ESPON 2020
Meginviðfangsefni ESPON 2020 verður áfram að styrkja evrópskt samstarfsnet um vöktun byggðaþróunar, að auka safn samevrópskra, sambærilegra og áreiðanlegra upplýsinga um byggðaþróun og auka notkun þeirra við stefnumótun í byggðaþróun. Fjallað er um allar gerðir byggða, jaðarbyggðir, stórborgir og borgasvæði, stóra landshluta, eyjar og innlönd. Meginmarkmið ESPON 2020 er að stuðla að skilvirkni áætlana og stefnumiða ESB, þjóða og landshluta á sviði byggðaþróunar með því að vinna áreiðanlegar upplýsingar um staðhætti í ESB-löndunum 28, Noregi, Liechtenstein, Sviss og Íslandi, gefa út niðurstöður og koma þeim á framfæri.
ESPON 2020 fær til ráðstöfunar um 49 milljónir evra, ríflega 7 milljarða króna, frá Uppbyggingarsjóði ESB (ERDF, 85%) og þátttökulöndunum (15%). Þessum fjármunum verður að mestu leyti varið til rannsókna á starfstímabilinu, í gegnum samkeppnissjóð með fimm sérstök markmið:
Sérstakt markmið 1: Aukin vinnsla á áreiðanlegum upplýsingum um staðhætti með hagnýtum rannsóknum og greiningum.
Sérstakt markmið 2: Uppfærð þekkingaryfirfærsla og stuðningur við greiningar.
Sérstakt markmið 3: Bætt vöktun á byggðaþróun og áhöld fyrir greiningar á staðháttum.
Sérstakt markmið 4: Víðtækari dreifing og notkun niðurstaðna rannsókna og greininga.
Sérstakt markmið 5: Hraðari, virkari og skilvirkari framkvæmd og vandaðri stuðningur áætlunarinnar.
Þessu síðasta sérstaka markmiði er ætlunin að ná m.a. með starfsháttabreytingum ESPON sem koma fram í stofnun ESPON EGTC (European Grouping of Territorial Cooperation) samkvæmt reglum ESB. Áfram verður háskólum og rannsóknastofnunum í Evrópu gefinn kostur á því að skila tilboðum í vinnslu verkefna sem mótuð eru af ESPON eða af hagshöfum undir ofantalin markmið, stofnunum ríkis og sveitarfélaga eða ráðuneytum, í þátttökulöndunum. Meginregla er að bæði í hópi þeirra sem bjóða í verkefni og þeirra sem móta verkefni til útboðs, sé þátttaka frá þremur löndum eða fleiri. Á síðasta starfstímabili tóku á annað hundrað háskólar og rannsóknastofnanir í Evrópu þátt byggðarannsóknaverkefnum sem boðin voru út af ESPON. Háskólinn á Akureyri hefur verið virkastur íslenskra stofnana í þessum verkefnum.
ESPON EGTC hefur aðsetur í Luxembourg og rekstur þess er á ábyrgð ráðuneytisins fyrir sjálfbæra þróun og innviði.
Með samkomulagi við Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið hefur Byggðastofnun annast þátttöku Íslands í ESPON og tilnefnt fulltrúa í Monitoring Committee þar sem tekur allar meiriháttar ákvarðanir ESPON og vaktar framvindu áætlunarinnar. Öll þátttökulönd ESPON eiga einn fulltrúa í Monitoring Committee.
Síðast uppfært 31.08.2015