Stöðvarfjörður
Sterkur Stöðvarfjörður
Stöðvarfjörður hóf göngu sína í verkefninu Brothættar byggðir á fyrri hluta árs 2022 undir heitinu Sterkur Stöðvarfjörður. Áætlað er að verkefnið vari til loka árs 2025 hvað aðkomu Byggðastofnunar varðar.
Um byggðarlagið:
Stöðvarfjörður hóf göngu sína í verkefninu Brothættar byggðir í ársbyrjun 2022. Íbúar völdu því heitið Sterkur Stöðvarfjörður á íbúaþingi. Gert er ráð fyrir að verkefninu ljúki í lok árs 2025 hvað aðkomu Byggðastofnunar varðar.
Upphaf þéttbýlismyndunar á Stöðvarfirði má rekja til ársins 1896, þegar Carli Guðmundssyni var veitt leyfi til verslunarreksturs á staðnum. Áður höfðu búið þar útvegsbændur um langan tíma, enda gjöful fiskimið skammt út af firðinum. Þegar verslun hófst á Stöðvarfirði árið 1895 tilheyrði byggðarlagið Breiðdalshreppi en tíu árum síðar var stofnað sérstakt sveitarfélag. Íbúar voru 276 um síðustu aldamót en í dag búa um 180 manns á Stöðvarfirði.
Fiskvinnsla og fiskveiðar voru til langs tíma höfuðatvinnuvegur Stöðfirðinga eins og títt er í litlum sjávarplássum á Íslandi. Þar var um langt skeið rekin togaraútgerð og frystihús með aðaláherslu á bolfiskvinnslu. Á síðustu árum hefur störfum við sjávarútveg fækkað mikið.
Við lokun frystihússins árið 2005 fækkaði störfum allverulega á Stöðvarfirði. Í dag eru um 5-6 línubátar sem landa á Stöðvarfirði í 8-10 mánuði á ári en engin afli er unnin á staðnum. Einnig hafa verið nokkrir strandveiðibátar yfir sumartímann. Þessir bátar njóta þjónustu á Stöðvarfirði bæði við höfnina og hjá Fiskmarkaði Austurlands. Verslunin Brekkan er á staðnum, svokölluð nauðsynjaverslun með gjafavöru á efri hæðinni. Verktakafyrirtæki er starfrækt á staðnum. Þar er rekið verkstæði ásamt ýmiskonar þjónustu varðandi jarðvegsvinnu ásamt fleiru.
Skólinn og leikskólinn er stærsti vinnustaðurinn á Stöðvarfirði. Sköpunarmiðstöðin á Stöðvarfirði var stofnuð til að nýta mannvirki sem áður hýstu fiskvinnslu staðarins. Þar er blómlegt starf í nýsköpun á sviði lista og menningar.
Ferðaþjónusta er rekin allt árið á Stöðvarfirði enda mikið að sjá í firðinum fagra, einstök fjallasýn á sumrin og glæsileg norðurljósasýning á veturna. Gistiheimilið Saxa er með opið nánast allt árið með ýmiskonar viðburðum og bíður upp á gistingu í 16 herbergjum. Steinasafn Petru er opið yfir sumarið og þar staldra margir gestir við til að virða fyrir sér fegurð og sögu steinanna hennar Petru. Á bænum Óseyri innst í firðinum er rekin ferðaþjónusta árið um kring.
Verkefnisstjóri: Valborg Ösp Árnadóttir Warén (valborg@austurbru.is)
Í verkefnisstjórn eru: Stefán Þór Eysteinsson og Haraldur L. Haraldsson fulltrúar Fjarðabyggðar, Alda Marín Kristinsdóttir fulltrúi Austurbrúar, Bryngeir Ágúst Margeirsson og Bjarni Stefán Vilhelmsson fulltrúar íbúa og Kristján Þ. Halldórsson og Helga Harðardóttir fulltrúar Byggðastofnunar.
Stöðvarfjörður, kvæði Björns Jónssonar frá Kirkjubóli, lýsir hug heimamanns til byggðarlagsins.
Milli himinhárra fjalla
heilladísir standa vörð,
þar í hjúpi hvítra mjalla
hvíla veit ég lítinn fjörð.
Þangað hjartans straumar streyma,
stöðugt þangað beinist þrá,
þar á andinn ennþá heima
eins og lífs míns vori á.
Þarna björtu bernskuárin
birtust mér í gleðidraum,
þarna felldi fyrstu tárin
fárátt barn við tímans straum.
Þarna ástúð minnar móður
mínum sorgum huggun fann.
Þarna fyrst mig faðir góður
fræddi um Guð og sannleikann.
Þá var ljúft að lifa og vaka,
- lífsins sumarmorgni á, -
yndissöngva undir taka,
undralönd í hilling sjá,
finna blíðan blæ á vanga
blómin lesa um grund og hól.
Slík var æska gæfuganga
glaðir undir himinsól.
Enn frá blómum æskudaga
ilminn leggur fyrir vit.
Ennþá finn ég fanga og draga
forna tímans sólskinsglit.
Minninganna margt er sporið
markað djúps í Helga jörð.
Aldrei gleymist æskuvorið
yndislegt við Stöðvarfjörð.
Hér má skoða gögn sem tengjast mótun verkefnisins og framvindu þess:
Sterkur Stöðvarfjörður - ársskýrsla 2023
Sterkur Stöðvarfjörður - ársskýrsla 2022
Stöðugreining Stöðvarfjörður, útg. í desember 2022
Heildaryfirlit styrkja - Sterkur Stöðvarfjörður
Verkefnisáætlun Sterks Stöðvarfjarðar október 2022
Skilaboð íbúaþings á Stöðvarfirði, mars 2022
Mynd: Stöðvarfjörður að vori / Kristján Þ. Halldórsson
Uppfært 12.06.2024.