Fara í efni  

ESPON 2020

Meginviðfangsefni ESPON 2020 verður áfram að styrkja evrópskt samstarfsnet um vöktun byggðaþróunar, að auka safn samevrópskra, sambærilegra og áreiðanlegra upplýsinga um byggðaþróun og auka notkun þeirra við stefnumótun í byggðaþróun. Fjallað er um allar gerðir byggða, jaðarbyggðir, stórborgir og borgasvæði, stóra landshluta, eyjar og innlönd. Meginmarkmið ESPON 2020 er að stuðla að skilvirkni áætlana og stefnumiða ESB, þjóða og landshluta á sviði byggðaþróunar með því að vinna áreiðanlegar upplýsingar um staðhætti í ESB-löndunum 28, Noregi, Liechtenstein, Sviss og Íslandi, gefa út niðurstöður og koma þeim á framfæri.

ESPON 2020 fær til ráðstöfunar um 49 milljónir evra, ríflega 7 milljarða króna, frá Uppbyggingarsjóði ESB (ERDF, 85%) og þátttökulöndunum (15%). Þessum fjármunum verður að mestu leyti varið til rannsókna á starfstímabilinu, í gegnum samkeppnissjóð með fimm sérstök markmið:

Sérstakt markmið 1: Aukin vinnsla á áreiðanlegum upplýsingum um staðhætti með hagnýtum rannsóknum og greiningum.

Sérstakt markmið 2: Uppfærð þekkingaryfirfærsla og stuðningur við greiningar.

Sérstakt markmið 3: Bætt vöktun á byggðaþróun og áhöld fyrir greiningar á staðháttum.

Sérstakt markmið 4: Víðtækari dreifing og notkun niðurstaðna rannsókna og greininga.

Sérstakt markmið 5: Hraðari, virkari og skilvirkari framkvæmd og vandaðri stuðningur áætlunarinnar.

Þessu síðasta sérstaka markmiði er ætlunin að ná m.a. með starfsháttabreytingum ESPON sem koma fram í stofnun ESPON EGTC (European Grouping of Territorial Cooperation) samkvæmt reglum ESB. Áfram verður háskólum og rannsóknastofnunum í Evrópu gefinn kostur á því að skila tilboðum í vinnslu verkefna sem mótuð eru af ESPON eða af hagshöfum undir ofantalin markmið, stofnunum ríkis og sveitarfélaga eða ráðuneytum, í þátttökulöndunum. Meginregla er að bæði í hópi þeirra sem bjóða í verkefni og þeirra sem móta verkefni til útboðs, sé þátttaka frá þremur löndum eða fleiri. Á síðasta starfstímabili tóku á annað hundrað háskólar og rannsóknastofnanir í Evrópu þátt byggðarannsóknaverkefnum sem boðin voru út af ESPON. Háskólinn á Akureyri hefur verið virkastur íslenskra stofnana í þessum verkefnum.

ESPON EGTC hefur aðsetur í Luxembourg og rekstur þess er á ábyrgð ráðuneytisins fyrir sjálfbæra þróun og innviði.

Með samkomulagi við Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið hefur Byggðastofnun annast þátttöku Íslands í ESPON og tilnefnt fulltrúa í Monitoring Committee þar sem tekur allar meiriháttar ákvarðanir ESPON og vaktar framvindu áætlunarinnar. Öll þátttökulönd ESPON eiga einn fulltrúa í Monitoring Committee.

Síðast uppfært 31.08.2015

Skráning á póstlista

  • Byggðastofnun  |  Sauðármýri 2  |  550 Sauðárkrókur 
  • Sími 455-5400
  • postur@byggdastofnun.is
  • Opið frá kl. 8:30-16:00  | kt. 450679-0389