Fara í efni  

Breiðdalshreppur

Breiðdælingar móta framtíðina

Breiðdalshreppur hóf göngu sína í verkefninu Brothættar byggðir árið 2013 undir heitinu Breiðdælingar móta framtíðina. Verkefninu lauk formlega í lok árs 2018 þegar Byggðastofnun dró sig í hlé.

Um byggðarlagið:

Breiðdalur er víðlendur og skiptist í þrjá hluta, Norðurdal, Suðurdal og Útsveit. Há fjöll umkringja Breiðdalinn, hæst 1100-1200 m.y.s. Breiðdalsá er þekkt laxveiðiá og í henni er fossinn Beljandi. Heydalir er prestsetur og hefur verið allt frá fyrstu tíð kristni. Frægastur presta þar var sálmaskáldið sr. Einar Sigurðsson (1538-1626). Unnið er að hugmynd um uppbyggingu Einarsstofu, sem yrði staðsett á Heydölum. Þorpið Breiðdalsvík fór ekki að byggjast að marki fyrr en upp úr 1960. Um 1880 lét Gránufélagið reisa þar vörugeymsluhús, en föst búseta var þar frá 1896 eftir að Brynesverslun á Seyðisfirði reisti hús undir starfsemi sína. Árið 1906 brann verslunarhúsið og var þá reist nýtt verslunarhús sem stendur enn og telst vera elsta hús Breiðdalsvíkur. Gamla Kaupfélagið hefur verið endurreist og þar er nú starfrækt Breiðdalssetur sem er í senn jarðfræði- og málvísindasetur auk þess sem saga byggðarlagsins er þar sögð.

Í héraðinu bjuggu árið 2016 samtals 183 manns, þar af 124 á Breiðdalsvík eftir nokkra fækkun árin á undan. Árið 1998 voru skráðir íbúar 302 talsins. Fækkun íbúa var því tæp 40% á tæplega 20 ára tímabili. Þar af hafði fækkað um 100 íbúa í aldurshópnum 0-45 ára, eða sem nemur 33% og fækkunin er samkvæmt því að verulegu leyti bundin við þann aldurshóp.

Sjávarútvegur var áður mikilvæg atvinnugrein í byggðarlaginu, en vægi hans hafði farið minnkandi. Fiskvinnsla var opnuð á ný á Breiðdalsvík í byrjun febrúar árið 2015. Hún er staðsett í gamla frystihúsinu sem Byggðastofnun lét gera upp til margvíslegra nota, m.a. er stór og glæsilegur salur í húsinu. Í Breiðdalnum hefur verið töluverð uppbygging í ferðaþjónustu, sérstaklega yfir sumarmánuðina.  Sveitarfélagið Breiðdalshreppur átti í fjárhagserfiðleikum á fyrstu árum verkefnisins, sem stafa að verulegu leyti af miklum skuldum sem sveitarfélagið ber af íbúðum sem byggðar voru í félagslega kerfinu. Íbúar ákváðu með kosningum að sameinast Fjarðabyggð frá og með byrjun árs 2019.

Samtal við íbúana á vegum verkefnisins Brothættra byggða hófst með íbúaþingi í nóvember 2013. Verkefnið í Breiðdalshreppi hlaut heitið „Breiðdælingar móta framtíðina“. Var íbúaþingið mjög vel sótt. Árlegir íbúafundir voru haldnir til að kynna framgang verkefnisins. Alls voru 15 málaflokkar til umræðu á þinginu. Atvinnumál skoruðu hæst í stigagjöf íbúa varðandi málaflokka. Þar var m.a. rætt um fjölgun atvinnutækifæra út frá sérstöðu svæðisins. Einnig var rætt um ferðaþjónustu, um nýtingu frystihússins, opnun slipps, matvælaframleiðslu, um Einarsstofu og eflingu Breiðdalsseturs, svo nokkur dæmi séu nefnd. 

Bjarni Kr. Grímsson var ráðinn verkefnisstjóri frá vori 2015 og starfaði út maí 2016. Frá september 2016 til apríl 2018 voru Hákon Hansson og Sif Hauksdóttir settir verkefnisstjórar í Breiðdælingar móta framtíðina. Alda Marín Kristinsdóttir var ráðin sem verkefnisstjóri í maí 2018 og sinnti hún á því ári bæði Borgarfirði Eystri og Breiðdalshreppi. 

Veittir eru verkefnastyrkir á vegum Brothættra byggða til þróunarverkefna og annarra samfélagseflandi verkefna á þeim svæðum sem taka þátt. Sjá má yfirlit yfir veitta verkefnastyrki í öllum þátttökubyggðarlögum hér. Hér fyrir neðan má skoða yfirlit styrkja í Breiðdælingar móta framtíðina  í PDF skjali.

Verkefnisstjóri: Alda Marín Kristinsdóttir (aldamarin@austurbru.is)
Í verkefnisstjórn sátu: Hákon Hansson, f.v. oddviti Breiðdalshrepps, Signý Ormarsdóttir, Austurbrú, Jóney Jónsdóttir, verkefnisstjóri sveitarstjórnarmála hjá SSA, Sif Hauksdóttir og Helga H. Melsteð f.h. íbúa í Breiðdal og loks Kristján Þ. Halldórsson og Eva Pandora Baldursdóttir frá Byggðastofnun.

Hér má skoða gögn sem tengjast mótun verkefnisins og framvindu þess:

Breiðdælingar móta framtíðina

Breiðdælingar móta framtíðina - Skilaboð íbúaþings, nóvember 2013

http://www.breiddalur.is/ og Facebooksíða byggðarlagsins

Heildaryfirlit styrkja - Breiðdælingar móta framtíðina

Mynd: Frá Breiðdalsvík / Kristján Þ. Halldórsson.

 

Uppfært 30.05.2022.

Skráning á póstlista

  • Byggðastofnun  |  Sauðármýri 2  |  550 Sauðárkrókur 
  • Sími 455-5400
  • postur@byggdastofnun.is
  • Opið frá kl. 8:30-12:00 & 13:00-16:00  | kt. 450679-0389