Á síðasta ári runnu samningar Byggðastofnunar um aflamark hennar við útgerðir og vinnsluaðila um allt land sitt skeið. Vinna við nýja samninga hefur því verið fyrirferðamikil síðustu misserin en gerðir hafa nú verið samningar í öllum þátttökubyggðalögunum, utan við Flateyri sem mun líta dagsins ljós á næstu vikum.
Stofnunin hefur nú hafið útgreiðslu styrkja til ríkisstofnana sem færa stöðugildi frá höfuðborgarsvæðinu í landsbyggðirnar. Er þetta gert af fjármagni úr gildandi byggðaáætlun með það að markmiði að fjölga ríkisstörfum í byggðum landsins, enda er hlutfall slíkra starfa af íbúafjölda langhæst á höfuðborgarsvæðinu.
Byggðastofnun í samvinnu við Landshlutasamtökin stendur fyrir fundaröð undir yfirskriftinni „Atvinnuþróun í landsbyggðunum“.
Á fundunum verður farið yfir atvinnuþróun í landshlutunum, lánamöguleika Byggðastofnunar vegna atvinnurekstrar og styrki Byggðaáætlunar.
Fundirnir verða haldnir á samskiptaforritinu Teams og að þeim loknum gefst tækifæri til að bóka fund með byggðaþróunarfulltrúa og/eða lánasérfræðingi Byggðastofnunar.
Í gær fundaði stjórn Byggðastofnunar í Húsi Hákarla-Jörundar í Hrísey. Að stjórnarfundi loknum var snæddur hádegisverður með hverfisráði eyjunnar áður en farið var í heimsóknir í Hríseyjarbúðina, sem hefur hlotið styrki úr byggðaáætlun, og í Hrísey Seafood sem er samningsaðili að aflamarki Byggðastofnunar í Hrísey. Góðum degi lauk svo með fundi með bæjarstjórn Akureyrarbæjar í ráðhúsinu á Akureyri þar sem ýmis mál voru rædd, m.a. byggðaþróunarverkefnið Brothættar byggðir (verkefnið), aflamark Byggðastofnunar, styrkjapottar, samstarf við landshlutasamtök sveitarfélaga, mælaborð Byggðastofnunar og fleira. Stjórn Byggðastofnunar og starfsfólk þakkar fyrir góðar móttökur og umræður.
Meðalfasteignagjöld viðmiðunareignar eru orðin hærri í landsbyggðunum en á höfuðborgarsvæðinu. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Byggðastofnunar um fasteignagjöld viðmiðunareignar 2025. Samhliða skýrslunni hefur mælaborð verið uppfært fyrir öll matssvæðin í greiningunni sem eru nú 103 talsins. Heildarfasteignamat viðmiðunareignar er að meðaltali 67,1 m.kr. og fasteignagjöld að meðaltali 502 þ.kr. Mikill munur er á upphæðum fasteignagjalda milli matssvæða, sérstaklega í sameinuðum sveitarfélögum þar sem álagningarhlutföll eru þau sömu hvort sem eignir eru staðsettar í stærri eða minni byggðakjörnum.