Atvinnuþróunarfélög
Í lögum um Byggðastofnun er kveðið á um að stofnunin skipuleggi og vinni að ráðgjöf við atvinnuvegi á landsbyggðinni í samstarfi við atvinnuþróunarfélög, sveitarfélög og aðra. Stofnunin skal gera samninga við atvinnuþróunarfélög, stofnanir, sveitarfélög, sjálfstætt starfandi ráðgjafa eða aðra um að annast atvinnuráðgjöf á tilteknu sviði, atvinnugrein eða landsvæði. Í því skyni hefur Byggðastofnun gert samninga við sjö landshlutasamtök sveitarfélaga sem öll tengjast atvinnuþróunarfélögum þó rekstur þeirra og starfsemi sé mismunandi:
![]() |
![]() |
![]() |
|
![]() |
![]() |
Alþingi ákveður á fjárlögum ákveðið fjármagn til styrktar rekstri atvinnuþróunarfélaga auk þess bætir Byggðastofnun þar við nokkru fjármagni. Byggðastofnun skiptir fjármagninu milli félaganna og greiðir það samkvæmt samningi við hvert félag, þar sem tilgreind eru þau verkefni, sem félagið tekur að sér. Meðal helstu verkefna má nefna atvinnu- og byggðaþróun, sem felur í sér mótun samræmdrar stefnu varðandi atvinnu- og byggðaþróun á starfssvæði félagsins í samvinnu við sveitarfélög, fulltrúa atvinnulífsins og aðra hagsmunaaðila.
Atvinnuþróunarfélögin veita ráðgjöf við stofnun og rekstur fyrirtækja á starfssvæðinu, svo sem markaðssókn, vöruþróun, fjármögnun, kynningu, endurskipulagningu, erlend samskipti o.fl. Áhersla skal að jafnaði lögð á nýstofnuð fyrirtæki, fyrirtæki í nýjum atvinnugreinum og fyrirtæki sem hafa afgerandi áhrif á atvinnulíf lítilla byggðarlaga. Félögin veita upplýsingar um mögulega fyrirgreiðslu og aðstoð annarra aðila og leita samstarfs við stofnanir í stoðkerfi atvinnulífs, fyrirtæki og aðra aðila sem vinna ráðgjafar- og leiðbeiningarstarf í atvinnumálum. Atvinnuþróunarfélögin vinna í samstarfi við sveitarfélög, opinbera aðila og félagasamtök að eflingu búsetuþátta, sem m.a. snúa að samgöngum, verslun og þjónustu, húsnæðismálum, félagslegu umhverfi, menntunar- og menningarmálum.
Byggðastofnun er ráðgefandi fyrir atvinnuþróunarfélögin, einkum í því skyni að ná markmiðum stjórnvalda í byggðamálum og fylgist með starfi þeirra. Stofnunin á fulltrúa eða áheyrnarfulltrúa í flestum stjórnum félaganna og aðstoðar þau við atvinnuþróun og nýsköpun, miðlar upplýsingum, aðstoðar við endurmenntun, samræmingu á starfsemi atvinnuþróunarfélaganna og eflingu samstarfs þeirra á milli. Hún myndar tengsl við aðrar stofnanir sem vinna að atvinnu- og byggðaþróun, skipuleggur samstarfsverkefni og aðstoðar við leit að samstarfsaðilum varðandi sérhæfð mál.