Fara í efni  

Fréttir

„Blómleg byggð um land allt er framtíðarsýn Byggðastofnunar og byggir á trausti, fagmennsku og framsækni” segir Magnús B. Jónsson fráfarandi stjórnarformaður Byggðastofnunar

„Blómleg byggð um land allt er framtíðarsýn Byggðastofnunar og byggir á trausti, fagmennsku og framsækni” segir Magnús B. Jónsson fráfarandi stjórnarformaður Byggðastofnunar
Magnús B. Jónsson á Ársfundi Byggðastofnunar 2023

Magnús B. Jónsson lauk nýverið starfi sem stjórnarformaður Byggðastofnunar eftir fjögurra ára stjórnarsetu. „Mér finnst Byggðastofnun vera í góðum málum, bæði vegna þess mannauðs sem þar hefur byggst upp og er meginverðmæti hverrar starfsemi og vegna þess hve efnahagur hennar stendur vel. Stofnunin á að mínu mati góða möguleika á að vaxa og dafna með þessar tvær undirstöður sem grunneiningar.”

Magnús segir þessi fjögur ár hafa verið mjög fróðleg, ánægjuleg en einnig krefjandi, ekki síst vegna þeirrar röskunar sem Covid19 faraldurinn hafði á alla innviði þjóðarinnar. „Ég held þó að það sé varasamt að halda því fram að allt sé orðið eins og það var fyrir áhlaup heimsfaraldurs því svo er aldrei, enda sækjumst við ekki eftir því að allt sé alltaf eins. Við viljum breytingar og framþróun, sækjumst eftir nýjum lausnum, nýrri þekkingu og aukinni reynslu sem geti fleytt okkur áfram, bætt hagvöxt og lífsgæði og styrkt undirstöður samfélagsins.”

Byggðafesta og búferlaflutningar

Magnús segir byggðaþróun vera vítt hugtak en almennt sé það skilið sem viðleitni til að draga úr svæðisbundnu misræmi með því að styðja við innviði, atvinnustarfsemi og mannlíf í landsbyggðunum og jafna þannig búsetuskilyrði á þeim svæðum sem standa á veikari grunni.

„Byggðafesta er einnig notað um það hversu vel byggð heldur sér, eða kannski öllu fremur um hve stór hluti íbúa heldur búsetu á sama stað til langframa og má því segja að sé andhverfa hugtaksins búferlaflutningar” segir Magnús og heldur áfram „Líf hvers og eins markast með margvíslegum hætti af búsetu, samfélagi og umhverfi. Þessi atriði hafa með beinum og óbeinum hætti áhrif á dagleg samskipti hvers og eins við fjölskyldur, vini og aðra í nærsamfélaginu. Það að velja sér búsetu eða vera sáttur við búsetu í sinni heimabyggð skiptir höfuðmáli fyri hvern og einn. Búsetuvalið hefur áhrif, ekki bara á hvern einstakling og hverja fjölskyldu heldur á öll samfélög manna.”

Magnús segir nýútkomna bók, Byggðafesta og búferlaflutningar á Íslandi, sem ritstýrð var af Þóroddi Bjarnasyni prófessor og fyrrum stjórnarformanni Byggðastofnunar, gefa afar góða yfirsýn yfir langtímaþróun byggðarlaga og landssvæða og einnig leggja mat á framtíðarhorfur í búferlaflutningum og byggðaþróun.

Fólksflótti er niðrandi talsmáti

Í umræðu um byggðamál er oft rætt um búferlaflutninga sem félagslegt vandamál sem sporna þurfi gegn með öllum ráðum, gildi það jafnt um flutninga úr stjálbýli í þéttbýli og flutninga frá Íslandi til annarra landa. „Það má ekki gleymast að í yfirgnæfandi tilfella er samt um frjálst val fólks að ræða þar sem viðkomandi velur sér nýja búsetu á mismunandi forsendum og er þannig hluti af því nútíma samfélagi sem við viljum öll að einkennist af frjálsum vilja. Að tala um fólksflótta á því ekki við og er í raun niðrandi talsmáti bæði um þá sem flytja og þau samfélög sem flutt er úr. Það geta allt eins verið togkraftar annarra samfélaga eða þjóðfélaga sem valda búferlaflutningum frekar en að lífið hafi verið óbærilegt í fyrra byggðarlagi” segir Magnús en bætir við að langvarandi fólksfækkun geti grafið undan margvíslegri þjónustu og því samfélagi sem fyrir því verður og eftir því sem þjónustustig byggðarlaga er lægra aukast líkur á brottflutningi og getur þá hleypt af stað keðjuverkun.

Lán frá Byggðastofnun skipta sköpum fyrir dreifðar byggðir

„Byggðastofnun hefur það hlutverk að vera greinandi og til stuðnings í almennri byggðaþróun en er einnig að hluta til lánastofnun. Það hlutverk er í raun ekki síður mikilvægt því atvinnulíf í ákveðnum landsbyggðum hefur takmarkaðan aðgang að lánsfé vegna tregðu og áhættufælni annarra lánastofnana. Lán frá Byggðastofnun getur því oft skipt sköpum um hvort ákveðin starfsemi geti vaxið í hinum dreifðu byggðum. Byggðastofnun hefur getað boðið lán með lægri veðkröfu fyrir ákveðin verkefni á byggðalega viðkvæmum svæðum sem hefur þannig opnað möguleika fyrir ákveðna vaxtasprota.” segir Magnús og bendir á að lánastarfsemin sé auk þess mjög mikilvæg fyrir rekstur Byggðastofnunar því hún standi undir hluta af kostnaði hennar og geri þannig kleift að sinna fjölmörgum verkefnum sem þar séu unnin.

Fögnum fjölmenningu

Í lokaávarpi Magnúsar á ársfundi Byggðastofnunar á Húsavík í vor, sagðist hann kveðja Byggðastofnun með þakklæti efst í huga. „Ég hef mikla trú á að fagmennska, traust og framsækni eigi eftir að skila sér til eflingar landsbyggðunum og í  ljósi sívaxandi fjölmenningar í íslenskum byggðum er full ástæða til að gefa ekki síður gaum að áhuga, vilja og aðstöðu innflytjenda enda má á næstu árum gera ráð fyrir vaxandi áskorunum í byggðalegu og öðru samfélagslegu tilliti, vegna íbúa af ólíku þjóðerni með mismunandi menningu og lífsviðhorf.“


Til baka

Fréttasafn

2024
janúar febrúar mars apríl
2023
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2022
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2021
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2020
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2019
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2018
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2017
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2016
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2015
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2014
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2013
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2012
janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
2011
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2010
janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
2009
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2008
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2007
mars maí júní júlí ágúst september október nóvember
2006
janúar febrúar mars maí júní ágúst september
2005
janúar febrúar mars júní október nóvember desember
2004
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október
2003
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí september október nóvember desember

Skráning á póstlista

  • Byggðastofnun  |  Sauðármýri 2  |  550 Sauðárkrókur 
  • Sími 455-5400
  • postur@byggdastofnun.is
  • Opið frá kl. 8:30-12:00 & 13:00-16:00  | kt. 450679-0389