Fréttir
Eyrarrósina 2025 hlýtur Sköpunarmiðstöðin á Stöðvarfirði
Eyrarrósin er viðurkenning sem veitt er fyrir framúrskarandi menningarverkefni utan höfuðborgarsvæðisins og voru verðlaunin afhent í nítjánda sinn, fimmtudaginn 15. maí, við hátíðlega athöfn í Alþýðuhúsinu á Siglufirði. Hr. Björn Skúlason maki forseta og verndari Eyrarrósarinnar veitti verðlaunin. Alls bárust 34 umsóknir um Eyrarrósina og hvatningarverðlaunin hvaðanæva af landinu.
Sköpunarmiðstöðin á Stöðvarfirði hlýtur Eyrarrósina 2025 og skipar sér í hóp framúrskarandi verkefna sem hlotið hafa verðlaunin á síðustu 20 árum. Una B. Sigurðardóttir, stjórnarmaður og fyrrum framkvæmdastjóri Sköpunarmiðstöðvarinnar tók á móti viðurkenningunni og verðlaunafé að upphæð kr. 2.500.000. Nýjum Eyrarrósarhafa er jafnframt boðið að standa að viðburði á Listahátíð 2026 og framleitt verður heimildamyndband um verkefnið.
Hvatningarverðlaun Eyrarrósarinnar voru einnig veitt í þriðja sinn á athöfninni. Viðurkenningin var veitt þremur metnaðarfullum verkefnum sem þykja hafa listrænan slagkraft, jákvæð áhrif á nærsamfélagið og alla burði til að festa sig í sessi. Hvatningarverðlaun Eyrarrósarinnar 2025 hlutu Gletta á Borgarfirði Eystri, Afhverju Ekki á Laugum, Þingeyjarsveit og Tankarnir á Raufarhöfn. Hljóta þau hvert um sig verðlaunafé að upphæð kr. 750.000 auk gjafakorts frá Icelandair að upphæð kr. 100.000.
Eyrarrósin er samstarfsverkefni Listahátíðar í Reykjavík, Byggðastofnunar og Icelandair.
Handhafi Eyrarrósarinnar 2025: Sköpunarmiðstöðin á Stöðvarfirði
Sköpunarmiðstöðin á Stöðvarfirði er menningarsetur og vettvangur fyrir fjölbreyttar lista-, menningar- og nýsköpunarstarfsemi sem staðsett er í fyrrum frystihúsi. Í miðstöðinni eru rúmgóðar vinnustofur, smíðaverkstæði, keramíkstúdíó, fjölnota aðstaða með steindavinnslu og viðburðarrými. Hefur þessi góða aðstaða laðað til sín listafólk úr ýmsum greinum bæði innlent og erlent. Listafólkið fær tíma og rými til að þróa hugmyndir og vinna að list sinni, kynna hugmyndir og halda sýningar. Alþjóðlegt listafólk tengir Stöðvarfjörð við alþjóðasamfélagið og alþjóðlegt listalíf á einstakan hátt. Miðstöðin skipuleggur reglulega menningarviðburði og fjölbreytt námskeið af ýmsu tagi í samstarfi við sveitarfélagið Fjarðabyggð. Með þessu er stuðlað að góðu aðgengi að tónlist, leiklist og myndlist á staðnum. Gott dæmi er verkefnið Upptakturinn á Austurlandi sem er gjaldfrjáls tónsmiðja fyrir ungmenni sem fá faglega reynslu af upptöku og þróun laga og tónlistar.
Þegar frystihúsið, stærsti vinnuveitandi Stöðvarfjarðar, hætti starfsemi um aldamótin, var framtíð hússins óviss. Þá tók sig saman hópur fólks og vann sjálfboðaliðastarf til að umbreyta húsinu í lifandi menningar- og samfélagsmiðstöð – sannkallað kraftaverk. Sköpunarmiðstöðin er hjarta samfélagsins og hefur skapað sameiningarstað í brothættri byggð og styrkt samfélagið með sjálfbærri starfsemi sem skilar ómetanlegu gildi til svæðisins. Sem skapandi klasi hýsir hún sjálfstæðar einingar eins og Studio Silo, Kvörn og Steinasafnsverkstæðið, auk þess að skapa umhverfi þar sem ný verkefni og fyrirtæki geta dafnað. Í samstarfi við nærsamfélagið og Fjarðabyggð hefur miðstöðin þannig stutt við nýsköpun og atvinnuþróun í skapandi greinum. Sköpunarmiðstöðin er því mikilvægur drifkraftur í menningar- og samfélagsþróun Austurlands.
Hvatningarverðlaun 2025:
Afhverju Ekki
Afhverju Ekki, einnig nefnt „The Absolutely Everything Studio“, er þverfaglegt vinnustofu-rannsóknarsetur sem stofnað var árið 2024. Verkefnið er leitt af Dr. Jack Armitage fræði- og listamanni. Afhverju Ekki stuðlar að samvinnu og samstarfi með það að marki að finna lausnir á flóknum vistfræðilegum viðfangsefnum. Setrið er staðsett í Breiðanesi, á Laugum í Þingeyjarsveit. Þegar hefur verið tekið á móti sex fræði- og listamönnum sem komið hafa til vinnudvalar og unnið að hönnun, hugbúnaðarþróun og listsköpun, meðal annars fyrir sýningu Íslands á Feneyjartvíæringnum í arkitektúr.
Starfrækt er keramíkverkstæði sem hefur reynst mikilvægt bæði þegar kemur að námi og listsköpun, sérstaklega fyrir íbúa svæðisins. Á staðnum er einnig fablab, wetlab og vinnurými. Aðstaða þeirra aðila sem þarna dvelja er því til fyrirmyndar. Til framtíðar er stefnt að því að starfrækja verslun með listmuni, taka upp hlaðvörp og standa fyrir ýmiskonar viðburðahaldi.
Gletta
Gletta er sýningarrými á Borgarfirði Eystri sem starfrækt hefur verið á hverju sumri í tvo til þrjá mánuði undanfarin fimm ár. Frá opnun hafa 37 myndlistarmenn, innlendir og erlendir tekið þátt í einka- og samsýningum í Glettu og nú í sumar bætast 5 við í hópinn. Gletta leggur áherslu á samtímalist og gefur þannig íbúum svæðisins sem og gestum tækifæri til þess að kynnast fjölbreyttri samtímamyndlist. Rýmið er innspýting í menningarflóruna á svæðinu og nær að virkja listafólk og listunnendur til aukinnar frumsköpunar og þekkingar á myndlist.
Gletta er staðsett í Hafnarhúsinu á Borgarfirði og hvert sumar streymir þangað fjöldinn allur af fólki. Til að styrkja tengsl við nærsamfélagið hefur Gletta staðið fyrir listasmiðju fyrir börn í samstarfi við BRAS - menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi og er stefnt að því að halda fleiri slíkar í náinni framtíð ásamt því að kanna fískileika þess að útbúa vinnuastöðu þar sem listafólk getur komið til starfa til lengri og skemmri tíma. Gletta eykur aðgengi að samtímalist og myndlist á Austurlandi svo um munar.
Tankarnir á Raufarhöfn
Lýsistankarnir á Raufarhöfn stóðu tómir frá 2006 en hafa nú, að ósk íbúa, fengið nýtt hlutverk og eru nú listatankar. Þetta eru stærstu tankar landsins, hljómburðurinn er fagur og trévirki í þakinu mikil prýði. Tankarnir fengu styrk úr Byggðaáætlun til að vinna að endurbótum og eru nú manngengir, rafvæddir og upp að þeim liggur nýlagður malarstígur.
Unnin hafa verið drög að listastefnu fyrir tankana og verið er að móta verkefnaskrá fyrir næstu þrjú sumur. Verkefnið er til þess fallið að styðja við listsköpun á svæðinu og fá listafólk til samstarfs annars staðar frá og draga að sér gesti. Ávinningur verkefnisins er hvort tveggja í senn samfélagslegur og menningarlegur fyrir brothætta jaðarbyggð sem Raufarhöfn er. Tankarnir eru metnaðarfullt verkefni sem kemur beint frá litlu samfélagi í breytingum, samfélagi sem vill endurskapa sig og mun með þessu ná nýrri tengingu við eigin bæ og sögu en einnig tengingu við listafólk og listunnendur víða að.
Meðfylgjandi eru myndir sem Hjalti Árnason tók við athöfnina.
Fréttasafn
- 2025
- janúar febrúar mars apríl maí
- 2024
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2023
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2022
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2021
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2020
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2019
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2018
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2017
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2016
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2015
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2014
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2013
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2012
- janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
- 2011
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2010
- janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
- 2009
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2008
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2007
- mars maí júní júlí ágúst september október nóvember
- 2006
- janúar febrúar mars maí júní ágúst september
- 2005
- janúar febrúar mars júní október nóvember desember
- 2004
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október
- 2003
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí september október nóvember desember