Fara í efni  

Kaldrananeshreppur

Kaldrananeshreppur

Kaldrananeshreppur hóf göngu sína í verkefninu Brothættar byggðir á miðju ári 2025. Áætlað er að verkefnið vari í fimm ár til loka ársins 2030 hvað aðkomu Byggðastofnunar varðar.

Um byggðarlagið:

Kaldrananeshreppur í Strandasýslu nær frá Selá í Steingrímsfirði í suðri að Spena, sem er norðan við Kaldbaksvík. Í hreppnum er þorpið Drangsnes, staðsett á Selströnd, norðan við Steingrímsfjörð. Kaldrananeshreppur spannar um 470 ferkílómetra og hefur verið sveitarfélag í meira en þúsund ár. Íbúar eru 127 árið 2025.

Í hreppnum eru jarðir sem njóta ýmissa hlunninda, þar á meðal viðarreka og æðarvarps. Við ströndina eru víða eyjar og sker, þar á meðal Grímsey, þar sem tugþúsundir lunda og annarra sjófugla verpa. Jarðhita er að finna víða og stutt er á fengsæl fiskimið. Í þorpinu Drangsnesi er smábátaútgerð og fiskvinnsla. Þar er einnig miðstöð sveitarfélagsins, skóli, félagsheimili og kaupfélag, auk annarrar af tveimur sundlaugum hreppsins; hin er á Klúku í Bjarnarfirði.  

Nokkuð er um áhugaverðar fornleifar, þar á meðal hvalstöðvar frá 17. öld í Hveravík og á Eyjum, og rústir af verbúðum víða við ströndina. Skarðsrétt í Bjarnarfirði, mikið mannvirki hlaðið úr torfi frá upphafi 20. aldar, er einnig athyglisverð, aldursfriðuð en enn í notkun. Vinsæl afþreying ferðamanna eru heitir pottar í fjöruborðinu á Drangsnesi, reglulegar siglingar út í Grímsey og Kotbýli kuklarans á Klúku í Bjarnarfirði, sem er hluti af Galdrasýningu á Ströndum.

Ferðaþjónusta hefur byggst upp síðustu áratugina í Bjarnarfirði og á Drangsnesi, með tveimur hótelum auk gistiheimila og sumarhúsa. Sauðfjárrækt, skógrækt og ylrækt eru víða stunduð og bætt fjarskipti gera íbúum kleift að stunda vinnu hjá ýmsum stofnunum og fyrirtækjum.

 

Verkefnisstjóri: Valgeir Jens Guðmundsson, valgeir@vestfirdir.is

Verkefnisstjórn skipa:

Anna Björg Þórarinsdóttir, fulltrúi íbúa

Helga Harðardóttir, fulltrúi Byggðastofnunar og formaður stjórnar

Hildur Aradóttir, fulltrúi Kaldrananeshrepps

Kristján Þ. Halldórsson, fulltrúi Byggðastofnunar

Mikael Rafn Steingrímsson, fulltrúi íbúa

Skúli Gautason, fulltrúi Vestfjarðastofu

 

Hér má skoða gögn sem tengjast mótun verkefnisins og framvindu þess:

Facebook síða verkefnisins

 

Mynd: Frá Bjarnarfirði / Kristján Þ. Halldórsson.

Uppfært 29.08.2025

 

Skráning á póstlista

  • Byggðastofnun  |  Sauðármýri 2  |  550 Sauðárkrókur 
  • Sími 455-5400
  • postur@byggdastofnun.is
  • Opið frá kl. 8:30-12:00 & 13:00-16:00  | kt. 450679-0389