Fara í efni  

Aflamark Byggðastofnunar

Aflamark Byggðastofnunar er hluti svokallaðs 5,3% kerfis, sem einnig hefur verið kallað félagslegi hluti fiskveiðistjórnunarkerfisins. Aðrir hlutar þess eru almennur byggðakvóti, línuívilnun, rækju- og skelbætur, strandveiðar og frístundaveiðar.  Aflamark stofnunarinnar byggir á 10. gr. a í lögum um stjórn fiskveiða nr. 116/2006 sem hljóðar svo: 

"Byggðastofnun hefur til ráðstöfunar aflaheimildir sem ráðherra ákvarðar samkvæmt heimild í 5. mgr. 8. gr. til að styðja byggðarlög í alvarlegum og bráðum vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi. Byggðastofnun getur gert samninga við fiskvinnslur eða útgerðarfélög til allt að sex ára í senn. Byggðastofnun skal hafa samráð við sveitarstjórn viðkomandi sveitarfélags áður en samningur er undirritaður. Aflaheimildir skulu vera í þorski, ýsu, steinbít, ufsa, löngu, keilu og gullkarfa í hlutfalli við leyfðan heildarafla af þessum tegundum. Aflaheimildir þessar miðast við þorskígildi og skulu þær dregnar frá með sama hætti og greinir í 3. mgr. 8. gr. laganna, sbr. 5. mgr. sömu greinar. Ráðherra er heimilt, að fengnum tillögum Byggðastofnunar, að setja nánari ákvæði um framkvæmd þessa ákvæðis í reglugerð, svo sem efni samnings, skilyrði og tímalengd."

Á grundvelli lagagreinarinnar hafa verið settar reglugerðir um ráðstöfun og meðferð þeirra aflaheimilda sem greinin fjallar um. Í þeim er nánar fjallað um val byggðarlaga, skiptingu þess aflamarks sem um ræðir á milli byggðarlaga og samningsaðila í þeim, umsóknarferli, samráð við sveitarstjórn, skilyrði fyrir úthlutun og framkvæmd hennar, veiðar og vinnslu, framsal aflamarks og eftirlit með samningum. Annars vegar er um að ræða reglugerð nr. 643/2016 sem felur í sér vinnsluskyldu á því aflamagni sem til úthlutunar er og hins vegar reglugerð nr. 1256/2024 sem er án vinnsluskyldu.

Undanfarin ár hefur stofnuninni verið falið að úthluta um 5.000 þorskígildistonnum sem byggir á ákvörðun ráðherra í reglugerð um veiðar í atvinnuskyni fyrir hvert fiskveiðiár, nr. 817/2024 fyrir fiskveiðiárið 2024/2025. Á fiskveiðiárinu 2024/2025 eru í gildi 24 samningar í 13 byggðarlögum og eru þeir aðgengilegir undir „Samningar um aflamark“ hér til vinstri á síðunni. Þau byggðarlög þar sem samningar eru í gildi og árlegt aflamark þeirra í þorskígildistonnum á hverjum stað má sjá á myndinni hér að neðan.

 

Frekari upplýsingar um verkefnið, tilgang þess, markmið og framkvæmd er að finna hér til vinstri á síðunni undir „Spurt og svarað“. Einnig veita sérfræðingar Byggðastofnunar allar frekari upplýsingar í gegnum netfangið aflamark@byggdastofnun.is

Verklagsreglur um aflamark Byggðastofnunar og aflamarksnefnd.

Tenglar á lög og reglugerðir:

Lög nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða.

Reglugerð nr. 643/2016 um ráðstöfun og meðferð aflaheimilda samkvæmt 10. gr. a. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða.

Reglugerð um ráðstöfun og meðferð aflaheimilda án vinnsluskyldu skv. 10. gr. a laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða.

Skráning á póstlista

  • Byggðastofnun  |  Sauðármýri 2  |  550 Sauðárkrókur 
  • Sími 455-5400
  • postur@byggdastofnun.is
  • Opið frá kl. 8:30-12:00 & 13:00-16:00  | kt. 450679-0389