Fara í efni  

Fréttir

Íbúar Dalabyggðar sameinast um verkefnið DalaAuð

Íbúar Dalabyggðar sameinast um verkefnið DalaAuð
Íbúafundur í DalaAuði

Vel heppnaður íbúafundur var haldinn í byggðaþróunarverkefninu DalaAuði í Dalabúð þriðjudaginn 14. nóv. sl. Verkefnið hófst á íbúaþingi í mars 2022 og er því á öðru starfsári. Allt frá byrjun hefur mikill kraftur einkennt aðkomu hagaðila að verkefninu og íbúar tekið virkan þátt. Linda Guðmundsdóttir verkefnisstjóri hefur með mikilli röggsemi stýrt verkefninu og unnið með íbúum og öðrum hagaðilum að þeim starfsmarkmiðum sem lögð voru til grundvallar verkefninu í upphafi, ásamt því að liðsinna íbúum í ýmsum málum svo sem við umsóknarskrif. Á fundinum lá verkefnisáætlun, sem gefin var út á síðasta ári, til umræðu, ábendinga og uppfærslu. Fundargestum var skipt upp í fjóra umræðuhópa eftir meginmarkmiðum verkefnisáætlunar, auk tveggja hópa þar sem sérstaklega var rætt um málefni eldri borgara og um menningarmálin. Afrakstur þeirrar umræðu bíður verkefnisstjórnar að yfirfara og uppfæra verkefnisáætlun samkvæmt óskum íbúa.

Á fundinum gerði verkefnisstjóri grein fyrir framvindu verkefnisáætlunar DalaAuðs og stöðu styrktra verkefna. Tvívegis hefur styrkjum verið veitt úr Frumkvæðissjóði DalaAuðs og hafa samtals 42 frumkvæðisverkefni hlotið styrki úr sjóðnum. Íbúar hafa því sannarlega tekið höndum saman og fundið nýjar og spennandi leiðir til að efla samfélagið í Dalabyggð. Styrkirnir hafa verið veittir til fjölbreyttra verkefna sem snerta umhverfi, atvinnu- og mannlíf í Dalabyggð.

Bjarki Þorsteinsson sveitarstjóri gerði grein fyrir aðkomu sveitarfélagsins að verkefninu og samstarfi Dalabyggðar og DalaAuðs varðandi verkefnisáætlun DalaAuðs. Mikið og þétt samstarf er á milli sveitarstjóra, sem jafnframt er fulltrúi sveitarfélagsins í verkefnisstjórn DalaAuðs, og verkefnisstjóra DalaAuðs. Til fyrirmyndar er hvernig það samstarf skilar skrefum í átt að því að ná starfsmarkmiðum verkefnisáætlunar DalaAuðs.

Á fundinum stigu á stokk tveir styrkþegar sem kynntu nýstárleg frumkvæðisverkefni. Annars vegar Þóra Sigurðardóttir sem kynnti starfsemi á Nýp, listasetri á Skarðsströnd. Í máli hennar kom m.a. fram hvað það skiptir miklu máli fyrir verkefni líkt og hennar að fá styrk úr sjóði sem þessum. Ekki væri eingöngu gott að fá styrkfjármuni heldur ekki síst að fá viðurkenningu á því að samfélagið samþykki verkefnið og veiti því athygli. Hins vegar steig á stokk Berghildur Pálmadóttir sem sagði frá verkefni sínu Áfangaheimilið á Dunki. Sú starfsemi býður fram úrræði fyrir einstaklinga með fjölþættan vanda en styrkveitingin fólst í uppbyggingu húsnæðis fyrir skjólstæðinga áfangaheimilisins. Bæði verkefnin sem hér eru nefnd eru nýsköpunarverkefni á svæðinu.

Fram kom að verkefnisstjórn DalaAuðs hefur ákveðið að opna fyrir umsóknir í Frumkvæðissjóð DalaAuðs þann 15. febrúar 2024. Íbúar eru hvattir til að hefja undirbúning að umsóknum sem fyrst og vonast er til jafn góðrar þátttöku og í fyrri úthlutunum. Sem fyrr veitir Linda verkefnisstjóri íbúum aðstoð vegna undirbúnings umsókna eins og óskað er eftir.

Fram kom á fundinum að heilmikið hefði áunnist á árinu í framfaramálum í byggðarlaginu. Í lok fundar hvatti Linda verkefnisstjóri fundargesti til að halda áfram að taka virkan þátt í DalaAuði og leita sóknarfæra sem leynast víða í samfélaginu.

Hér má sjá myndir frá fundinum. Myndasmiðir voru Kristján Þ. Halldórsson og Helga Harðardóttir.

Linda Guðmundsdóttir verkefnisstjóri setur fundinn.

Bjarki Þorsteinsson sveitarstjóri segir frá samstarfi um verkefnið DalaAuð.

Þóra Sigurðardóttir segir frá listasetrinu Nýp á Skarðsströnd.

Berghildur Pálmadóttir segir frá Áfangaheimilinu á Dunki.

Umræðuefni dagsins í hópavinnu.

 

Nánari upplýsingar veita Helga Harðardóttir og Kristján Þ. Halldórsson, umsjónaraðilar Brothættra byggða hjá Byggðastofnun.


Til baka

Fréttasafn

2024
janúar febrúar mars apríl
2023
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2022
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2021
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2020
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2019
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2018
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2017
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2016
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2015
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2014
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2013
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2012
janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
2011
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2010
janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
2009
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2008
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2007
mars maí júní júlí ágúst september október nóvember
2006
janúar febrúar mars maí júní ágúst september
2005
janúar febrúar mars júní október nóvember desember
2004
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október
2003
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí september október nóvember desember

Skráning á póstlista

  • Byggðastofnun  |  Sauðármýri 2  |  550 Sauðárkrókur 
  • Sími 455-5400
  • postur@byggdastofnun.is
  • Opið frá kl. 8:30-12:00 & 13:00-16:00  | kt. 450679-0389