Fara í efni  

Fréttir

Dala Auður; stóra verkefnið í Dalabyggð er að bæta innviði

Dala Auður; stóra verkefnið í Dalabyggð er að bæta innviði
Frá íbúaþingi í Dalabyggð

Til að Dalabyggð geti tekið fagnandi á móti framtíðinni er nauðsynlegt að auka fjölbreytni atvinnutækifæra og efla það sem fyrir er. Forsendur þessa eru bættir innviðir; vegir, fjarskipti, þriggja fasa rafmagn og aukið framboð íbúðar- og atvinnuhúsnæðis.Þetta voru meginskilaboð kraftmikils íbúaþings sem haldið var helgina 26. – 27. mars, þar sem um 50 heimamenn og „hálfbúar“ ræddu um stöðu og tækifæri Dalabyggðar. Þingið markaði upphaf að þátttöku Dalamanna í verkefninu „Brothættar byggðir“, sem er verklag þróað af Byggðastofnun.

Sterkara þéttbýli og dreifbýli

Íbúar eru spenntir fyrir byggingu íþróttahúss og sundlaugar í Búðardal, sem unnið er að. Einnig er kallað eftir stað í þorpinu fyrir félagsstarf og minni viðburði. Væntanlega mun staða Búðardals  sem þjónustukjarna svæðisins því verða sterkari á næstu árum. Staða dreifbýlisins þarf líka að styrkjast, að mati þátttakenda. Standa þarf vörð um og efla mjólkurframleiðslu og almennt að stefna að frekari úrvinnslu afurða. Mikil tækifæri eru í skógrækt, allt frá nytjaskógum til yndisskóga og einnig felur nálægðin við Breiðafjörð í sér ýmsa möguleika.

Margskonar fleiri hugmyndir um atvinnumál og nýsköpun komu til umræðu, svo sem ferðaþjónusta, matvælaframleiðsla, opinber störf og  óstaðbundin störf. Lagt var til að hafa sjálfbærni að leiðarljósi í allri atvinnuuppbyggingu, búa til sérstakt auðkenni Dalabyggðar fyrir vörur og þjónustu og huga að umhverfisvottun. Hvatt var til þess að nýta jarðvarma betur og að hugmyndir um orkumál verði unnar í sátt við samfélagið.

Í umræðu um skipulagsmál og fjallskil kom m.a. fram hugmynd um svæðisbundið þjónustuver skipulagsmála t.d. á vegum SSV. Einnig var bent á að marka þurfi stefnu um beitarmál búfjár, sem væri samvinnuverkefni landeigenda, sauðfjárbænda, Vegagerðar og stjórnvalda.

Barnvænt samfélag og líflegt félagslíf

Skólamál eru mikilvægur þáttur í undirbúningi fyrir framtíðina og vilja nemendur fá að vera með í ákvarðanatöku, en skilaboð þeirra um skólamál og sitthvað fleira, komu skýrt fram á þinginu. Áhugi er á að draga fram og styrkja enn frekar kosti Dalabyggðar sem barnvæns samfélags, skipuleggja móttöku nýbúa og virkja „hálfbúa“. Fjölmargar hugmyndir komu fram um að efla félagslíf, virkja þau félög sem þegar eru starfandi og búa líka til ný, t.d. „Skemmtilega klúbbinn“. Kallað var eftir fleiri og betri göngu- og hjólastígum innan þéttbýlis og gönguleiðum í dreifbýlinu sem og góðum reiðleiðum, sem víðast.

Saga, menning og listir

Ríkuleg saga Dalabyggðar er ein af merkustu auðlindum svæðisins og var stungið upp á að kortleggja gönguleiðir og tengja sögunni, t.d. í gegnum app. Rætt var um mögulega staðsetningu Byggðasafns Dalamanna, byggðahátíðir, meiri nýtingu Vínlandsseturs og félagsheimila og tækifæri tengd tónlist, myndlist og handverki.

Silfurtún og Laugar

Á þinginu kom fram sú framtíðarsýn að efla heima- og stoðþjónustu fyrir eldri borgara og fjölga íbúðum fyrir þennan aldurshóp. Töluverð umræða varð um dvalar- og hjúkrunarheimilið Silfurtún í Búðardal, allt frá því að fjölga rýmum og byggja samkomusal, til þess að selja það og byggja nýtt.

Einnig voru ræddar ýmsar hugmyndir um nýtingu á Laugum í Sælingsdal, sem eru að mestu í eigu sveitarfélagsins, eins og að setja þar upp dvalar- og hjúkrunarheimili, íbúðir og e.t.v. markaðssetja þar sumarhúsabyggð.

Breyttir tímar

Dalabyggð er dæmi um blómlega byggð sem hefur átt undir högg að sækja m.a. vegna breyttra atvinnuhátta. Aðstæður í nútímasamfélagi kalla á að Dalamenn taki höndum saman og skapi meiri fjölbreytni og fleiri eftirsóknarverð tækifæri í byggðarlaginu. Staðan kallar á sameiningu sveitarfélaga og kom fram að Dalabyggð verði að taka þátt í þeirri þróun. Nokkrir sameiningarkostir voru ræddir á þinginu og sagt „Gera Dalabyggð eftirsóknarverða“.

Verkefnið sem framundan er, fékk nafnið Dala Auður, á þinginu. Að því standa, auk Byggðastofnunar, Dalabyggð, Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi, ásamt mikilvægustu þátttakendunum, íbúunum sjálfum. Verkefnisstjórn er skipuð fulltrúum þessara aðila og nýráðinn verkefnisstjóri, Linda Guðmundsdóttir, flytur í Dalina og tekur til starfa í sumar.

Virk þátttaka íbúa er einn af hornsteinum verkefnisins „Brothættar byggðir“ og mun verkefnisáætlun til allt að fjögurra ára, byggja á skilaboðum þingsins, en því stýrði Sigurborg Kr. Hannesdóttir hjá ILDI.

Myndir: Kristján Þ. Halldórsson.


Til baka

Fréttasafn

2024
janúar febrúar mars apríl
2023
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2022
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2021
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2020
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2019
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2018
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2017
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2016
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2015
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2014
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2013
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2012
janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
2011
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2010
janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
2009
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2008
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2007
mars maí júní júlí ágúst september október nóvember
2006
janúar febrúar mars maí júní ágúst september
2005
janúar febrúar mars júní október nóvember desember
2004
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október
2003
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí september október nóvember desember

Skráning á póstlista

  • Byggðastofnun  |  Sauðármýri 2  |  550 Sauðárkrókur 
  • Sími 455-5400
  • postur@byggdastofnun.is
  • Opið frá kl. 8:30-12:00 & 13:00-16:00  | kt. 450679-0389