Fara í efni  

Fréttir

Stefnt að stofnun Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands

Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra leggur á næstu dögum fram á Alþingi stjórnarfrumvarp til laga um Nýsköpunarmiðstöð Íslands sem ríkisstjórnin hefur samþykkt að hennar frumkvæði og miðar við að lögfest verði fyrir þinglok í vor. Gert er ráð fyrir umfangsmikilli uppstokkun í opinberu stuðningskerfi nýsköpunar og atvinnuþróunar á vegum iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis með því að sameina starfsemi Byggðastofnunar, Iðntæknistofnunar og Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins í Nýsköpunarmiðstöð Íslands með höfuðstöðvar á Sauðárkróki. Áfram verður öflug tæknirannsókna- og frumkvöðlastarfsemi í Keldnaholti í Reykjavík.

Fréttatilkynning frá Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu

  • Stuðningskerfi nýsköpunar og atvinnuþróunar stokkað upp og Nýsköpunarmiðstöð Íslands stofnuð
  • Þekkingarsetur sett á laggir víða um land
  • Nýtt Vísinda- og nýsköpunarráð mótar samræmda atvinnuþróunar- og byggðastefnu

Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra leggur á næstu dögum fram á Alþingi stjórnarfrumvarp til laga um Nýsköpunarmiðstöð Íslands sem ríkisstjórnin hefur samþykkt að hennar frumkvæði og miðar við að lögfest verði fyrir þinglok í vor.

Gert er ráð fyrir umfangsmikilli uppstokkun í opinberu stuðningskerfi nýsköpunar og atvinnuþróunar á vegum iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis með því að sameina starfsemi Byggðastofnunar, Iðntæknistofnunar og Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins í Nýsköpunarmiðstöð Íslands með höfuðstöðvar á Sauðárkróki. Áfram verður öflug tæknirannsókna- og frumkvöðlastarfsemi í Keldnaholti í Reykjavík.

Þekkingarsetur víða um land, þar með talin sjálf Nýsköpunarmiðstöðin, verða drifkraftar nýsköpunar og atvinnuþróunar. Þar tengist saman starfsemi háskóla, rannsóknastofnana, þekkingarfyrirtækja og sprota- og nýsköpunarfyrirtækja til eflingar staðbundinni atvinnuþróun um allt land. Lögð verður áhersla á öflug þekkingarsetur í tengslum við Háskólasetur Vestfjarða á Ísafirði, Þekkingarnet Austurlands á Egilsstöðum og Háskólann á Akureyri.

Hér er mörkuð framsækin nýsköpunar-, atvinnu- og byggðaþróunarstefna og jafnframt stuðlað að hagræðingu í ríkisrekstri með því að fækka opinberum stofnunum og sjóðum sem í mörgum tilvikum eru að fást við svipuð verkefni. Skapaðar eru forsendur fyrir því að nýta fjármuni á markvissari hátt en áður og stuðlað er að meiri samhæfingu með breytingu á lögum um Vísinda- og tækniráð og breytingu á lögum um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins samhliða lagasetningu um Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Þannig er gert ráð fyrir að færa atvinnu- og byggðamál á vettvang Vísinda- og tækniráðs og nefna það jafnframt Vísinda- og nýsköpunarráð. Vísinda- og tækniráð varð til með lögum á árinu 2003 með það að markmiði að móta og samræma opinbera stefnu varðandi vísindi, tækniþróun og nýsköpun. Með því að setja atvinnu- og byggðamál undir nýtt Vísinda- og nýsköpunarráð verða þessir málaflokkar á ábyrgð fleiri ráðuneyta og ríkisstjórnarinnar í heild þar sem forsætisráðherra er formaður ráðsins.

Iðnaðar- og viðskiptaráðherra skipar forstjóra Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands fyrir 1. ágúst 2006 og felur honum að undirbúa framkvæmd væntanlegra laga.

Starfsmönnum Byggðastofnunar, Iðntæknistofnunar og Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins verða boðin störf hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

Þetta verkefni í heild sinni er eitt hið umfangsmesta sem unnið hefur verið að um árabil á vettvangi iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins. Það byggist á starfi stjórnskipaðra nefnda og starfshópa undanfarin misseri og vinnu í ráðuneytinu sjálfu. Fulltrúar stjórnvalda kynntu sér meðal annars reynslu Skota, Íra og Finna af því að móta opinbera atvinnuþróunarstefnu og framfylgja henni. Þar má meðal annars nefna sérstaklega þekkingu og reynslu Finna af því að setja á laggir þekkingarsetur, klasa og tæknigarða.

Hugmyndin sem býr að baki fyrirliggjandi lagafrumvörpum hefur verið kynnt skipulega undanfarnar vikur fyrir fulltrúum ýmissa stofnana og samtaka sem hagsmuna eiga að gæta. Hún hefur víðast hvar fengið afar góðan hljómgrunn, meðal annars hjá Samráðsnefnd vísinda- og tækninefnda. Þess má raunar geta að Vísinda- og tækniráð hafði á sínum tíma tekið undir tillögu um að sameina Iðntæknistofnun og Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins og beint því til ríkisstjórnarinnar að endurskipuleggja opinberar rannsóknastofnanir og tengja starfsemina betur háskólum og atvinnulífi landsins. Því má segja að iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið hafi tekið Vísinda- og tækniráð á orðinu og afrakstur þess starfs lítur nú dagsins ljós.

Nýtt stuðningskerfi nýsköpunar og atvinnuþróunar

  • Nýsköpunarmiðstöð Íslands tekur formlega til starfa á Sauðárkróki 1. janúar 2007

Nýsköpunarmiðstöðin:

  • verður til með sameiningu Iðntæknistofnunar, Byggðastofnunar og Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins.
  • verður eitt af mörgum, nýjum þekkingarsetrum landsins og þangað liggja mikilvægir þræðir tæknirannsókna, rannsókna í háskólum og háskólasetrum og þróunarstarfsemi á vegum fyrirtækja.
  • verður miðstöð upplýsinga og leiðsagnar fyrirtækja og einstaklinga við nýsköpun.
  • stuðlar að framförum í atvinnulífinu með því að miðla þekkingu og styðja starf frumkvöðla og starfsemi sprota- og nýsköpunarfyrirtækja.
  • eflir samstarf rannsóknastofnana, háskóla og fyrirtækja og tengsl þeirra við atvinnuþróunarfélög.
  • stundar eigin rannsóknir, tækniþróun, greiningu, prófanir og vottun.
  • fjallar um búsetuskilyrði og atvinnulíf með það að markmiði að auka samkeppnishæfni fyrirtækja og treysta byggð í landinu.
  • fjármagnar verkefni sem varða atvinnumál og lífskjör, til dæmis svokallaða vaxtarsamninga (samstarfsverkefni hins opinbera og einkaaðila um uppbyggingu atvinnulífs á tilteknum landssvæðum).

Þekkingarsetrin ættu að geta orðið drifkraftar í nýsköpun og atvinnuþróun á viðkomandi svæðum. Í fyrstu er einkum horft til slíkrar uppbyggingar á Ísafirði, Akureyri og Egilsstöðum. Ástæðan er annars vegar sú að eitt af markmiðum byggðaáætlunar stjórnvalda er einmitt að styrkja þessa byggðakjarna sérstaklega í sínum landshlutum og hins vegar vegna þess að á öllum stöðunum þremur er nú þegar til vísir að þekkingarsetri (Háskólasetur Vestfjarða, Þekkingarnet Austurlands og Rannsókna- og nýsköpunarhúsið á Akureyri).

Aðstæður á fjármagnsmarkaði eru gjörbreyttar og möguleikar fyrirtækja allt aðrir en áður til að afla fjár til fjárfestinga, þróunar, skipulagsbreytinga og rekstrar. Erfitt getur hins vegar verið áfram að afla fjár til nýsköpunar, tækniþróunar, frumkvöðlastarfsemi af ýmsu tagi og til atvinnustarfsemi á landsbyggðinni. Það getur bitnað hvað mest á þekkingarfyrirtækjum og smáfyrirtækjum, starfsemi sem einmitt er ætlast til að stuðli að hagvexti og atvinnusköpun í framtíðinni. Stuðningur stjórnvalda er því og verður mikilvægur.

Í nýju stjórnskipulagi atvinnuþróunar á vegum iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis er gert ráð fyrir að þrír sjóðir hafi skilgreint hlutverk við að fjármagna nýsköpun og atvinnuþróun:

  • Tækniþróunarsjóður verður vistaður hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Hann styrkir áfram og fjármagnar meðal annars tækniþróun og tengdar rannsóknir, uppbyggingu sprotafyrirtækja, átaksverkefni og önnur verkefni á vegum einstaklinga og smáfyrirtækja. Átak til atvinnusköpunar verður sameinað Tækniþróunarsjóði.
  • Nýr Byggðasjóður verður vistaður hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands og veitir fyrirtækjum á landsbyggðinni ábyrgðir vegna lána. Ekki er gert ráð fyrir að Byggðasjóður fái bein fjárframlög úr ríkissjóði heldur standi undir starfsemi sinni með tekjum af ábyrgðargjöldum og fjármagnstekjum af eigin fé.
  • Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins verður áfram veigamikill þáttur í stuðningskerfi atvinnulífsins og frumfjárfestir í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum. Sjóðurinn tekur mið af stefnu Vísinda- og nýsköpunarráðs í starfsemi sinni. Þá er kveðið á um heimild til handa sjóðnum til að taka þátt í samlagssjóðum og samlagshlutafélögum með ráðstöfun fjármuna sem til hans renna af söluandvirði Símans. Hér er um að ræða 1.500 milljónir króna sem renna til sjóðsins á árunum 2007 til 2009. Auk þess fékk sjóðurinn 1.000 milljónir króna í árslok 2005 til að fjárfesta í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum.

Til baka

Fréttasafn

2024
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október
2023
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2022
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2021
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2020
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2019
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2018
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2017
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2016
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2015
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2014
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2013
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2012
janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
2011
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2010
janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
2009
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2008
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2007
mars maí júní júlí ágúst september október nóvember
2006
janúar febrúar mars maí júní ágúst september
2005
janúar febrúar mars júní október nóvember desember
2004
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október
2003
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí september október nóvember desember

Skráning á póstlista

  • Byggðastofnun  |  Sauðármýri 2  |  550 Sauðárkrókur 
  • Sími 455-5400
  • postur@byggdastofnun.is
  • Opið frá kl. 8:30-12:00 & 13:00-16:00  | kt. 450679-0389