Fara í efni  

Byggðaáætlanir í öðrum löndum

Til að takast á við þróun samfélagsgerðarinnar, sérstaklega hvað varðar landfræðilaga dreifingu byggðar og að tryggja öllum sem jöfnust lífsskilyrði óháð búsetu, reka flest lönd í okkar heimshluta byggðastefnu af einhverju tagi. Nærtækast er að horfa til Evrópu og þá einkum og sér í lagi Norðurlandanna enda félags- og efnahagsgerðin þar einna líkust því sem er hér á landi. Framan af var lögð áhersla á að rétta stöðu þeirra svæða sem urðu undir í samkeppninni um fólk og fyrirtæki með ýmsum ívilnunum og beinum fjárframlögum. Síðar meir hefur áherslan verið að færast yfir á það að vinna með styrkleika og tækifæri einstakra svæða og byggja þannig upp efnahagslegar heildir.

Samandregið má lýsa þróuninni sem orðið hefur í málaflokknum í okkar heimshluta frá því um miðja síðustu öld og til dagsins í dag eins og gert er í töflunni hér að neðan. Mikilvægt er að hafa í huga að hér er um að ræða lýsingu á þróun sem felur í sér skörun á milli tímabila og því sýnir taflan áherslubreytingar yfir tíma fremur en einhver skýr kaflaskil.[1]

 

Hefðbundin byggðastefna

Ný byggðastefna

Markmið

Jafna stöðu svæða með tímabundnum ívilnunum

Efla samkeppnishæfni á grunni svæðisbundinna styrkleika

Aðferð

Á grunni einstakra atvinnugreina

Samþætt þróunarverkefni

Tæki

Niðurgreiðslur og ríkisaðstoð

Uppbygging „harðra“ og „mjúkra“ innviða[2]

Gerendur

Ríkisvaldið

Ýmis stjórnvöld

Einingar

Stjórnsýslueiningar

Félags- og efnahagsheildir

Afleiðing

Endurdreifing gæða frá sterkari svæðum til þeirra veikari

Uppbygging samkeppnishæfra svæða á grunni svæðisbundinna styrkleika

                          

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, sem samþykkt voru af öllum aðildarríkjunum árið 2015 og gilda fyrir tímabilið 2016-2030, eru mikilvægur vegvísir samfélagsþróunar næstu ára. Þau mynda samþætt jafnvægi hinna þriggja stoða sjálfbærrar þróunar; hinnar efnahagslegu, félagslegu og umhverfislegu. Aðalinntak markmiðanna er jafnframt að engir einstaklingar eða hópar verði skildir eftir og því er mikilvægt að ekki sé eingöngu horft til meðaltala við árangurmælingar heldur til þess að þau hafi raunverulega náð til allra. Mörgum (jafnvel flestum) markmiðanna verður ekki náð nema með virkri aðkomu staðbundinna stjórnvalda í samvinnu við ríkisvaldið og eftir atvikum í alþjóðlegu samstarfi. [3]

Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) hefur frá árinu 1999 starfrækt sérstaka nefnd til stefnumörkunar á sviði svæðisbundinnar þróunar (e. Regional Development Policy Committee). Hlutverk hennar er að skapa vettvang til greiningar, umræðu og miðlunar varðandi svæðisbundna þróun sem er staðfærð, tekur til allra stjórnsýslustiga, gengur þvert á atvinnugreinar og byggist á rannsóknum og nýsköpun. Jafnframt styður nefndin við bætt búsetugæði hvort sem er í borgum, bæjum eða dreifbýli og að svæðin hvert um sig nái að nýta tækifæri sín og stuðli þannig að sem öflugustum samfélögum.[4]

Evrópusambandið hefur í áratugi rekið byggðastefnu sem á sér rætur í stofnsáttmála sambandsins. Frá árinu 1986 hefur verið lögð megináhersla á að styrkja efnahagslega og samfélagslega samheldni (e. economic and social cohesion) með því að styðja við svæði sem með einhverjum hætti hafa orðið undir í samkeppninni um fólk og fyrirtæki. Framan af var áherslan á stuðning við uppbyggingu innviða og þó sú áhersla sé enn uppi hefur þunginn færst yfir á það hvernig einstök svæði geti sem best nýtt styrkleika sína til uppbyggingar sjálfbærrar þróunar innan sambandsins sem heildar. Veita þarf jákvæðum og neikvæðum áhrifum samþjöppunar efnahagsstarfseminnar athygli, byggja sem bestar samgöngu- og fjarskiptatengingar og tryggja aðgengi að grunnþjónustu. Þá sé mikilvægt að þróa samstarf og samvinnu milli svæða þar sem mörg hinna stærri úrlausnarefna, s.s. á sviði loftslagsmála, eigi sér í raun engin landamæri.[5]

Framtíðarsýn Norrænu ráðherranefndarinnar frá 2019 um að Norðurlöndin verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims fyrir árið 2030 setur ákveðinn ramma um alla stefnumótun á sviði samfélags- og byggðaþróunar. Áherslurnar sem lagðar eru, græn Norðurlönd, samkeppnishæf Norðurlönd og félagslega sjálfbær Norðurlönd, snerta á öllum þremur víddum sjálfbærninnar. Forgangsverkefnin eru að: i) greiða fyrir grænum umskiptum og vinna að kolefnishlutleysi og sjálfbæru hringrásar- og lífhagkerfi, ii) efla grænan hagvöxt sem byggi á þekkingu, nýsköpun, hreyfanleika og stafrænni samþættingu og iii) efla samfellt svæði án aðgreiningar þar sem jafnrétti ríkir og sem byggist á sameiginlegum gildum og enn öflugri menningarsamskiptum og velferð. [6]

Sú áherslubreyting í byggðamálum sem komið var inn á hér að framan, ásamt ýmsum  rannsóknum sem gerðar hafa verið, benda til þess að til að byggðaaðgerðir skili árangri þurfi að byggja þær á styrkleikum (sérkennum) viðkomandi svæðis og afmarka þær ekki við ákveðin stjórnsýslumörk, heldur sé mikilvægt að greina og vinna út frá virkum félags- og efnahagsheildum. Jafnframt sé mikilvægt að virkja til þátttöku mismunandi stjórnsýslustig, atvinnulíf og þekkingarstofnanir. [7]  

Ef horft er til einstakra byggðaþróunarverkefna þar sem unnið er með heildstæð svæði óháð stjórnsýslumörkum má nefna norskt borgarsvæðisverkefni sem rekið var á árunum 2014-2018 og hafði það að markmiði að styrkja vaxtarmöguleika þeirra (borgar)svæða sem þátt tóku og auka þekkingu á samspili viðkomandi borga/bæja og aðliggjandi svæða. Helstu niðurstöður verkefnisins voru að ¾ þeirra 37 svæða sem tóku þátt höfðu styrkt getu sína til atvinnuþróunar. Það sem einkum stuðlaði að árangri voru innri þættir á borð við efnahagslegar bjargir og samvinna innan svæðis. Þá bentu niðurstöður til þess að mikilvægt hefði verið að gera félags- efnahagsgreiningu á svæðunum við upphaf verkefnisins.[8] Í  byggðaþróunarverkefnum hafa Norðmenn jafnframt beitt öðrum leiðum, s.s. jöfnun flutningskostnaðar, mismunandi tryggingargjaldi af launum, stuðningi við verslun í gegnum Merkur-verkefnið, afskriftum námslána fyrir fólk sem býr og vinnur á aðgerðarsvæðinu, lægri tekjuskatti og hærri barnabótum.[9] Í ljósi þess að Ísland er í sömu stöðu og Noregur gagnvart regluverki Evrópska efnahagssvæðisins hentar vel að leita í þeirra smiðju þar sem allar  byggðaaðgerðir sem heimilt er að beita þar ætti að vera heimilt að beita hér að breyttu breytanda.

Í Finnlandi hefur verið unnið með nokkur verkefni, m.a. á sviði skipulagsmála, þar sem markmiðið hefur verið að styrkja samspil borga við aðliggjandi dreifbýlissvæði í þeim tilgangi að bæta grunnþjónustu en einnig samstarf varðandi landnotkun og samgöngur og styrkja þannig forsendur efnahagsþróunar á viðkomandi svæðum.[10]   

Skosk stjórnvöld hafa, sem hluta af byggðastefnu sinni, rekið sérstaka borgarstefnu frá árinu 2011 sem byggist á þeirri sýn að með því að efla borgirnar og tengsl þeirra og samvinnu við nærliggjandi dreifbýlissvæði sé best stuðlað að sjálfbærum vexti á landsvísu um leið og tekist sé á við að skapa meiri jöfnuð í samfélaginu. Þannig styrki markmiðin um sjálfbæran vöxt og aukinn jöfnuð hvort annað og til að ná þeim sé nauðsynlegt að virkja þá krafta sem borgarsvæðin búi yfir hvað varðar þekkingarstarfsemi og nýsköpunarkraft. Í forgrunni eru fjögur áhersluatriði; alþjóðleg tengsl, aukin fjárfesting, aukin nýsköpun og aukinn jöfnuður í samfélaginu.[11]



[2] Harðir innviðir (e. physical/hard) eru t.d. vegir, brýr og flutningskerfi raforku en mjúku (e. soft) innviðirnir eru þjónustan sem veitt er til að halda uppi samfélagsgerðinni, s.s. menntun, heilbrigðisþjónusta, menning o.þ.h.

texti

Skráning á póstlista

  • Byggðastofnun  |  Sauðármýri 2  |  550 Sauðárkrókur 
  • Sími 455-5400
  • postur@byggdastofnun.is
  • Opið frá kl. 8:30-12:00 & 13:00-16:00  | kt. 450679-0389