Fara í efni  

Fréttir

Álftagerðisbræður og Stefán Gíslason handhafar Landstólpans 2016

Álftagerðisbræður og Stefán Gíslason handhafar Landstólpans 2016
Ingibjörg Sigfúsdóttir tekur við Landsstólpanum

Landstólpanum er ætlað að vekja athygli á fjölbreyttu starfi sem fer fram víða um land og jafnframt vekja jákvæða athygli á starfi Byggðastofnunar. Tilnefna má einstakling, fyrirtæki, eða hópi/verkefni á vegum fyrirtækis eða einstaklinga. Viðkomandi skal hafa vakið jákvæða athygli á landsbyggðinni, t.d. með tilteknu verkefni eða starfsemi, umfjöllun eða öðru og gæti bæði hafa vakið athygli á byggðamálum, landsbyggðinni í heild, eða einhverju tilteknu byggðarlagi og þannig aukið veg viðkomandi samfélags. Viðurkenningin er hvatning, hugmynd að baki er að efla skapandi hugsun og bjartsýni.

Heitið Landstólpinn er fengið úr kvæði Jónasar Hallgrímssonar, Alþing hið nýja (1840). Jónas segir bóndann stólpa búsins og búið stólpa landsins, það sem landið treystir á. Viðurkenning Byggðastofnunar er þó ekki bundin við landbúnað eða sveitir landsins, merkingu búsins í bændasamfélagi 19. aldar er yfirfærð á nútímasamfélagið, sem byggir á mörgum stoðum og stólpum.

Landstólpinn var fyrst afhentur árið 2011 og hlaut Jón Jónsson þjóðfræðingur og menningarfrömuður á Ströndum hann það ár. Árið 2012 var viðurkenningin veitt Örlygi Kristfinnssyni frumkvöðli í menningarferðaþjónustu og safnastarfi á Siglufirði. Þórður Tómasson safnvörður og fræðimaður á Skógum undir Eyjafjöllum hlaut Landstólpann árið 2013 og árið 2014 fyrirtækið Norðursigling á Húsavík. Í fyrra hlaut Vilborg Arnarsdóttir frá Súðavík Landstólpann vegna uppbyggingar fjölskyldugarðs á Súðavík.

Viðurkenningargripurinn í ár er glerskál hönnuð af glerlistakonunni Sigrúnu Ólöfu Einarsdóttur hjá Gler í Bergvík. Sigrún er menntuð í sinni list frá Kaupmannahöfn og Bandaríkjunum og verk hennar hafa verið sýnd bæði hér heima og erlendis. Hún stofnaði Gler í Bergvík árið 1982 ásamt Sören Larsen.

Tilnefningar til Landstólpans bárust víðsvegar að af landinu að venju. Niðurstaða dómnefndar varð sú að veita Álftagerðisbræðrum, þeim Sigfúsi, Pétri, Gísla og Óskari Péturssonum, sem og listrænum stjórnanda þeirra, Stefáni Gíslasyni, Landstólpann 2016.

Úr rökstuðningi með tilnefningunni segir:

Vinsældir söngbræðranna frá Álftagerði á liðnum áratugum hafa tæplega farið framhjá landsmönnum. Þeir hafa hljóðritað fjölda laga, fyllt flest samkomuhús landsins margsinnis af söng og gleði og ekki síst linað sorgir aðstandenda á erfiðum tímum með sinni látlausu en fölskvalausu framkomu. Ógleymd eru öll þau tækifæri sem þeir hafa ljáð krafta sína til framgangs  góðum málefnum án endurgjalds, enda sprottnir úr ranni hjálpsemi og náungakærleika.

Nafn þeirra hefur borið hróður Skagafjarðar langt út fyrir héraðið sem og til annarra landa enda nánast fáheyrt að hópur bræðra skipi jafn hljómfagran kvartett.  Listfengi, hispursleysi og glaðværð þeirra hefur kallað á slíkar vinsældir að nú þegar bréfið er ritað er hafin sala á aukatónleika með þeim í Hörpu. Ungir sem aldnir finna samhljóm með Álftagerðisbræðrum og þeir hafa komið fram með öllum aldurshópum, stutt og hvatt til dáða.

En ekki er hægt að nefna þá bræður nema nafn Stefáns R Gíslasonar sé þar einnig með. Frá upphafi samsöngs þeirra hefur hann stjórnað, útsett og leikið undir hjá bræðrunum. Hlutverk Stefáns hefur  klárlega verið  til jafns við söngvarana og hann því tilnefndur með þeim.

Það er ósk okkar sem að tilnefningunni stöndum að þeir bræður og Stefán hljóti þá viðurkenningu sem þeir sannarlega eiga skilið. Svo mikið hefur framlag þeirra til samfélagsins verið á undangengnum árum. Jafnframt er augljóst að erfitt er að sjá viðlíka listamenn hvað þá bræðra eða systkinahópur muni koma fram á sjónarsviðið á næstunni og fylla það skarð sem eftir stendur þegar þeir bræður leggja slaufurnar á hilluna frægu.

Bræðurnir ásamt Stefáni gátu ekki verið viðstaddir afhendinguna, en þeir voru í Reykjavík við undirbúning tónleika í Hörpunni sem haldnir voru á sunnudag. Ingibjörg Sigfúsdóttir í Álftagerði, eiginkona Gísla Péturssonar, tók við Landstólpanum fyrir þeirra hönd. 


Til baka

Fréttasafn

2024
janúar febrúar mars apríl
2023
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2022
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2021
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2020
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2019
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2018
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2017
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2016
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2015
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2014
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2013
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2012
janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
2011
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2010
janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
2009
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2008
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2007
mars maí júní júlí ágúst september október nóvember
2006
janúar febrúar mars maí júní ágúst september
2005
janúar febrúar mars júní október nóvember desember
2004
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október
2003
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí september október nóvember desember

Skráning á póstlista

  • Byggðastofnun  |  Sauðármýri 2  |  550 Sauðárkrókur 
  • Sími 455-5400
  • postur@byggdastofnun.is
  • Opið frá kl. 8:30-12:00 & 13:00-16:00  | kt. 450679-0389