Fara í efni  

Fréttir

Eftirlit með póstþjónustu fært til Byggðastofnunar

Alþingi samþykkti á dögunum stjórnarfrumvarp Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, um heildarlög um Fjarskiptastofu, sem taka mun við hlutverki Póst- og fjarskiptastofnunar og flestum verkefnum hennar. Tilgangurinn er að endurmóta stofnun á sviði fjarskipta sem mætir þörfum og kröfum samtímans þar sem fjórða iðnbyltingin, gervigreind og uppbygging innviða í fjarskiptum er í forgrunni. Til að endurspegla betur verkefni stofnunarinnar fær hún nýtt nafn, Fjarskiptastofa.

Alþingi samþykkti einnig breytingar á lögum til að færa eftirlit með póstþjónustu til Byggðastofnunar með það að markmiði að tryggja skilvirka þjónustu um allt land. Byggðastofnun tekur formlega við málaflokknum 1. nóvember nk.

„Stofnanir hins opinbera verða að endurspegla þarfir samfélagsins á hverjum tíma. Það er tímabært að efla starfsemi stofnunar á sviði fjarskipta til að mæta gríðarlega hröðum umskiptum í heimi fjarskipta og upplýsingatækni. Þetta ætlum við að gera á grunni þess öfluga starfs sem unnið hefur verið í Póst- og fjarskiptastofnun,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. 

„Við teljum einnig mikilvægt að efla stuðning við póstmálin við breyttar aðstæður. Mikil tækifæri felast í því að færa verkefnin til Byggðastofnunar en þannig má tryggja skilvirka framkvæmd og stefnumótun á sviði póstmála og samhæfa við byggðasjónarmið. Til lengri tíma felur breytingin sömuleiðis í sér tækifæri til að dreifa opinberum störfum um landið,“ segir Sigurður Ingi.

Áhersla á fjarskipti og netöryggi

Miklar breytingar hafa orðið á verkefnum og starfsumhverfi Póst- og fjarskiptastofnunar en lög um stofnunina voru frá árinu 2003. Á síðustu misserum hafa orðið töluverðar breytingar á löggjöf tengdri fjarskiptum, lénamálum, netöryggi og póstmálum. Ný lög um net- og upplýsingakerfi mikilvægra innviða tóku gildi 1. september 2020 og ný póstlög gengu í gildi 1. janúar sama ár. Ný lög um íslensk landshöfuð lén voru samþykkt 18. maí sl. og hafa þegar tekið gildi. Þá var frumvarp til heildarendurskoðunar fjarskiptalaga lagt fram á Alþingi í vetur en náði ekki fram að ganga fyrir þinglok. Frumvarpið verður lagt fram aftur í haust.

Með nýjum heildarlögum um Fjarskiptastofu mun endurmótuð stofnun um fjarskipti hafa eftirlit með og fylgja eftir lögum um fjarskipti og netöryggi. Stofnunin fær það hlutverk að efla netöryggi, gæta að persónuvernd og loks að stuðla að samkeppni við uppbyggingu fjarskiptainnviða, en gæta jafnframt að hagkvæmnissjónarmiðum.

Fjarskiptastofu er ætlað að fylgjast grannt með tækniþróun á alþjóðavísu, taka þátt í alþjóðasamstarfi og þeim öru samfélagsbreytingum sem nú eiga sér stað með fjórðu iðnbyltingunni. Sömuleiðis skal hún gæta að byggðasjónarmiðum og umhverfismálum í starfsemi sinni.

Meginmarkmiðið er að stuðla að því að Fjarskiptastofa mæti væntingum og þörfum samfélagsins í heimi fjarskipta og netöryggis, með því að gera stofnuninni kleift að styrkja þá þætti stofnunarinnar er snúa að tæknilegum verkefnum, en á næstu árum munu verkefni stofnunarinnar á sviði netöryggismála aukast til muna. 

Póstþjónusta á tímamótum

Við greiningu á verkefnum Póst- og fjarskiptastofnunar og í ljósi stórtækra breytinga í samfélaginu síðustu áratugi var ákveðið að flytja eftirlit með póstmálum til Byggðastofnunar. Megintilgangurinn er að stuðla að skilvirkri og áreiðanlegri póstþjónustu um land allt. Póstþjónusta gegnir enn mikilvægu hlutverki, ekki síst fyrir atvinnulíf og í vefverslun.

Byggðastofnun gefst tækifæri til að móta stjórnsýslu póstþjónustu í takt við ný lög um póstþjónustu sem tóku í upphafi árs 2020. Sem fyrr segir mun Byggðastofnun taka við málaflokknum 1. nóvember nk.

Í greinargerð með lagafrumvarpinu segir að eitt af hlutverkum ráðuneytisins og Byggðastofnunar vegna tilfærslunnar verði að vinna að því að skoða tækifæri til einföldunar á lagaumhverfi póstmála, þ.m.t. að skoða fýsileika þess að færa þann hluta póstmála sem varðar samkeppniseftirlit til Samkeppniseftirlitsins

Störfum verður ekki fækkað vegna þessar breytingar. Tilfærsla verkefna verður unnin í náinni samvinnu stofnananna tveggja til að tryggja samfellu í þjónustu og varðveita þekkingu í málaflokknum.

Fréttin er fengin af vef Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins


Til baka

Fréttasafn

2024
janúar febrúar mars apríl
2023
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2022
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2021
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2020
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2019
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2018
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2017
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2016
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2015
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2014
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2013
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2012
janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
2011
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2010
janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
2009
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2008
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2007
mars maí júní júlí ágúst september október nóvember
2006
janúar febrúar mars maí júní ágúst september
2005
janúar febrúar mars júní október nóvember desember
2004
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október
2003
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí september október nóvember desember

Skráning á póstlista

  • Byggðastofnun  |  Sauðármýri 2  |  550 Sauðárkrókur 
  • Sími 455-5400
  • postur@byggdastofnun.is
  • Opið frá kl. 8:30-12:00 & 13:00-16:00  | kt. 450679-0389