Fara í efni  

Bíldudalur

 Bíldudalur – samtal um framtíðina

Bíldudalur hóf göngu sína í verkefninu Brothættar byggðir árið 2013 undir heitinu Bíldudalur - samtal um framtíðina. Verkefninu lauk formlega í lok árs 2016 og var það sameiginleg ákvörðun íbúa, sveitarfélags og Byggðastofnunar að þess væri ekki lengur þörf vegna jákvæðrar þróunar í byggðarlaginu, ekki síst vegna uppgangs í atvinnulífi. 

Um byggðarlagið:

Bíldudalur er við sunnanverðan Arnarfjörð og stendur við Bíldudalsvog sem gengur inn úr firðinum. Norðan við voginn er Bíldudalsfjall og sunnan Otradalsfjall, oft nefnt Bylta af heimamönnum. Bíldudalur var verslunarstaður fyrr á tíð, á tímum einokunarverslunarinnar, en þegar verslun var gefin frjáls í lok 18. aldar eignaðist Ólafur Thorlacius verslunina og rak þaðan þilskipaútgerð og flutti fisk til Spánar. Pétur J. Thorsteinsson rak einnig útgerð og verslun á Bíldudal í kringum aldamótin 1900 og á þeim tíma myndaðist þorpið.

Bíldudalur er hluti af Vesturbyggð, Á árabilinu 2000-2011 fækkaði íbúum um rúm 40% en árið 2011 voru þeir 187. Sú þróun snerist við með bjartari horfum í atvinnulífi staðarins. Íbúar voru 232 talsins 1. janúar 2016.

Á Bíldudal er næg atvinna og miklar breytingar hafa orðið vegna starfsemi laxeldisfyrirtækisins Arnarlax, en þar starfar fjöldi íbúa byggðarlagsins. Starfsemi fyrirtækisins hefur aukist jafnt og þétt allt frá árinu 2012 og er nú orðin stærsti vinnuveitandi staðarins.  Auk þess hefur starfsemi Íslenska Kalkþörungafélagsins verið kjölfesta í atvinnulífi staðarins. Verksmiðja félagsins hefur stækkað auk þess sem meiri fullvinnsla hefur skapað aukin verðmæti.  Hafkalk er sprotafyrirtæki sem vinnur m.a. fæðubótarefni úr afurðum verksmiðju Íslenska Kalkþörungafélagsins, vörur fyrirtækisins hafa m.a. hlotið vottun frá vottunarstofunni Tún um framleiðslu náttúruvara.

Samtal við íbúana á vegum verkefnisins Brothættra byggða hófst með íbúaþingi í september 2013. Verkefnið á Bíldudal hlaut heitið „Bíldudalur – samtal um framtíðina“.  Var íbúaþingið mjög vel sótt. Nokkrir íbúafundir voru haldnir á verkefnistímanum, til að kynna framgang verkefnisins. Var sá síðasti haldinn í apríl 2016, þar sem gerð var grein fyrir þeirri niðurstöðu að verkefnisstjórnin myndi starfa út árið 2016 og verkefninu þá ljúka formlega með aðkomu Byggðastofnunar.

Alls voru 15 málaflokkar til umræðu á íbúaþinginu. Þátttakendur töldu húsnæðismál, heilbrigðisþjónustu, samgöngur og íþrótta- og æskulýðsmál vera mikilvægustu málaflokkana. Áform um uppbyggingu vegna fyrirhugaðs laxeldis skapa væntingar sem lituðu umræðu íbúaþingsins, enda að mörgu að hyggja. Einnig var talsvert rætt um möguleika í ferðaþjónustu, um félagslíf bæjarins og um samstarf og samstöðu í samfélaginu. 

Veittir eru verkefnastyrkir á vegum Brothættra byggða til þróunarverkefna og annarra samfélagseflandi verkefna á þeim svæðum sem taka þátt. Sjá má yfirlit yfir veitta verkefnastyrki í öllum þátttökubyggðarlögum hér. Hér fyrir neðan má skoða yfirlit styrkja í Bíldudal  í PDF skjali.

Í verkefnisstjórn sátu: Ásthildur Sturludóttir sveitarstjóri, Aðalsteinn Óskarsson, framkvæmdastjóri Fjórðungssambands Vestfjarða, Shiran Þórisson, framkvæmdastjóri AtVest, Ása Dóra Finnbogadóttir f.h. íbúa og loks Kristján Þ. Halldórsson og Sigríður K. Þorgrímsdóttir frá Byggðastofnun. Valgeir Ægir Ingólfsson, ráðgjafi hjá AtVest starfaði að auki með verkefnisstjórninni.

Hér má skoða gögn sem tengjast mótun verkefnisins og framvindu þess:

Bíldudalur – samtal um framtíðina - Skilaboð íbúaþings, september 2013

Heildaryfirlit styrkja - Bíldudalur

 Bíludalur 

Mynd: Bíldudalur og Bíldudalsfjall / Kristján Þ. Halldórsson. 

Uppfært 30.05.2022

Skráning á póstlista

  • Byggðastofnun  |  Sauðármýri 2  |  550 Sauðárkrókur 
  • Sími 455-5400
  • postur@byggdastofnun.is
  • Opið frá kl. 8:30-12:00 & 13:00-16:00  | kt. 450679-0389