Fara í efni  

Fréttir

Íbúafundur í Sterkum Ströndum - verkefnið framlengt um eitt ár til loka árs 2024

Íbúafundur í Sterkum Ströndum - verkefnið framlengt um eitt ár til loka árs 2024
Veðurblíða í Strandabyggð

Byggðaþróunarverkefnið Sterkar Strandir hófst á árinu 2020 og hefur því staðið yfir í á fjórða ár. Samkvæmt samningi var gert ráð fyrir því að verkefnið stæði yfir til loka árs 2023 þegar Byggðastofnun drægi sig í hlé úr verkefninu. Sveitarstjórn Strandabyggðar óskaði eftir framlengingu á verkefninu og samþykkti stjórn Byggðastofnunar á fundi sínum 1. nóvember 2023 að framlengja verkefnið um eitt ár, til loka árs 2024.

Íbúar Strandabyggðar urðu fyrir miklu áfalli í sumar þegar í ljós kom að Snæfell, dótturfélag Samherja og eigandi rækjuvinnslunnar Hólmadrangs, ákvað að hætta starfsemi sinni á Hólmavík. Þar með misstu um 20 íbúar vinnuna enda Hólmadrangur einn stærsti vinnustaður Strandabyggðar. Miklar áskoranir blasa því við í byggðarlaginu við að treysta atvinnulíf og þar með búsetuskilyrði. Vonir standa til að verkefnið Sterkar Strandir geti þar lagt lóð á vogarskálarnar.

Árlegur íbúafundur var haldinn undir merkjum Sterkra Stranda miðvikudaginn 15. nóvember sl. Dagskráin samanstóð af nokkrum erindum auk þess sem fundargestum gafst tækifæri til að taka þátt í umræðum um stöðu starfsmarkmiða í verkefnisáætlun og greina hvaða áherslur skynsamlegt væri að vinna sérstaklega með, á viðbótarári verkefnisins í þeim tilgangi að ná sem mestum árangri.

Sigurður Líndal verkefnisstjóri setti fundinn og bauð fundargesti velkomna til fundar. Því næst ávarpaði Kristján Þ. Halldórsson, formaður verkefnisstjórnar Sterkra Stranda og annar fulltrúi Byggðastofnunar í Brothættum byggðum, fundargesti. Kristján kynnti fulltrúa í verkefnisstjórn til sögunnar.

Í máli Kristjáns kom fram að það hefði ekki farið fram hjá verkefnisstjórn að ósætti væri í samfélaginu í Strandabyggð og hefði víða mátt sjá þess merki á opinberum vettvangi. Ekki síst í kjölfar þess að öflugur fulltrúi íbúa í verkefnisstjórn, Esther Ösp Valdimarsdóttir, fór af festu yfir þessa stöðu út frá sínum sjónarhóli á málþingi Byggðastofnunar um verkefnið Brothættar byggðir sem haldið var á Raufarhöfn 5. október s.l. Kristján sagði það sína skoðun að það væri til bóta að fá þessa hluti upp á yfirborðið og að í kjölfarið yrðu vonandi meiri líkur á að samfélagið tækist á við vandamálin og leitaði lausnar á þeim. Hluti vandans er til kominn vegna síendurtekinnar umræðu um að ekki hafi verið staðið eðlilega að úthlutun styrkja í Sterkum Ströndum. Kristján vísaði í því sambandi til minnisblaðs fulltrúa Byggðastofnunar og Vestfjarðastofu sem birt var á fésbókarsíðu verkefnisins og vef Vestfjarðastofu þann 19. október s.l. Kristján bætti því við að kynning um styrkina og auglýsingar þar að lútandi hafi verið sérstaklega áberandi í aðdraganda fyrstu úthlutunar sumarið 2020 og því hefðu allir íbúar haft greiðan aðgang að umsóknarferlinu.

Að því búnu las Kristján bókun sem verkefnisstjórn Sterkra Stranda samþykkti á fundi sínum þann 9. nóvember 2023:

„Á fundi sínum þann 1. nóvember 2023 tók stjórn Byggðastofnunar ákvörðun um að framlengja verkefnið Sterkar Strandir um eitt ár, til loka árs 2024. Því er verkefnisstjórn umhugað um að nýta viðbótartímann sem best í þágu samfélagsins í Strandabyggð.

Á opinberum vettvangi hefur komið fram að ágreiningur er til staðar í samfélaginu í Strandabyggð og hefur verkefnisstjórn áhyggjur af að það gæti dregið úr framþróun, þátttöku og virkni íbúa í verkefninu Sterkar Strandir og þar með árangri verkefnisins.

Verkefnisstjórn Sterkra Stranda mun ekki taka afstöðu í þeim málum sem kunna að vera orsök ágreinings. Verkefnisstjórn og verkefnisstjóri munu á hinn bóginn beina kröftum sínum að framfaramálum sem íbúar hafa skilgreint í verkefnisáætlun Sterkra Stranda, svo og styðja við frumkvæðisverkefni sem til framfara horfa að því marki sem fjárhagur og kraftar verkefnisins leyfa.

Verkefnisstjórn vill enn fremur hvetja sveitarstjórn til að hafa forgöngu um að leitað verði sátta í samfélaginu þannig að íbúar Strandabyggðar geti sameinast um að nýta sér viðbótarár verkefnisins til hins ýtrasta, öllu samfélaginu til heilla.“

Að lokum óskaði Kristján fundargestum góðs og málefnalegs fundar.

Sigurður kynnti vinnu samráðshóps um stöðu Strandabyggðar í kjölfar lokunar Hólmadrangs fyrr á árinu. Í samráðshópnum eru auk Sigurðar, Þorgeir Pálsson sveitarstjóri og Stefán Vagn Stefánsson fyrsti þingmaður kjördæmisins. Fram kom að unnið væri að ýmsum málefnum í samstarfi við þingmenn kjördæmisins og vonast er til að árangur náist í þágu íbúa og byggðarlagsins. Sigurður greindi frá því að tvö stærri málefni væru í farvegi, annars vegar tillaga um að sett verði á stofn svokölluð Strandanefnd og hins vegar boranir eftir heitu vatni á Gálmaströnd.

Næst kynnti Þorgeir Pálsson, sveitarstjóri Strandabyggðar, áform um nýja hótelbyggingu á Hólmavík og sýndi frumteikningar af byggingunni, fyrirhugaðri staðsetningu hennar og vinnu að deiliskipulagsgerð vegna umhverfis hótelsins sem og nýs íbúðahverfis í nágrenni íþróttamiðstöðvarinnar og fyrirhugaðs hótels. Fram kom í máli Þorgeirs að vonir stæðu til að hugmyndirnar um hótelbygginguna gætu orðið að veruleika á allra næstu misserum og sú framkvæmd yrði til þess að styrkja stoðir atvinnulífs í Strandabyggð.

Magnús Bjarnason frá Vestfjarðastofu kynnti því næst innviðagreiningu á Ströndum sem unnið hefur verið að undanfarið. Þar komu m.a. fram upplýsingar um lýðfræðilega stöðu í samanburði við önnur svæði Vestfjarða, smávirkjanakosti í Strandabyggð og athuganir á heitu vatni.

Einn styrkþegi, Jamie Lee, kynnti fundargestum spennandi nýsköpunarverkefni sem hún vinnur að en hún rekur fyrirtækið Fine Foods Íslandica. Verkefnið snýr m.a. að fullvinnslu á þara og eru þrjár vörutegundir nú þegar komnar í sölu hjá fyrirtækinu. Einnig kom Bergsveinn Reynisson, samstarfsmaður hennar, að kynningu á verkefninu. Verkefni Jamie Lee er eitt þeirra verkefna sem hafa hlotið styrk úr Frumkvæðissjóði Sterkra Stranda.

Eftir að fundargestir höfðu gætt sér á kjötsúpu að hætti Galdrasetursins hófust umræður íbúa í hópum um verkefnisáætlun og áhersluatriði á viðbótarári verkefnisins. Líflegar umræður sköpuðust um markmiðin og í lok fundar greindi hver umræðuhópur frá helstu niðurstöðum. Verkefnisstjóri og verkefnisstjórn munu fara yfir fram komnar ábendingar, vinna úr þeim og fylgja eftir, eftir atvikum.

Þess má einnig geta að verkefnisstjórn Sterkra Stranda gafst tækifæri fyrr um daginn til að sækja nokkra styrkþega heim auk þess að skoða húsakynni Hólmadrangs og framkvæmdir við grunnskóla Strandabyggðar. Förinni var heitið í Galdur brugghús, Galdrasetrið og í nýja fótaaðgerðastofu og var einkar vel tekið á móti hópnum og fróðlegt að sjá og heyra um verkefnin sem unnið er að. Ekki spillti fyrir að Strandabyggð skartaði sínu fegursta þennan dag svo sem sjá má á myndum með fréttinni.

Heldur dræm mæting íbúa var á fundinn að þessu sinni. Það er einlæg ósk verkefnisstjórnar að íbúar fylki sér um verkefnið Sterkar Strandir á viðbótarárinu með virkri þátttöku.

Hér má sjá myndir frá fundinum og heimsóknum. Myndasmiðir voru Kristján Þ. Halldórsson og Helga Harðardóttir.

Sigurður Líndal verkefnisstjóri kynnir stöðu mála í Strandabyggð.

Kristján Þ. Halldórsson ávarpar íbúafund.

Þorgeir Pálsson segir frá áformum um hótel og nýtt deiliskipulag.

Magnús Bjarnason kynnir innviðagreiningu fyrir Strandir.

Jamie Lee kynnir hugmyndir um nýtingu á þara og starfsemi tengda svepparækt.

Bergsveinn Reynisson frá Fine food Íslandica.

Hópaumræður á íbúafundi um verkefnisáætlun og áherslur á viðbótarári Sterkra Stranda.

Heimsókn í húsnæði grunnskólans á Hólmavík.

Heimsókn í húsnæði Hólmadrangs.

Heimsókn í Galdur brugghús.

Heimsókn í Galdrasýningu á Ströndum.

Heimsókn í nýja fótaaðgerðastofu hjá Röfn Friðriksdóttur.

Veðurblíða í Hólmavíkurhöfn.

Listaverk við Galdrasýninguna á Ströndum.

Nánari upplýsingar veita Helga Harðardóttir og Kristján Þ. Halldórsson, umsjónaraðilar Brothættra byggða hjá Byggðastofnun.


Til baka

Fréttasafn

2024
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september
2023
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2022
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2021
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2020
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2019
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2018
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2017
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2016
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2015
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2014
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2013
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2012
janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
2011
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2010
janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
2009
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2008
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2007
mars maí júní júlí ágúst september október nóvember
2006
janúar febrúar mars maí júní ágúst september
2005
janúar febrúar mars júní október nóvember desember
2004
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október
2003
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí september október nóvember desember

Skráning á póstlista

  • Byggðastofnun  |  Sauðármýri 2  |  550 Sauðárkrókur 
  • Sími 455-5400
  • postur@byggdastofnun.is
  • Opið frá kl. 8:30-12:00 & 13:00-16:00  | kt. 450679-0389