Skaftárhreppur
Skaftárhreppur til framtíðar
Skaftárhreppur varð til árið 1990 við sameiningu fimm hreppa; Hörgslands-, Kirkjubæjar-, Leiðvalla-, Skaftártungu- og Álftavershrepps. Hann er austurhluti Vestur-Skaftafellssýslu og afmarkast af Blautukvísl á Mýrdalssandi í vestri og Sandgígjukvísl á Skeiðarársandi í austri. Skaftárhreppur nær yfir 7% af Íslandi. Landslag og gróðurfar í Skaftárhreppi er mjög fjölbreytilegt og andstæður náttúrunnar mjög miklar. Veðursæld er mikil, mildir vetur og hlý og sólrík sumur.
Klaustur er við þjóðveg 1, miðsvæðis í hreppnum. Þaðan liggja leiðir til allra átta. Í Skaftárhreppi eru mörg kennileiti og alþekktar náttúruperlur svo sem Fjaðrárgljúfur, Lakagígar, Langisjór, Eldgjá, Orustuhóll, Dverghamrar og Núpsstaðaskógur ásamt Lómagnúp. Systrastapi og Systrafoss eru vinsælt myndefni og áfangastaðir þeirra er ferðast um landið. Úr Skaftárhreppi er stutt í vinsæla ferðamannastaði eins og Landmannalaugar, Skaftafell, Jökulsárlón og Svörtu fjöru í Mýrdalshrepp.
Í janúar 2016 voru íbúar Skaftárhrepps um 470 talsins, en eftir viðvarandi fækkun íbúa hefur tekist að snúa þróuninni við. Aðalatvinnuvegir svæðisins eru landbúnaður og ferðaþjónusta, en fiskeldi skipar einnig stóran sess. Fullvinnsla afurða er allnokkur. Handverkssláturhús og kjötvinnsla er að Seglbúðum, kjötvinnsla er að Borgarfelli og bleikju er slátrað og pakkað hjá Klausturbleikju. Þá er repja ræktuð í Meðallandi og unnin olía til matargerðar. Umsvifamikill rekstur er í hótel- og veitingaþjónustu og straumur ferðamanna eykst ár frá ári. Framboð á afþreyingu tengdri ferðamennsku fer einnig vaxandi.
Eini þéttbýliskjarninn í hreppnum er Kirkjubæjarklaustur, eða ,,Klaustur” eins og staðurinn er gjarnan nefndur í daglegu tali. Á Klaustri er stunduð verslun, margvísleg þjónusta og iðnaður. Þar er grunnskóli, leikskóli, heilsugæsla og dvalarheimili aldraðra.
Samtal við íbúana á vegum verkefnisins Brothættra byggða hófst með íbúaþingi í október 2013. Verkefnið í Skaftárhreppi hlaut heitið „Skaftárhreppur til framtíðar“. Var íbúaþingið ágætlega sótt. Alls voru 15 málaflokkar til umræðu á þinginu. Þau málefni sem hæst skoruðu voru fjarskipti, að fá þriggja fasa rafmagn, húsnæðismál og atvinnumál, ekki síst ferðaþjónusta og landbúnaður, sem séu atvinnugreinar sem ber að styrkja.
Nokkrir íbúafundir hafa verið haldnir síðan, til að kynna framgang verkefnisins. Á íbúafundi í nóvember 2015 staðfestist það sem fram kom á íbúaþinginu, að það sem skiptir íbúa mestu til að þróun byggðar verði jákvæð, er að styrkja innviði, koma á þriggja fasa rafmagni, bæta fjarskipti og efla samgöngur. Ríkisjarðir eru margar og hafa íbúar skoðanir á nýtingu þeirra og ættliðaskipti er mál sem þarf að hafa þekkingu á. Þá liggja tækifæri í fullvinnslu afurða, sögutengdri ferðamennsku og nýtingu auðlinda. Skaftárhreppur er innan Kötlu Geopark og Vatnajökulsþjóðgarður er á afrétti hans. Hvoru tveggja býður upp á tækifæri til framtíðar.
Snemma árs 2015 var Eirný Vals ráðin verkefnisstjóri fyrir verkefnið í Skaftárhreppi en tók Þuríður Helga Bendiktsdóttir við stöðunni árið 2016. Hún hefur, ásamt verkefnisstjórninni, unnið að mótun framtíðarsýnar og markmiða fyrir verkefnið. Starfað verður eftir þeirri stefnumótun út verkefnistímann. Auk stefnumótunar hefur verkefnisstjóri unnið að kynningu verkefnisins innan stjórnsýslunnar og þeirra hagsmunaaðila sem gætu greitt fyrir þeim málum sem íbúar leggja áherslu á.
Verkefnisstjóri er Þuríður Helga Benediktsdóttir (framtid@klaustur.is)
Í verkefnisstjórn eru Sandra B. Jóhannsdóttir fulltrúi sveitarfélagsins Skaftárhrepps, Auðbjörg Bjarnadóttir, Guðlaug Ósk Svansdóttir og Ólafía Jakobsdóttir fulltrúar íbúa, Erla Þ. Ólafsdóttir frá Kirkjubæjarstofu og að lokum Eva Pandora Baldursdóttir og Kristján Þ. Halldórsson fulltrúar Byggðastofnunar.
Veittir eru verkefnastyrkir á vegum Brothættra byggða til þróunarverkefna og annarra samfélagseflandi verkefna á þeim svæðum sem taka þátt. Sjá má yfirlit yfir veitta verkefnastyrki hér.
Facebooksíða verkefnisins og heimasíða.
Skaftárhreppur til framtíðar - Markmið og framtíðarsýn
Skaftárhreppur til framtíðar - Skilaboð íbúaþings, október 2013
Uppfært 26.06.2018