun heimilt að breyta fullnustueignum í hlutafé þegar það er talið vera fjárhagslega hagkvæmasta leiðin til að verja innheimtuhagsmuni stofnunarinnar.  Engin skilyrði eru fyrir stærð eignarhluta, tegund atvinnurekstrarins eða hluthafahópnum við slíka nauðasamninga, heldur einungis að fjárhagslegir hagsmunir stofnunarinnar séu best varðir með þessum hætti.  Stjórn Byggðastofnunar tekur ákvörðun um kaup á hlutafé að fenginni tillögu lánanefndar.  Sé um að ræða breytingu á lánum í hlutafé þarf Ríkisendurskoðun að staðfesta þá afgreiðslu.

Skipulag eignarhalds og ábyrgð

Forstjóri Byggðastofnunar tilnefnir hæfa fulltrúa í stjórnir félaga í samræmi við eignarhlut stofnunarinnar. Byggðastofnun hefur sett sér það markmið að kynjahlutfall stjórnarmanna sem stofnunin skipar sé sem jafnast og að hvort kyn fylli aldrei minna en 40% allra stjórnarsæta sem stofnunin skipar.  Sérfræðingur á fyrirtækjasviði heldur utanum hlutabréfasafn stofnunarinnar, kallar eftir ársreikningum félaga, annast verðmat safnsins í samráði við forstjóra og forstöðumann fyrirtækjasviðs og hefur samskipti við endurskoðanda vegna þess.

Í störfum sínum í stjórn leitast fulltrúi Byggðastofnunar við að tryggja að samskipti Byggðastofnunar og félaga sem einnig eru í lánsviðskiptum við stofnunina séu á eðlilegum viðskiptalegum forsendum.  Einnig að skipulag, stefnumótun, fjárhagur, efnahagur og rekstrarmálefni fyrirtækisins, og ársreikningur, áætlanagerð, árangursmat, reglusetning og eftirlit með starfseminni, séu í samræmi við reglur laga um hlutafélög.  Þá leggur Byggðastofnun áherslu á að starfsemi fyrirtækisins raski ekki samkeppni, eða fari á annan hátt í bága við samkeppnislög.  Verði stjórnarmaður Byggðastofnunar áskynja um óeðlilega viðskiptahætti í félaginu skal hann upplýsa forstjóra Byggðastofnunar um slíkt þegar í stað.  Sé fulltrúi Byggðastofnunar einnig starfsmaður stofnunarinnar kemur hann ekki að úrvinnslu né afgreiðslu fyrirgreiðsluerinda viðkomandi fyrirtækis til hennar.

Kröfur og viðmið um rekstur

Stjórn og stjórnendur viðkomandi félags bera ábyrgð á rekstri þess og skulu hafa arðsemi rekstrarins að leiðarljósi.  Byggðastofnun gerir kröfu um að ársreikningum félagsins sé skilað til stofnunarinnar tímanlega þannig að unnt sé að byggja á þeim við mat á hlutafjáreign stofnunarinnar í reikningsskilum hennar.

Sala eða önnur ráðstöfun eignarhluta Byggðastofnunar

Markmið Byggðastofnunar er að selja eignarhluti sína svo fljótt sem kostur er, og skulu þeir jafnan auglýstir til sölu á heimasíðu stofnunarinnar.  Einnig er heimilt að setja bréfin í sölu á viðurkenndum hlutabréfamarkaði.  Hafa ber í huga að í samræmi við tilgang sinn er Byggðastofnun oft ráðandi hluthafi í fyrirtækjum á litlum markaði á varnarsvæðum.  Því ber henni að gæta þess að atvinnuöryggi og byggðafestusjónarmiðum sé ekki stefnt í hættu við sölumeðferð hluta í slíkum fyrirtækjum.  Við sölu á hlutabréfum í eigu stofnunarinnar miðast viðskipti við staðgreiðslu.  Í sérstökum tilvikum er þó heimilt að lána hluta kaupverðs sé það talið samrýmast hagsmunum stofnunarinnar.  Byggðastofnun er heimilt að ráðstafa eignarhlut sínum í fyrirtækjum með samruna við önnur fyrirtæki telji stofnunin að slík ráðstöfun sé best til þess fallin að hámarka verðmæti eignarhlutar síns.

Byggðastofnun hefur í siðareglum sett sér metnaðarfull markmið um góða stjórnsýslu, skilvirkni og málefnalegt gegnsæi allra verkferla, og skal söluferlið taka mið af því.  Stjórn Byggðastofnun tekur ákvörðun um sölu að fenginni tillögu lánanefndar.

Samþykkt á fundi stjórnar Byggðastofnunar 14. febrúar 2014.

Skráning á póstlista

  • Byggðastofnun  |  Sauðármýri 2  |  550 Sauðárkrókur 
  • Sími 455-5400
  • postur@byggdastofnun.is
  • Opið frá kl. 8:30-12:00 & 13:00-16:00  | kt. 450679-0389