Fara í efni  

Um Byggðastofnun

Hlutverk

Hlutverk Byggðastofnunar er að efla byggð og atvinnulíf með sérstakri áherslu á jöfnun tækifæra allra landsmanna til atvinnu og búsetu.

Í samræmi við hlutverk sitt undirbýr, skipuleggur og fjármagnar stofnunin verkefni og veitir lán með það að markmiði að treysta byggð, efla atvinnu og stuðla að nýsköpun í atvinnulífi. Fjármögnun verkefna skal eftir föngum vera í samstarfi við aðra.

Stofnunin skipuleggur og vinnur að atvinnuráðgjöf í samstarfi við atvinnuþróunarfélög, sveitarfélög og aðra haghafa.

Byggðastofnun fylgist með þróun byggðar í landinu, m.a. með gagnasöfnun og rannsóknum. Stofnunin getur gert eða látið gera áætlanir um þróun byggðar og atvinnulífs í þeim tilgangi að treysta búsetu og atvinnu í byggðum landsins.

Beinar aðgerðir skv. 2. og 3. mgr. einskorðast við samþykkt stuðningssvæði á gildandi byggðakorti af Íslandi sem Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur samþykkt fyrir tiltekið tímabil.  

Byggðastofnun annast framkvæmd laga um póstþjónustu og hefur eftirlit með póstþjónustu eins og nánar er kveðið á um í lögum um það efni.

Byggðastofnun vinnur að stefnumótandi byggðaáætlun fyrir allt landið í samráði við innviðaráðuneytið. Í áætluninni skal gerð grein fyrir ástandi og horfum í þróun byggðar í landinu og lýsa markmiðum og stefnu ríkisstjórnarinnar í byggðamálum.

Í samræmi við hlutverk stofnunarinnar veitir hún lán eða annan fjárhagslegan stuðning í því skyni meðal annars að bæta aðstöðu til búsetu í einstökum byggðarlögum og koma í veg fyrir að óæskileg byggðaröskun eigi sér stað eða að lífvænlegar byggðir fari í eyði.

Byggðastofnun heyrir undir innviðaráðuneytið og innviðaráðherra skipar sjö manns í stjórn stofnunarinnar til eins árs í senn og sjö til vara.

Sögulegt ágrip

Atvinnubótasjóður var leystur af hólmi með stofnun Atvinnujöfnunarsjóðs með lögum nr. 69/1966.  Þeim sjóði var ætlað að stuðla að jafnvægi í byggð landsins í ríkara mæli og á skipulegri hátt en unnt hafði verið með takmörkuðu ráðstöfunarfé Atvinnubótasjóðs.  Hinum nýja Atvinnujöfnunarsjóði voru með lögunum tryggðir frekari gjaldstofnar og sú stefna mörkuð að efling atvinnulífs víðs vegar um landið færi fyrst og fremst fram á grundvelli fyrirframgerðra áætlana.  Stjórn sjóðsins var kjörin hlutfallskosningu af Alþingi sem fyrr, en stjórnarmönnum fjölgað í sjö, þar eð eðlilegt þótti með hliðsjón af verkefnum sjóðsins að allir þingflokkar ættu þar sinn fulltrúa.  Báðir voru þessir sjóðir vistaðir hjá öðrum fjármálastofnunum.  Atvinnubótasjóður var í umsjá Framkvæmdabanka Íslands, en Atvinnujöfnunarsjóður í umsjá Landsbanka Íslands, enda var Framkvæmdabankinn lagður niður um líkt leyti og lögin um sjóðinn voru sett.

Með lögum nr. 93/1971 var Framkvæmdastofnun ríkisins komið á fót.  Samkvæmt 1. gr. laganna var hún sjálfstæð ríkisstofnun sem var ríkisstjórninni til aðstoðar við stefnumótun í atvinnu- og efnahagsmálum.  Skyldi stofnunin annast hagrannsóknir og áætlanagerð og hafa með höndum heildarstjórn fjárfestingamála og lánveitinga sem kveðið var á um í lögunum.  Með lögum nr. 93/1971 var að því stefnt að koma opinberum aðgerðum í atvinnulífinu í skipulegri farveg með því að sameina undir einni stjórn stofnanir og sjóði, sem áður höfðu unnið að þessum málum sitt í hvoru lagi.  Meðal annars var í lögunum kveðið á um stofnun Byggðasjóðs, sem yrði í umsjá Framkvæmdastofnunar og tæki við eignum og skuldum Atvinnujöfnunarsjóðs.  Voru hinum nýja sjóði tryggðir umtalsverðir nýir tekjustofnar umfram það sem verið hafði um Atvinnujöfnunarsjóð.  Yfirstjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins var í höndum sjö manna þingkjörinnar stjórnar, en 3ja manna framkvæmaráð, skipað af ríkisstjórninni, hafði með höndum tillögugerð um heildaráætlun Byggðasjóðs og einstaka lánveitingar honum.  Dagleg umsýsla var í höndum lánadeildar stofnunarinnar.

Hlutverk Byggðasjóðs var samkvæmt lögunum að stuðla að jafnvægi í byggð landsins með því að veita fjárhagslegan stuðning til framkvæmda og eflingar atvinnulífs með hliðsjón af landshlutaáætlunum, og til að bæta aðstöðu til búsetu í einstökum byggðarlögum og koma í veg fyrir að lífvænlegar byggðir færu í eyði.

Með lögum nr. 64/1985 var Byggðastofnun komið á fót sem sjálfstæðri ríkisstofnun er heyrði undir forsætisráðherra og tók yfir eignir og skuldbindingar Byggðasjóðs.  Var sú aðgerð hluti af víðtækri uppstokkun á sjóðakerfi ríkisins.  Líkt og var um Framkvæmdastofnun áður kaus sameinað Alþingi sjö manna stjórn Byggðastofnunar. 

Samkvæmt 2. gr. laganna var hlutverk Byggðastofnunar að stuðla að þjóðfélagslega hagkvæmri þróun byggðar í landinu.  Þetta skyldi stofnunin gera með því að fylgjast með þróun byggðar í landinu, með áætlanagerð um byggða- og atvinnuþróun, og með því að veita lán eða annan fjárhagslegan stuðning í því skyni m.a. að bæta aðstöðu til búsetu í einstökum byggðarlögum og koma í veg fyrir óæskilega byggðaröskun. 

Með lögum nr. 106/1999 var breytt ýmsum þáttum í starfsemi Byggðastofnunar.  Með þeim lögum var Byggðastofnun flutt undir valdsvið iðnaðarráðherra og síðar atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra en samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra frá ársbyrjun 2017. Í stað þingkjörinnar stjórnar þá er hún nú skipuð af ráðherra.  Samhliða voru ráðherra fengnar auknar heimildir til að hafa áhrif á starf stofnunarinnar.  Þá var í lögunum lögð meiri áhersla en áður á rannsóknarhlutverk Byggðastofnunar á sviði byggða- og atvinnuþróunar.

Í upphafi var öll starfsemi Byggðastofnunar í Reykjavík.  Opnaðar voru svæðisskrifstofur á Ísafirði, Sauðárkróki, Akureyri og Egilsstöðum á árunum 1989-1995.  Árið 1998 voru svæðisskrifstofurnar lagðar niður og Þróunarsvið stofnunarinnar flutt til Sauðárkróks.

1. júlí 1998 tók Þróunarsviðið til starfa á Sauðárkróki og hófst þar með flutningur starfseminnar til Sauðárkróks.  Þróunarsvið var til húsa að Skagfirðingabraut 17-21, þar sem núna er ráðhús Skagafjarðar.  Árið 2000 var ákveðið að öll önnur starfsemi Byggðastofnunar skyldi flutt til Sauðárkróks.  Í júlí 2001 var síðan stofnunin flutt.  Í upphafi var aðeins lánastarfsemin til húsa í Ártorg 1, en síðan um vorið 2002 var öll starfsemin þar til húsa.

Árið 2020 flutti stofnunin í eigið húsnæði að Sauðármýri 2 á Sauðárkróki.  Ákvörðunin um að hefja undirbúning að byggingu skrifstofuhúsnæðis fyrir Byggðastofnun var tekin á fundi stjórnar í október árið 2014.  Fengin var lóð að Sauðármýri 2 og var eftir útboð árið 2017 samið við arkitektastofuna Úti og inni sf. og VSB verkfræðistofu ehf. um hönnun byggingarinnar.  Arkitektar hússins eru Baldur Ó Svavarsson og Jón Þór Þorvaldsson.  Friðrik Jónsson ehf. bauð síðan lægst í byggingu hússins og var fyrsta skólflustungan tekin af Sigurði Inga Jóhannessyni samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra 16. nóvember 2018.   Þann 10. júlí 2020 var flutt inn.  

Árið 2021 var eftirlit með póstmálum flutt frá Póst- og fjarskiptastofnun til Byggðastofnunar.

Forstjórar Byggðastofnunar frá upphafi

  • Guðmundur Malmquist 1985-2001
  • Theodór A. Bjarnason 2001-2002
  • Aðalsteinn E. Þorsteinsson 2002-2022
  • Arnar Már Elíasson 2022-

Skráning á póstlista

  • Byggðastofnun  |  Sauðármýri 2  |  550 Sauðárkrókur 
  • Sími 455-5400
  • postur@byggdastofnun.is
  • Opið frá kl. 8:30-12:00 & 13:00-16:00  | kt. 450679-0389