Fara í efni  

Erindisbréf regluvarðar Byggðastofnunar

Byggðastofnun er sérstök stofnun í eigu íslenska ríkisins og gilda um stofnunina lög nr. 106/1999 og reglugerð. nr. 347/2000. Hlutverk Byggðastofnunar er að vinna að eflingu byggðar og atvinnulífs á landsbyggðinni, m.a. með veitingu lána og ábyrgða. Byggðastofnun er fjármálastofnun í skilningi laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002.

Starfsemi Byggðastofnunar skal vera í samræmi við góða viðskiptahætti og heiðarleika aðila á fjármálamarkaði og stofnunin skal haga starfsemi sinni í samræmi við reglur sem gilda um starfsemina hverju sinni. Til þess að stuðla að þessu markmiði hefur Byggðastofnun sett sér verklags- og siðareglur fyrir starfsmenn og stjórn.

Byggðastofnun er útgefandi fjármálagerninga sem til sölu eru á skipulegum fjármálamarkaði. Hjá stofnuninni starfar því regluvörður í samræmi við ákvæði laga. Regluvörður fylgist með að starfsemi stofnunarinnar sé ávallt í samræmi við þau lög og reglur sem um starfsemina gilda, að starfsemin sé í samræmi við verklagsreglur og verkferla, annast samskipti við Fjármálaeftirlit og er starfsmönnum og stjórn til ráðgjafar og fræðslu.

Reglur um viðskipti innherja koma fram í lögum um aðgerðir gegn markaðssvikum nr. 60/2021 sem veitir lagagildi ákvæðum reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 596/2014 (hér eftir sameiginlega nefnt „MAR“), og í reglum nr. 1050/2012 um meðferð innherjaupplýsinga og viðskipti innherja.

Með erindisbréfi þessu og til samræmis við 4. gr. laga nr. 60/2021, staðfestir stjórn Byggðastofnunar ráðningu Hjalta Árnasonar kt. xxxxxx-xxxx sem regluvarðar stofnunarinnar og Súsönnu B. Fróðadóttur, kt. xxxxxx-xxxx, sem staðgengils hans.

Stjórn Byggðastofnunar skal staðfesta starfslok regluvarðar, hvort sem þau verða að eigin ósk regluvarðar eða samkvæmt ákvörðun forstjóra. Regluvörður hefur rétt á því að koma á fund stjórnar þar sem fjallað er um starfslok hans og gera grein fyrir sínum sjónarmiðum án aðkomu forstjóra. Starfslok regluvarðar eða vararegluvarðar skulu alltaf tilkynnt Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands (FME/SÍ) sem og aðalendurskoðanda stofnunarinnar.

1. Sjálfstæði regluvörslu.
Regluvörður skal njóta sjálfstæðis í störfum sínum og heyrir beint undir forstjóra í skipuriti. Regluvörður, með eða án þátttöku forstjóra, skal kynna fyrir stjórn öll tilvik sem falla undir hans verksvið og hann álítur að haft geti alvarlegar afleiðingar fyrir stofnunina.

2. Aðgangur að upplýsingum.
Regluvörður skal hafa aðgang að öllum upplýsingum og gögnum sem hann telur nauðsynlegt til þess að geta sinnt skyldum sínum.

3. Hlutverk og staða regluvarðar.
Regluvörður Byggðastofnunar sinnir starfi sínu innan þess lagaramma sem um stofnunina gildir sem útgefanda fjármálagerninga sem teknir hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði. Í samræmi við þetta skal regluvörður ávallt fylgjast með því að Byggðastofnun fylgi hverju sinni lögum og reglum sem gilda um útgefendur fjármálagerninga sem teknir hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði, sérstaklega hvað varðar upplýsingagjöf stofnunarinnar og meðferð innherjaupplýsinga og viðskipta innherja, auk reglna Byggðastofnunar um regluvörslu.

Komi í ljós að fylgni við reglur sé ábótavant skal regluvörður skal gera athugasemdir, krefjast úrbóta og upplýsa rétta aðila innan stofnunarinnar og/eða opinbera eftirlitsaðila ef þörf krefur.

Regluvörður skal leggja skýrslu um framkvæmd regluvörslu fyrir stjórn Byggðastofnunar eins oft og þurfa þykir, þó eigi sjaldnar en einu sinni á ári.

4. Verkefni regluvörslu.
Regluvörður skal sjá um innherjalista í samræmi við ákvæði reglna Byggðastofnunar um regluvörslu, bæði varðandi fruminnherja og tímabundna innherja. Þá skal regluvörður sjá um að innherjum séu sendar tilkynningar um réttarstöðu sína.

Regluvörður skal sjá um að meðferð innherjaupplýsinga og tilkynningar þeim tengdar séu ávallt í samræmi við ákvæði laga, reglna og starfsreglna.

Regluvörður skal halda samskiptaskrá um samskipti sín við innherja og ákvarðana um innherjaupplýsingar og meðferð þeirra.

Regluvörður skal fræða starfsmenn og stjórn eins og þörf krefur um reglur sem falla undir regluvörslu þannig að starfsmenn og/eða stjórnarmenn geti sinnt sínum störfum inna þess lagaramma sem stofnuninni er settur.

Regluvörður skal vera tengiliður Byggðastofnunar við Kauphöll Íslands, þar með talið að hafa umsjón með tilkynningum til Kauphallarinnar.

Regluvörður er bundinn trúnaði gagnvart starfsmönnum er til hans leita um málefni er heyra undir regluvörslu.

5. Fræðsla og kynning.
Regluvörður skal sjá um kynningu á reglum er falla undir verksvið regluvörslu og sjá til þess að reglurnar séu almennt á vitorði starfsmanna stofnunarinnar og annarra er reglurnar varða. Hann skal sjá til þess að reglur um innherjaupplýsingar séu jafnan aðgengilegar fyrir þá sem þær ná til.

20. janúar 2023
f.h. stjórnar Byggðastofnunar
________________________________________
Magnús B. Jónsson

Skráning á póstlista

  • Byggðastofnun  |  Sauðármýri 2  |  550 Sauðárkrókur 
  • Sími 455-5400
  • postur@byggdastofnun.is
  • Opið frá kl. 8:30-12:00 & 13:00-16:00  | kt. 450679-0389