Fara í efni  

Jafnréttisáætlun Byggðastofnunar

Byggðastofnun fylgir lögum, reglum og samningum sem snerta jafnréttismál og gilda á hverjum tíma. Byggðastofnun er vinnustaður þar sem starfsfólk  er metið á eigin forsendum og hefur jafna möguleika og sömu réttindi í starfi og til starfsframa. Jafnréttisáætlun Byggðastofnunar er ætlað að stuðla að jöfnum rétti og stöðu kynjanna innan stofnunarinnar og samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða í starfi og stefnumótun Byggðastofnunar. Jafnréttisáætlun þessi nær til allrar starfsemi Byggðastofnunar. Byggðastofnun skapar vettvang til virkrar umræðu og vitundar um jafnréttismál. Stjórnendur bera ábyrgð hver á sínu sviði á framgangi jafnréttismála í samræmi við þessa áætlun, en endanleg ábyrgð er hjá forstjóra. Forstöðumaður rekstrarsviðs ber ábyrgð á að áætlun þessari sé fylgt. Hann hefur frumkvæði að því að viðhalda upplýsingum um þætti er varða jafnréttismál og gerir árlega tillögu um endurskoðun á jafnréttisáætluninni, ef þurfa þykir.

Jafnréttisáætlun Byggðastofnunar er unnin samkvæmt ákvæðum 5. gr. laga nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.

Byggðastofnun leggur áherslu á eftirfarandi:

1. Byggðastofnun greiðir starfsfólki  jöfn laun og býður sömu kjör fyrir jafn verðmæt störf.

Allir fá greidd jöfn laun fyrir jafn verðmæt störf óháð kynferði og skulu njóta sömu kjara er varða önnur starfskjör og réttindi.

2. Byggðastofnun er vinnustaður þar sem öll kyn  eiga jafna möguleika til starfa.

Starf sem laust er til umsóknar skal standa öllum opið. Í auglýsingum skulu störf ókyngreind og jafnréttissjónarmið höfð í huga við gerð auglýsinga. Stefnt skal að sem jöfnustu hlutfalli kynjanna í störfum og verkefnum Byggðastofnunar.

3. Byggðastofnun stefnir að jöfnu hlutfalli kynja við skipun í nefndir, ráð og stjórnir og að störf flokkist ekki sem sérstök karla- eða kvennastörf.

Stefna skal að sem jöfnustu hlutfalli kvenna og karla í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum Byggðastofnunar. Við skiptingu í nefndir, ráð og stjórnir skal þess gætt að hlutfall kynjanna sé sem jafnast og í samræmi við ákvæði 28. gr. laga nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.

4. Byggðastofnun gætir þess að allt starfsfólk hafi sömu tækifæri til starfsþróunar, náms og fræðslu, óháð kyni.

Allt starfsfólk nýtur  sömu möguleika til endurmenntunar, símenntunar og starfsþjálfunar og til að sækja námskeið sem haldin eru til að auka hæfni í starfi eða til undirbúnings fyrir önnur störf.

5. Byggðastofnun er vinnustaður þar sem starfsfólk getur samræmt vinnu og einkalíf.

Gera skal starfsfólki kleift að samræma starfsskyldur sínar og fjölskyldulíf, meðal annars með sveigjanlegum vinnutíma og hvatningu til fæðingarorlofs.

6. Byggðastofnun er vinnustaður þar sem allt starfsfólk á  rétt á að komið sé fram við það af virðingu og réttsýni, óháð kynferði, kynþætti, aldri, þjóðerni og trú.

Hvers konar kynbundið ofbeldi, kynbundin og kynferðisleg áreitni og einelti er litin mjög alvarlegum augum innan Byggðastofnunar. Mismunun er óheimil í hvaða formi sem hún birtist.

7. Útbúnir verði mælikvarðar um áherslur í jafnréttisáætlun og niðurstöður kynntar stjórn stofnunarinnar ár hvert.

Í Framkvæmdaáætlun við Jafnréttisáætlun eru settar fram leiðir að markmiðum, aðgerðir og mælikvarðar þar sem fram kemur hver ber ábyrgð á einstökum aðgerðum og hvernig á að fylgja þeim eftir.

8. Jafnréttisáætlun þessa ber að endurskoða á þriggja ára fresti.

Árlega skal fara yfir markmið, aðgerðir og niðurstöður verkefna með forstjóra og helstu stjórnendum. Byggðastofnun skuldbindur sig til að hafa virkt eftirlit með að jafnréttisáætlun þessari sé fylgt eftir, bregðast strax við komi upp frávik og viðhalda stöðugum umbótum í jafnréttismálum innan stofnunarinnar.

Jafnréttisáætlun þessi var samþykkt á fundi stjórnar Byggðastofnunar þann 5. maí 2021.

Skráning á póstlista

  • Byggðastofnun  |  Sauðármýri 2  |  550 Sauðárkrókur 
  • Sími 455-5400
  • postur@byggdastofnun.is
  • Opið frá kl. 8:30-12:00 & 13:00-16:00  | kt. 450679-0389