Fara efni  

Frttir

Mannfjldabreytingar slandi eftir bankahrun

Hagstofa Íslands birti í dag upplýsingar um miðársmannfjölda 2009. Í þeim tölum kemur m.a. fram að íbúum á Íslandi hefur fækkað um 109 frá miðju ári 2008 og að fækkun á milli ára hafi ekki átt sér stað frá árinu 1889. Ef litið er á kynjaskiptingu kemur í ljós að körlum fækkaði um 1.628 á landinu á meðan konum fjölgaði um 1.519.


Líkur eru á a.m.k. hluta af þessum mismun megi rekja til þess að karlar með erlent ríkisfang séu að yfirgefa landið en þeir voru umtalsvert fleiri en konur með erlent ríkisfang samkvæmt tölum Hagstofunnar þann 1. desember sl. Þá bjuggu á landinu 14.587 karlar með erlent ríkisfang á móti 10.433 konum.

Hagstofan birtir reglulega tölur um íbúafjölda. Í þessari umfjöllun verður skoðað tímabilið frá 1. október 2008 til 1. júlí 2009 með það að markmiði að horfa á þær breytingar sem orðið hafa eftir hrun íslensku bankanna. Rétt er þó að hafa þann fyrirvara á að hér er ekki um heilt ár að ræða og að betri mynd fæst ekki fyrr en tölur fyrir 1. október verða birtar. Allar tölur í þessari umfjöllun er teknar af vef Hagstofu Íslands http://www.hagstofa.is/.

Nokkur fólksfjölgun hafði orðið á landinu milli mælinga 1. júlí 2008 og fram til 1. október 2008. Frá þeirri dagsetningu hefur hins vegar íbúum á Íslandi fækkað um 923 eða 0,29%. Mesta breytingin er að það hefur orðið fækkun á Höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum, en íbúum fjölgaði mikið á þeim svæðum undanfarin ár. Einnig hefur dregið verulega úr fjölgun í nágrannabyggðum Höfuðborgarsvæðisins og jafnvel fækkað verulega eins og í Borgarbyggð. Einna mesta athygli vekur veruleg fjölgun á Vestfjörðum og í Vestmannaeyjum en bæði þessi landssvæði hafa átt við verulega fólksfækkun að stríða undanfarin ár.

Á höfuðborgarsvæðinu fækkaði um 249 íbúa eða 0,12%. Sú fækkun skýrist af fækkun í Reykjavík um 1.144 (0,95%), í Mosfellsbæ um 162 (1,88) og á Seltjarnarnesi um 44 (0,99%). Íbúum fjölgaði hins vegar í Kópavogi um 509 (1,70%), í Hafnarfirði um 383 (1,49%) og í Garðabæ um 172 (1,66%). Í öðrum sveitarfélögum fjölgaði minna.

Á Suðurnesjum fækkaði á tímabilinu um 227 íbúa eða 1,05%.  Í öllum sveitarfélögum á Suðurnesjum fækkaði íbúum nema í Grindavík þar sem þeim fjölgaði um 28 (0,99%). Mest varð fækkunin í Reykjanesbæ, 214 íbúar (1,49%), þá í Sveitarfélaginu Garði um 21 íbúa (1,36%), í Sveitarfélaginu Vogum um 13 íbúa (1,06%) en minnst í Sandgerðisbæ um 7 (0,40%).

Á Vesturlandi fækkaði íbúum um 85 (0,54%).  Sú fækkun skýrist fyrst og fremst af fækkun í Borgarbyggð um 117 íbúa (3,14%) og Hvalfjarðarsveit um 14 íbúa (2,19%). Í öðrum sveitarfélögum á Vesturlandi urðu litlar breytingar. Þó er vert að nefna að íbúum fjölgaði í Dalabyggð um 15 (2,12%) og í Snæfellsbæ um 11 (0,64%).

Á Vestfjörðum fjölgaði íbúum um 185 (2,55%) á tímabilinu. Um er að ræða athyglisverða breytingu en eins og kunnugt er hefur fólki fækkað mikið á Vestfjörðum á undanförnum áratugum. Fjölgun varð í öllum sveitarfélögum nema Súðavíkurhreppi þar sem fækkaði um 8 (3,67%) og Bæjarhreppi þar sem fækkaði um 1.  Í Bolungarvík fjölgaði um 57 (6,28%), í Vesturbyggð um 36 (3,98%), í Ísafjarðarbæ um 30 (0,76%), um 25 (5,22%) í Strandabyggð, um 19 í Reykhólahreppi (7,14%), um 18 (6,14%) í Tálknafjarðarhreppi, um 7 (6,54%) í Kaldrananeshreppi og um 2 (4,08%) í Árneshreppi.

Á Norðurlandi vestra fjölgaði íbúum um 69 (0,94%). Þá fjölgun má rekja til fjölgunar í Sveitarfélaginu Skagafirði um 69 manns (1,70%) og í Húnaþingi vestra um 15 manns (1,33%). Í öðrum sveitarfélögum urðu litlar breytingar.

Á Norðurlandi eystra fjölgaði íbúum um 19 (0,07%). Mesta fjölgunin varð í Dalvíkurbyggð um 44 (2,29%), í Langanesbyggð um 34 (6,95%) og í Þingeyjarsveit um 10 (1,07%). Mesta fækkunin varð í Fjallabyggð um 52 íbúa (2,44%) og í Akureyrarbæ um 30 (0,17%). Í öðrum sveitarfélögum urðu litlar breytingar.

Á Austurlandi fækkaði íbúum um 780 (5,81%). Mesta fækkunin varð í þeim þremur sveitarfélögum þar sem að áhrif stóriðjuframkvæmdanna voru hvað mestar. Þó að upplýsingar liggi ekki fyrir má telja líklegt að stærsti hluti þessarar fækkun sé til komin vegna brottflutnings starfsmanna með erlent ríkisfang. Í Fjarðabyggð fækkaði um 365 (7,28%), á Fljótsdalshéraði um 229 (5,96%) og í Fljótsdalshreppi um 185 (64,69%) en íbúar þar eru nú litlu fleiri en þeir voru áður en framkvæmdir hófust.

Á Suðurlandi fjölgaði íbúum um 145 (0,60%). Stærstan hluta þeirrar fjölgunar má rekja til fjölgunar í Vestmannaeyjum en þar fjölgaði íbúum um 92 (2,27%). Í Sveitarfélaginu Árborg fjölgaði um 31 (0,39%) en dregur hefur úr fjölgun íbúa. Þá fjölgaði um 17 (0,85%) í Sveitarfélaginu Ölfus og um 10 (0,57%) í Rangárþingi eystra. Mesta fækkunin varð í Grímsnes- og Grafningshreppi 20 (4,56) og Hveragerði um 17 (0,74%). Annars staðar urðu minni breytingar.

Hér má nálgast Excel-skjal með nánari tölulegum upplýsingum. Sigurður Árnason sérfræðingur á Þróunarsviði Byggðastofnunar vann samantektina.


Til baka

Skrning pstlista

  • Byggastofnun | Saurmri 2 | 550 Saurkrkur
  • Smi 455-5400
  • postur@byggdastofnun.is
  • Opi fr kl. 8:30-12:00 & 13:00-16:00 | kt. 450679-0389