Öxarfjörður
Öxarfjörður í sókn / Öxarfjörður í sókn II
Öxarfjarðarhérað hóf göngu sína undir merkjum Brothættra byggða á árinu 2016. Verkefninu lauk formlega í árslok 2020 þegar Byggðastofnun dró sig í hlé.
Stjórn Byggðastofnunar ákvað haustið 2024 að veita viðbótarfjárframlagi inn í verkefnið Brothættar byggðir næstu þrjú árin. Hluta fjármunanna verður varið í tilraunaverkefni í fyrrum þátttökubyggðarlögum í þeim tilgangi að auka viðspyrnu og fylgja eftir þeim árangri sem náðist á verkefnistíma og stuðla að áframhaldandi frumkvæði íbúa til eflingar samfélagsins. Tvö ný tilraunaverkefni voru sett á laggirnar, bæði í Norðurþingi og er Öxarfjörður í sókn II, annað þeirra. Líta má á verkefnið sem nokkurs konar framhald af verkefninu Öxarfjörður í sókn. Samningur um verkefnið var undirritaður á milli Norðurþings, SSNE og Byggðastofnunar í upphafi árs 2025 og nær samningstímabilið til loka árs 2027. Fyrsta úthlutun úr Frumkvæðissjóði Öxarfjarðar í sókn II fór fram í júní 2025.
Um byggðarlagið:
Öxarfjarðarhérað nær frá vestanverðri Melrakkasléttu til og með Kelduhverfi. Svæðið liggur afar nálægt heimskautsbaug og nyrsti hlutinn ber einkenni heimskautasvæða hvað náttúrufar varðar. Ásbyrgi og Jökulsárgljúfur eru mikilfengleg náttúrusmíð og er Ásbyrgi ein helsta náttúruperla Íslands. Misgömul hraun þekja stór svæði í héraðinu, þau yngstu sem eru í Gjástykki, eru einungis fárra áratuga gömul. Í Sandinum er mikill jarðhiti sem lengi vel var talinn háhiti. Síðar hafa vísindamenn þó skilgreint svæðið sem orku- og vatnsríkt lághitasvæði. Jarðhitinn er fyrst og fremst notaður í fiskeldinu og hitaveitu á svæðinu austan Jökulsár en að líkindum er það aðeins lítið brot nýtanlegs jarðhita.
Íbúaþróun á svæðinu hefur um langt árabil verið neikvæð. Um síðustu aldamót voru íbúar héraðsins 451, í sveitum bjuggu 286 en á Kópaskeri voru íbúar 165. Íbúum hafði fækkað í 317, það er um 30% á 15 árum, 2000-2015. Hlutfallsleg fækkun hefur orðið svipuð í dreifbýlinu og á Kópaskeri. Karlar eru nokkuð fleiri en konur. Íbúar urðu fæstir, 304, árið 2017 og 2022 en hefur fjölgað lítillega aftur og þeir voru 317 í janúar 2025.
Sauðfjárrækt hefur verið aðalatvinnuvegur byggðarlagsins frá upphafi og enn er landbúnaður undirstöðuatvinnugrein. Fjallalamb hf. tekur við sláturfé frá bændum á svæðinu frá Jökulsá á Fjöllum austur á Langanes og svæðið er riðulaust. Bændur á tveimur bæjum, Árdal í Kelduhverfi og Gilsbakka í Öxarfirði, hafa komið sér upp aðstöðu og leyfum til úrvinnslu afurða. Í Gilhaga í Öxarfirði hafa ungir bændur komið upp lítilli spunaverksmiðju og framleiða ullarband frá bændum í héraðinu. Þrjú síðastnefndu verkefnin hafa notið stuðnings frá verkefninu Öxarfjörður í sókn (byggðaþróunarverkefninu Brothættum Byggðum).
Tvö fiskeldisfyrirtæki eru rekin á svæðinu, Fiskeldi Samherja á Núpsmýri og Rifós/Kaldvík við Lón í Kelduhverfi og við Kópasker. Bæði fyrirtækin hafa verið í mikilli uppbyggingu í stöðvum sínum og til að mynda hefur seiðum verið skipað út frá seiðaeldisstöðinni við Kópasker undanfarin ár. Fiskeldi er því orðin önnur undirstöðuatvinnugreinin í Öxarfjarðarhéraði.
Útgerð á svæðinu er að mestu bundin við fáa smærri báta sem koma tímabundið til veiða á Kópaskeri. Lítill eða enginn kvóti er tengdur staðnum. Við Kópaskershöfn eru hrygningarstöðvar þorsks og því fjölgar bátum mikið á vormánuðum og oft líflegt í höfninni á Kópaskeri. Grásleppa er veidd í talsverðum mæli.
Á svæðinu eru nokkur gistiheimili og eitt hótel. Boðið er upp á hestaleigu og hestaferðir, hjóla- og fjórhjólaferðir. Á vegum þjóðgarðsins við Jökulsárgljúfur eru nokkur heilsársstörf og mun fleiri stöðugildi að sumrinu. Starfsmenn þjóðgarðsins reka einnig Gestastofu við Ásbyrgi. HeimÖx, heimilisiðnaðarfélag er með litla verslun í Ásbyrgi, með handunnar vörur úr héraði. Á árinu 2020 var lokið við gerð vegar meðfram Jökulsá, svokallaðan Dettifossveg, við það tengist byggðin hringveginum á Mývatnsöræfum mun betur en áður var. Ferðaþjónustuaðilar hafa lagt mikla áherslu á þennan veg og það sýnir sig að umferð um hann er mikil yfir sumarið. Sá böggull fylgir skammrifi að ekki er vetrarþjónusta á veginum og því nýtist hann aðeins á sumrin.
Samtal við íbúa í verkefninu sem hlaut nafnið „Öxarfjörður í sókn“ hófst með afar vel sóttu íbúaþingi í janúar 2016, en fundir verkefnisstjórnar hófust mun fyrr, eða haustið 2015. Alls voru 19 málaflokkar til umræðu á íbúaþinginu. Þar vó þyngst umræða um raforku, ljósleiðara og útvarpssendingar en nánast jafn hátt skoraði umræða um grunnstoðir sveitarfélagsins og þjónustu. Í þriðja sæti voru ferðamál, enda brýnt að nýta tækifæri ferðaþjónustu sem allra best á svæðinu. Segja má að í stuttu máli hafi niðurstaða umræðna á íbúaþingi verið sú að til að efla byggð við Öxarfjörð eigi að byggja á sérstöðu svæðisins, nýta sóknarfæri sem felast m.a. í matvælavinnslu, ferðaþjónustu og jarðhita og að standa vörð um grunnþjónustuna. Samantekt frá íbúaþinginu má sjá hér neðar.
Vorið 2015 var Silja Jóhannesdóttir ráðin verkefnisstjóri fyrir verkefnið á Raufarhöfn og í ársbyrjun 2016 tók hún einnig við verkefnisstjórn fyrir verkefnið í Öxarfjarðarhéraði. Í ársbyrjun 2018 tók Bryndís Sigurðardóttir við verkefnisstjórastöðunni og sinnti því til hausts 2018. Charlotta Englund tók við verkefnisstjórastöðunni haustið 2018. Sett voru fram framtíðarsýn og markmið fyrir verkefnið og kynnt íbúum og samþykkt á íbúafundi. Starfað var eftir þeirri stefnumótun út verkefnistímann.
Veittir eru verkefnastyrkir á vegum Brothættra byggða til þróunarverkefna og annarra samfélagseflandi verkefna á þeim svæðum sem taka þátt. Sjá má yfirlit yfir veitta verkefnastyrki í öllum þátttökubyggðarlögum hér. Hér fyrir neðan má sjá yfirlit um styrki í Öxarfjörður í sókn í PDF skjali.
VerkefnisstjóriÖxarfjarðar í sókn var: Charlotta Englund.
Í verkefnisstjórn sátu: Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings, Reinhard Reynisson og Helga María Pétursdóttir hjá SSNE, Stefán H. Grímsson og Salbjörg Matthíasdóttir f.h. íbúa og loks Kristján Þ. Halldórsson og Eva Pandora Baldursdóttir frá Byggðastofnun.
Verkefnisstjóri Öxarfjarðar í sókn II er Einar Ingi Einarsson einar@nordurthing.is. Verkefnisstjórar tilraunaverkefnanna tveggja í Norðurþingi vinna þétt saman og sama verkefnisstjórn fer fyrir báðum verkefnum. Nanna Steina Höskuldsdóttir nanna@ssne.is er í forsvari fyrir verkefnið Raufarhöfn og framtíðin II.
Verkefnisstjórn Öxarfjarðar í sókn II:
Guðmundur Baldvin Guðmundsson, fulltrúi Norðurþings og formaður verkefnisstjórnar
Olga Friðriksdóttir, fulltrúi íbúa Raufarhafnar
Ólafur Gísli Agnarsson, fulltrúi íbúa Raufarhafnar
Charlotta V. Englund, fulltrúi íbúa Öxarfjarðarhéraðs
Thomas Helmig, fulltrúi íbúa Öxarfjarðarhéraðs
Hildur Halldórsdóttir, fulltrúi SSNE
Helga Harðardóttir, fulltrúi Byggðastofnunar
Kristján Þ. Halldórsson, fulltrúi Byggðastofnunar
Hér má skoða gögn sem tengjast mótun verkefnisins og framvindu þess:
Heildaryfirlit styrkja 2025 ÖÍS II.
Öxarfjörður í sókn - Markmið og framtíðarsýn
Samantekt frá íbúaþingi í Öxarfirði
Öxarfjörður í sókn - ársskýrsla 2018
Öxarfjörður í sókn - ársskýrsla 2019
Öxarfjörður í sókn - ársskýrsla 2020
Heildaryfirlit styrkja - Öxarfjörður í sókn
Mynd: Frá heimsókn í laxeldisstöð Samherja á Núpsmýri / Kristján Þ. Halldórsson.
Uppfært 24.06.2025.