Lánveitingar
Byggðastofnun veitir langtímalán til fjárfestinga, hagræðingar og fjárhagslegrar endurskipulagningar fyrirtækja á starfssvæði stofnunarinnar. Lánastarfsemi Byggðastofnunar er valkostur í fjármögnun sem stuðlar að hagstæðum lánskjörum og lánsframboði fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki í landsbyggðunum.
Stjórn Byggðastofnunar setur almennar reglur um lánakjör stofnunarinnar. Markmið lánastarfseminnar er m.a. að tryggja fyrirtækjum í landsbyggðunum aðgang að langtímalánum á sem hagstæðustu kjörum, stuðla að vexti fyrirtækja, nýsköpun í atvinnulífi og eflingu byggðanna. Samhliða lánastarfseminni er veitt ráðgjöf um fjárhagsuppbyggingu og samstarf við aðrar lánastofnanir.
Áður en samningssambandi er komið á við viðskiptamann, eða áður en viðskipti eiga sér stað er gerð krafa um að nýr viðskiptamaður sýni fram á að hann sé í viðskiptum við sambærilegt fjármálafyrirtæki eða – stofnun og tilgreind eru í 16. gr. laga nr. 64/2006.
Byggðastofnun leggur áherslu á vandaða vinnu við lánshæfismat og áhættugreiningu. Í því skyni gerir stofnunin skilgreindar kröfur um upplýsingar, gögn og áætlanir frá viðskiptamönnum. Við mat á umsókn hefur lánanefndin til viðmiðunar rekstur og rekstrarhorfur fyrirtækis, fjárhagsstöðu, reynslu og þekkingu fyrirsvarsmanna þess, tryggingar fyrir lánum, nýsköpunargildi, samkeppnissjónarmið og gildi fyrir uppbyggingu atvinnulífs á landsbyggðunum.
Lánanefnd, sem skipuð er forstjóra, forstöðumönnum sviða og lánasérfræðingum fyrirtækjasviðs, afgreiðir erindi sem nema að ákvarðaðri afgreiðslufjárhæð allt að 70 m.kr. Lánsbeiðnir sem nema hærri fjárhæð afgreiðir stjórn að fenginni greinargerð og áliti lánanefndar.
Allir umsækjendur fá skriflegt svar og þar geta komið fram tiltekin skilyrði fyrir lánveitingu. Telji umsækjandi að ákvarðanir lánaefndar samrýmist ekki starfsreglum getur hann skotið máli sínu til stjórnar stofnunarinnar.
Lánsumsókn skal senda í gegn um þjónustugátt. Eftir að lánsumsókn hefur borist stofnuninni er hægt að sjá málsnúmer og stöðu máls inni í þjónustugátt. Mikilvægt er vanda umsókn og þau fylgigögn sem send eru með umsókn.
Veð eru tekin í fasteignum, skipum, hlutabréfum og lausafé. Jafnframt er Byggðastofnun heimilt að taka veð í rekstrarleyfum, einkaleyfum og vörumerkjum ef slíkar tryggingar eru í boði og veðsetning þeirra heimil samkvæmt lögum. Meginreglan varðandi fasteignir er að veðstaða lánsins verði ekki hærri en 75% af áætluðu söluverði fasteignarinnar. Ekki er tekið veð í íbúðarhúsnæði nema því aðeins að það sé nýtt í beinum tengslum við atvinnurekstur umsækjanda. Veðstaða í skipum og bátum skal að jafnaði ekki vera hærri en 60% af áætluðu markaðsverði. Veðstaða í lausafé skal að jafnaði ekki vera hærri en 50% af áætluðu verðmæti þess.