Fréttir
Hlutafjárkaup Byggðastofnunar átak í nýsköpun
Byggðastofnun hefur verið úthlutað 350 m.kr. til kaupa á hlutafé í fyrirtækjum á landsbyggðinni. Megináhersla er lögð á kaup í sprotafyrirtækjum og fyrirtækjum í skýrum vexti með áherslu á nýsköpun. Er verkefnið liður í átaki ríkisstjórnarinnar um atvinnuþróun á landsbyggðinni.
Skipting milli atvinnugreina
Byggðastofnun mun fjárfesta í nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum í höfuðatvinnugreinunum, þ.e. sjávarútvegi, landbúnaði, iðnaði og ferðaþjónustu, ásamt tengdum greinum. Tekið verður á móti umsóknum frá og með 1. maí 2003 til 31. ágúst 2003 eftir því sem hér segir:
Sjávarútvegur og tengdar greinar 1. maí til 30. júní 2003
Iðnaður, landbúnaður, líftækni, upplýsingatækni og tengdar greinar 1. júní til 31. júlí 2003
Ferðaþjónusta og tengdar greinar 1. júlí til 31. ágúst 2003
Berist umsókn eftir að umsóknarfrestur er liðinn er henni vísað frá.
Reglur um kaup í einstökum félögum
Byggðastofnun mun að hámarki verja 50 m.kr. til kaupa á hlutafé í einstöku félagi. Eignarhlutur Byggðastofnunar má ekki verða meiri en 30% af heildarhlutafé í félaginu. Heildarfjármögnun verkefnisins verður sömuleiðis að vera tryggð. Kaupgengi er ákvarðað með verðmati á fyrirtækinu. Nauðsynlegt er að umsókn fylgi verðmat eigenda á félaginu ásamt forsendum verðmatsins.
Ákvörðun um kaup á hlutafé
Sérfræðingar Byggðastofnunar munu meta umsóknir og gera tillögur í einstökum málum til stjórnar sem taka mun ákvörðun um hlutafjárkaup. Stofnunin áskilur sér rétt til að leita eftir áliti og ráðgjöf frá fagaðilum um hlutafjárkaup, s.s. Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins ásamt því að leita eftir staðbundinni þekkingu á forsvarsmönnum, fyrirtækjum og umhverfi þeirra t.d. hjá atvinnuþróunarfélögum og eignarhaldsfélögum á einstökum svæðum. Leitast verður við að svara umsækjendum innan 45 daga frá því að umsóknartímabili vegna einstakra atvinnugreina er lokið. Frestur þessi gæti þó orðið lengri eftir fjölda umsókna, og verður það þá kynnt sérstaklega. Nauðsynlegt er að umsækjandi kynni sér vel hér á síðunni hvaða gögn þurfi að fylgja umsókn þannig að afgreiðslufrestur verði sem skemmstur. Stofnunin getur vísað frá erindum sem ekki fylgja fullnægjandi upplýsingar.
Gögn með umsókn
Til að geta metið umsóknina þurfa að liggja fyrir ítarlegar upplýsingar um fyrirtækið, framleiðslu þess og aðstandendur. Fylla skal út umsóknareyðublað sem finna má hér á síðunni ásamt því að viðskiptaáætlun skal fylgja hverri umsókn þar sem eftirfarandi atriði skulu koma fram:
-
Upplýsingar um fyrirtækið og helstu forsvarmenn þess
Saga fyrirtækisins ásamt stöðu þess í dag sett fram á skýran og aðgengilegan hátt ásamt upplýsingum um forsvarsmenn félagsins þar sem fram koma upplýsingar um starfsferil viðkomandi sem og menntun.
-
Viðskiptahugmyndin varan/þjónustan
Lýsa skal viðskiptahugmyndinni, markmiði hennar, markmiðum fyrirtækisins varðandi vöruna/þjónustuna. Ef um nýtt/óstofnað félag er að ræða þá skal leggja frekari áherslu á þessa lýsingu.
-
Markaðsgreining
Hér skulu koma fram upplýsingar um markaðinn bæði um stærð markaðaðar, höfuðeinkenni hans, vöxt markaðar og viðgang, verðlagningu vöru á markaði, hvað hefur áhrif á vöxt markaðarins, hvaða breytingar eru fyrirsjáanlegar o.s.frv.
Upplýsingar um samkeppni á markaði, hverjir eru helstu samkeppnisaðilar, hvernig skiptist markaðurinn á milli þeirra og hvernig kemur félagið út í samanburði við önnur fyrirtæki á markaðnum.
Sömuleiðis þarf að upplýsa hverjir eru viðskiptavinirnir, eru þeir fáir og stórir eða litlir og margir, hverjir eru markhóparnir, hvernig skiptist sala niður á markhópa o.s.frv.
-
Markaðsetning og sala
Hér skulu koma fram upplýsingar um verðlagningu vörunnar/þjónustunnar, dreifingu hennar ásamt ítarlegum upplýsingum um kynningar og auglýsingamál.
-
Starfsfólk og skipulag
Hér skal kynna lykilstrafsmenn, útskýra ábyrgð þeirra og hæfileika til starfans. Hvaða eiginleikar og hvaða reynsla starfsfólksins skiptir fyrirtækið mestu máli?
-
Rekstrar- og fjárhagsáætlun
Einn af mikilvægari hlutum viðskiptaáætlunarinnar er rekstrar- og fjárhagsáætlunin. Vanda skal allan frágang en umsækjendur eru hvattir til að nýta sér líkanið hér á síðunni. Eftirfarandi atriði skulu útlistuð: stofnkostnaður, núllpunktsgreining, rekstraráætlun, áætlaður efnahagur og sjóðstreymisáætlun.
-
Fjármögnun
Byggðastofnun gerir kröfu um að verkefnið sé að fullu fjármagnað. Koma skal fram í hvað nota á peningana sem leitað er eftir, hvað er í boði fyrir fjárfesta, hvaða útgönguleið hafa fjárfestar, hvenær þarf fjármagn og hve mikið, hvers konar fjármagni er óskað eftir.
Útlista skal hverjir eru helstu áhættuþættir í rekstri fyrirtækisins og hvernig megi lágmarka áhættu með fyrirbyggjandi aðferðum.
Nauðsynlegt er að setja fram næmnigreiningu þar sem fram koma breytingar á lykilforsendum og hvernig þær hafa áhrif á reksturinn.
-
Framkvæmdaáætlun
Lokakafli viðskiptaáætlunar skal vera framkvæmdaáætlun þar sem talið er upp í réttri tímaröð þau atriði sem gera þarf til að reksturinn gangi samkvæmt áætlun.
Umsækjendum er bent á bækling hér á síðunni um gerð viðskiptaáætlana sem gefinn var út vegna samkeppni sem Byggðastofnun, ásamt Nýsköpunarsjóði og fleiri aðilum, standa að. Sömuleiðis er á síðunni reiknilíkan sem umsækjendur eru hvattir til að nýta sér. Jafnframt skal fylgja umsókn verðmat umsækjanda á félaginu ásamt upplýsingum um þær forsendur sem liggja að baki verðmati. Eru umsækjendur hvattir til að leita sér ráðgjafar hjá atvinnuþróunarfélögum í sínum landshluta.
Aðrar upplýsingar sem nauðsynlegt er að senda eru ársreikningar fyrir árið 2000 til og með 2002, ef um starfandi fyrirtæki er að ræða.
Afgreiðsluferill
- Stofnunin tekur við umsókn innan skilgreinds tímabils.
- Móttaka þeirra umsókna sem uppfylla skilyrði átaksins er staðfest, fylgi umsókninni umbeðin gögn og upplýsingar. Aðrar umsóknir eru endursendar.
- Sérfræðingar Byggðastofnunar meta framlögð gögn og kalla eftir frekari upplýsingum ef svo ber undir.
- Sérfræðingar stofnunarinnar leggja umsagnir sínar fyrir lánanefnd sem metur hvaða verkefni skuli vinna frekar. Öðrum verkefnum er vísað frá.
- Umsækjendur kynna viðskiptaáætlun sína fyrir sérfræðingum Byggðastofnunar sem leggja mat sitt á umsóknir að lokinni kynningu. Þær umsóknir sem best falla að tilgangi átaksins er lagðar fyrir stjórn Byggðastofnunar til ákvörðunartöku en öðrum umsóknum er vísað frá.
- Samþykki stjórn umsókn er slíkt gert með þeim fyrirvara að samningar náist um hlutafjárkaupin við eigendur félagsins. Öðrum umsóknum er synjað.
- Að uppfylltum skilyrðum stjórnar er hlutafé greitt út.
- Byggðastofnun skipar mann/menn í stjórn félagsins og fylgir þannig eftir hlutafjárframlagi sínu.
Markmið Byggðastofnunar
Byggðastofnun hefur að markmiði með afgreiðslu sinni að það fé sem stofnunin fær til ráðstöfunar til hlutafjárkaupa nýtist sem allra best og að sem flest störf skapist með aðkomu stofnunarinnar. Vonar stofnunin að umsækjendur nýti sér upplýsingar hér á síðunni ásamt því að leita ráðgjafar atvinnuþróunarfélaga þannig að umsóknir verði sem allra best úr garði gerðar.
Fréttasafn
- 2024
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október
- 2023
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2022
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2021
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2020
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2019
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2018
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2017
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2016
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2015
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2014
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2013
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2012
- janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
- 2011
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2010
- janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
- 2009
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2008
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2007
- mars maí júní júlí ágúst september október nóvember
- 2006
- janúar febrúar mars maí júní ágúst september
- 2005
- janúar febrúar mars júní október nóvember desember
- 2004
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október
- 2003
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí september október nóvember desember