Fara í efni  

Loftslagsstefna Byggðastofnunar

Framtíðarsýn

Byggðastofnun leggur mikla áherslu á umhverfismál í sinni starfsemi og heldur neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi stofnunarinnar í lágmarki. Byggðastofnun tekur mið af skuldbindingum íslenskra stjórnvalda gagnvart markmiðum Parísarsamningsins og Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og tekur þannig þátt í baráttunni við loftslagsbreytingar.

Byggðastofnun tekur þátt í verkefninu Græn skref í ríkisrekstri og tryggir að lagalegum kröfum sem tengjast starfsemi stofnunarinnar vegna umhverfismála sé fylgt.

Yfirmarkmið

Fram til ársins 2030 mun Byggðastofnun draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um samtals 30% miðað við árið 2019. Byggðastofnun stefnir að því að kolefnisjafna þá losun sem eftir stendur frá árinu 2020.

Byggðastofnun mun fyrst og fremst leggja áherslu á að draga úr losun í rekstri en einnig kolefnisjafna alla eftirstandandi losun með t.d. samning um skógrækt hjá viðurkenndum aðila eða kaupum á vottuðum kolefniseiningum frá og með árinu 2021.

Byggðastofnun hefur sett sér umhverfis- og samfélagsstefnu og fjallar hún um hvernig stofnunin hefur sjálfbæra þróun og vernd umhverfisins að leiðarljósi í öllu sínu starfi.

Umfang

Loftslagsstefnan fjallar um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda (GHL). Stefnan tekur til eftirfarandi umhverfisþátta sem unnt er að fylgjast með og mæla hverju sinni:

Samgöngur

  • Losun GHL vegna aksturs starfsmanna á bifreiðum stofnunarinnar eða á bílaleigubílum
  • Losun GHL vegna flugferða starfsmanna innanlands og erlendis

Orkunotkun

  • Rafmagns- og heitavatnsnotkun á skrifstofu Byggðastofnunarinnar

Úrgangur

  • Losun GHL vegna lífræns úrgangs sem fellur til hjá stofnuninni
  • Losun GHL vegna blandaðs úrgangs sem fellur til hjá stofnuninni
  • Heildarmagn sorps sem fellur til hjá stofnuninni
  • Magn útprentaðs pappírs á skrifstofu Byggðastofnunar
  • Hlutfall endurvinnslu sorps sem fellur til hjá stofnuninni

Innkaup

  • Pappírsnotkun og prentþjónusta
  • Ræsti- og hreinsiefni
  • Gildissvið

Stefna þessi sem sett er með vísan til 1. mgr. 5. gr. c. laga nr. 70/2012 um loftslagsmál, tekur til umhverfisáhrifa af innri rekstri Byggðastofnunar og varðar alla starfsmenn stofnunarinnar. Byggðastofnun er með aðalskrifstofu á Sauðárkróki en nokkrir starfsmenn vinna utan hennar hverju sinni og fá þeir aðstoð við að fylgja markmiðum stofnunarinnar.

Eftirfylgni

Byggðastofnun hefur síðan árið 2013 haldið Grænt bókhald þar sem haldið er utan um stærstu umhverfisþætti vegna starfsemi stofnunarinnar. Niðurstöður Græns bókhalds eru notaðar til þess að móta stefnu og aðgerðaráætlun í umhverfis- og loftlagsmálum. Fyrir 1. apríl ár hvert er Grænu bókhaldi skilað í Gagnagátt Umhverfisstofnunarinnar. Rekstrarsvið stofnunarinnar tekur bókhaldið saman. Loftslagsstefnan er rýnd árlega af umhverfisnefnd stofnunarinnar og uppfærð þegar við á og lögð fyrir stjórn Byggðastofnunar til samþykktar. Niðurstöðum Græns bókhalds er miðlað á vef stofnunarinnar og kynntar fyrir starfsfólki í að minnsta árlega. Starfsfólk er hvatt til að fylgja stefnu stofnunarinnar í umhverfismálum og er upplýst um breytingar og nýjungar henni tengdar reglulega.

Samþykkt á fundi stjórnar Byggðastofnunar 19. nóvember 2021

Skráning á póstlista

  • Byggðastofnun  |  Sauðármýri 2  |  550 Sauðárkrókur 
  • Sími 455-5400
  • postur@byggdastofnun.is
  • Opið frá kl. 8:30-12:00 & 13:00-16:00  | kt. 450679-0389