Fara í efni  

Hrísey

Hrísey – perla Eyjafjarðar

Hrísey hóf göngu sína í verkefninu Brothættar byggðir árið 2015 undir heitinu Hrísey - perla Eyjafjarðar. Verkefninu lauk formlega í lok árs 2019 þegar Byggðastofnun dró sig í hlé.

Um byggðarlagið:

Hrísey er í utanverðum Eyjafirði og er önnur stærsta eyjan við Ísland, næst á eftir Heimaey. Hrísey er um 7,5 km að lengd og 2,5 km að breidd þar sem hún er breiðust að sunnanverðu. Eyjan mjókkar til norðurs og þar rís hún hæst í um 110 m.y.s.

Til Hríseyjar gengur ferjan Sævar allan daginn á einnar til tveggja stunda fresti frá Árskógssandi. Tekur siglingin um 15 mínútur. Hrísey er aðgengilegasta byggða eyjan við Ísland.

Íbúar í Hrísey voru um 270 upp úr 1990 en hefur fækkað verulega á síðustu árum. Í upphafi árs 2016 voru skráðir 156 íbúar í eyjunni. 

Sjávarútvegur hefur lengst af verið undirstaða atvinnulífs og búsetu í Hrísey. Greinin hefur orðið fyrir áföllum undanfarna áratugi, meðal annars hafa fiskveiðiheimildir horfið að verulegu leyti  úr höndum fyrirtækja í eyjunni. Nokkrum stöðugleika verið náð í fiskvinnslu með ráðstöfun aflaheimilda úr potti Byggðastofnunar. Ferðaþjónusta er í sókn. Starfsemi í tengslum við nýtingu á hvönn og kerfli hefur byggst upp. Ánægjulegt er að geta þess að á verkefnistímanum komu frumkvöðlar hjá Landsnámseggjum upp starfsemi í eggjaframleiðslu í Hrísey.

Samráð við íbúa í verkefnum innan Brothættra byggða hefur að jafnaði hafist með íbúaþingi þar sem lagðar eru línur að áherslum og framtíðarsýn. Í Hrísey var þessi vinna nokkuð frábrugðin, því unnin var framtíðarsýn og markmið út frá niðurstöðum íbúafundar sem haldinn var árið 2013. Voru drög að stefnumótun kynnt fyrir íbúum á vel sóttum fundi. Á fundinum kom fram að íbúunum fannst mikilvægt að vinna betur með sérstöðu og ímynd eyjarinnar. Standa þyrfti betur að markaðssetningu Hríseyjar sem vænlegs búsetukosts, skoða hvort hægt væri að laða fleira ungt fólk til Hríseyjar, t.d. með fríum leikskóla. Huga betur að þörfum eldri borgara. Umhverfismál og umhirða voru mörgum ofarlega í huga. Kallað var eftir samræmingu á tímum ferju og almenningssamganga á landi og bættri aðstöðu fyrir farþega á Árskógssandi. Athuga þyrfti hvort raunhæft væri að hafa ferjuna gjaldfrjálsa og fjölga þannig notendum þjónustunnar. Fundarmenn voru sammála um að Hrísey ætti mikið inni þegar kemur að ferðaþjónustu og allri afþreyingu fyrir ferðamenn. Sérstaða Hríseyjar sem áfangastaðar ætti að vera meginþema í þjónustu við ferðamenn og tengjast heilbrigðum lífsstíl með áherslu á náttúru eyjarinnar. Einnig komu fram hugmyndir um eflingu atvinnu á sviði fjarvinnslu og símsvörunar, framleiðslu á afurðum sem byggðu á hreinleika eyjarinnar og fleira. Því má bæta við að undir lok verkefnisstímans ákváðu Hríseyingar í samstarfi við Akureyrarbæ að óska eftir þátttöku í verkefninu Cittaslow sem einmitt gengur út á að skapa sérstöðu og upplifun í eyjunni. Við undirbúning og umsókn nutu Hríseyingar stuðnings frá Djúpavogshreppi (nú Múlaþing) sem þegar hafði verið samþykkur inn í hreyfinguna.

Í nóvember 2015 var Helga Íris Ingólfsdóttir ráðin verkefnisstjóri fyrir verkefnið í Hrísey og hún tók svo einnig við verkefninu í Grímsey í ársbyrjun 2016. Helga Íris, ásamt verkefnisstjórninni, mótuðu og gáfu út framtíðarsýn og markmið fyrir verkefnið, starfað var eftir þeirri stefnumótun út verkefnistímann.

Veittir eru verkefnastyrkir á vegum Brothættra byggða til þróunarverkefna og annarra samfélagseflandi verkefna á þeim svæðum sem taka þátt. Sjá má yfirlit yfir veitta verkefnastyrki í öllum þátttökubyggðarlögum hér. Hér fyrir neðan má skoða yfirlit styrkja í Hrísey, Perla Eyjafjarðar,  í PDF skjali.

Verkefnisstjóri: Helga Íris Ingólfsdóttir (helga@afe.is)
Í verkefnisstjórn sátu: Matthías Rögnvaldsson, forseti bæjarstjórnar Akureyrarkaupstaðar, Baldvin Valdemarsson, Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar, Gunnar Gíslason, f.h. Eyþings, Anton M. Steinarsson og Linda Ásgeirsdóttir f.h. íbúa og loks Kristján Þ. Halldórsson og Eva Pandora Baldursdóttir frá Byggðastofnun. 

Hér má skoða gögn sem tengjast mótun verkefnisins og framvindu þess:

Hrísey, perla Eyjafjarðar - Markmið og framtíðarsýn
Facebook síða verkefnisins Hrísey, perla Eyjafjarðar
Heimasíða byggðarlagsins
Hrísey, perla Eyjafjarðar - ársskýrsla 2018

Heildaryfirlit styrkja - Hrísey

Hrísey 

Mynd:  Hrísey í vetrarbúningi / Kristján Þ. Halldórsson.

Uppfært 30.05.2022.

Skráning á póstlista

  • Byggðastofnun  |  Sauðármýri 2  |  550 Sauðárkrókur 
  • Sími 455-5400
  • postur@byggdastofnun.is
  • Opið frá kl. 8:30-12:00 & 13:00-16:00  | kt. 450679-0389