Fara í efni  

Fréttir

Ársfundur Byggðastofnunar 2020

Ársfundur Byggðastofnunar var haldinn fimmtudaginn 16. apríl.  Aðstæður í samfélaginu settu mark sitt á efni og framkvæmd fundarins og fór hann fram í formi fjarfundar að þessu sinni.  Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra kynnti skipan sjö manna stjórnar Byggðastofnunar á ársfundinum og var Magnús B. Jónsson frá Skagaströnd aftur skipaður formaður stjórnarinnar.  Í tengslum við ársfundinn kom út ársskýrsla Byggðastofnunar en þar má lesa nánar um einstök verkefni og rekstur stofnunarinnar á síðasta starfsári.

Í stjórn Byggðastofnunar starfsárið 2020-2021 sitja:

  • Magnús B. Jónsson
  • Halldóra Kristín Hauksdóttir
  • Sigríður Jóhannesdóttir
  • Gunnar Þorgeirsson
  • Karl Björnsson
  • María Hjálmarsdóttir
  • Unnar Hermannsson

Varastjórn:

  • Bergur Elías Ágústsson
  • Herdís Þórðardóttir
  • Þórey Edda Elísdóttir
  • Lilja Björg Ágústsdóttir
  • Anna Guðrún Björnsdóttir
  • Friðjón Einarsson
  • Heiðbrá Ólafsdóttir

Sigurður Ingi Jóhannsson, ráðherra byggðamála, sagði í ávarpi sínu á ársfundinum að ýmis jákvæð teikn væru á lofti þrátt fyrir margvísleg vandamál og áskoranir, sem þjóðin stæði frammi fyrir vegna COVID-19 faraldursins.  Sem dæmi um það nefndi ráðherra að þjóðin hefði á undraskömmum tíma lært að nýta nýjustu tæki í samskiptum og því  komið sér afar vel að búið er að leggja háhraða netsamband um allt land.  Ráðherra sagði að tæknin og tækifæri henni tengd ættu eftir að greiða götu margvíslegra aðgerða sem styrkja byggðaþróun, s.s. störf án staðsetningar, rekstur fjarvinnslustöðva og fjarheilbrigðisþjónustu. 

„Við þurfum að nálgast málin með því að rýna í tækifærin og hvernig áföll sem þessi sem við nú göngum í gegnum, þó vissulega séu afar stór og umfangsmikil og varði marga, geti engu að síður leitt til jákvæðrar þróunar á sumum sviðum,“ sagði Sigurður Ingi.

Byggðasjónarmið að leiðarljósi við endurreisn fyrirtækja

Fram kom í ávarpinu að ráðherra hafi átt samráðsfund með landshlutasamtökum sveitarfélaga og fleirum í byrjun apríl þar sem farið var yfir stöðuna.  Ráðherra sagði að þar hafi komið fram góð ábending um að mikilvægt væri að setja upp „byggðagleraugu“ þegar komi að því að takast á við vandann og vinna okkur út úr honum. „Það geti til dæmis átt við þegar farið verður í það að meta „lífvænleika“ fyrirtækja og aðstoð og fyrirgreiðslu stóru fjármálastofnananna við einstök fyrirtæki.  Brúarlánin svokölluðu eru þar efst á blaði.  Það geta verið fleiri sjónarmið sem skipta þar máli en bara hreinn efnahagsreikningur, það verður að meta í hvaða samhengi fyrirtækin starfa, samfélagsleg áhrif þeirra og gildi, byggðasjónarmiðin,“ sagði Sigurður Ingi. Hann sagði að ráðuneytið og Byggðastofnun myndu fylgjast vel með þeirri framvindu.

Að lokum þakkaði ráðherra stjórn og starfsfólki Byggðastofnunar fyrir mikilvægt framlag til byggðamála í landinu. „Hlutverk og mikilvægi stofnunarinnar hefur aldrei verið meira en nú og ég tel líka að hún hafi mikið traust í samfélaginu. Það hefur tekist að byggja upp mjög ánægjulegt samstarf þvert á málaflokka og þvert á stjórnsýslustig um byggðamál. Byggðastofnun er þar í lykilhlutverki.“

Magnús B. Jónsson stjórnarformaður gerði grein fyrir störfum stjórnar á starfsárinu og lýsti helstu verkefnum hennar.  Áhersla hefur verið lögð á innra starf stjórnar og var Helga Hlín Hákonardóttir ráðgjafi hjá Strategíu ehf. ráðin til að framkvæma árangursmat á störfum stjórnar og forstjóra stofnunarinnar auk þess sem haldið var námskeið um stjórnarhætti.  Í matinu var lögð áhersla á fjölmarga þætti, þ.á.m. hvort stjórn starfi í samræmi við starfsreglur sínar og hvort mikilvæg stjórnarmálefni séu undirbúin með fullnægjandi hætti, auk mats á störfum forstjóra og rekstri stofnunarinnar í heild.  Matið kom vel út þó alltaf séu tækifæri til umbóta.  Í máli formanns kom einnig fram að vegna áhrifa Covid 19 veirunnar stöndum við á ákveðnum krossgötum í byggðalegu tilliti.  Með þeirri niðursveiflu sem ekki verður hjá komist þrátt fyrir ágætar aðgerðir ríkisstjórnar og annarra stjórnvalda munu þeir sem veikastir eru fyrir eiga erfiðast uppdráttar.  Þar gætu veikari byggðarlög staðið höllum fæti og mjög líklegt að töluvert ákall verði til að Byggðastofnun komi að málum bæði fyrirtækja og heilla byggðarlaga í landsbyggðunum

Aðalsteinn Þorsteinsson forstjóri lýsti viðbúnaði Byggðastofnunar vegna Covid 19 faraldursins.  Áhrifin á innra starf stofnunarinnar eru einkum þau að gerð var sérstök viðbúnaðaráætlun til að draga úr líkum á truflun á starfseminni og draga úr hættu á veikindum á meðal starfsfólks.  Starfsfólkinu var skipt í tvo jafnstóra hópa og vinnur helmingurinn heima viku og viku í senn.  Allt starfsfólk hefur fengið VPN tengingar til að geta unnið að heiman í tölvukerfum stofnunarinnar á öruggan hátt.  Ýmsar ráðstafanir voru gerðar til að fækka smitleiðum  og lokað fyrir aðgang utanaðkomandi að skrifstofunni.  Þá hefur auðvitað dregið mjög verulega úr hefðbundnum fundum og þeir þess í stað færst nær alveg á netið.

Útá við hefur verið lögð mikil áhersla á samskipti og miðlun upplýsinga t.d. með samráðsfundum atvinnuþróunarfélaga og landshlutasamtaka sveitarfélaga á netinu, og hefur ráðherra byggðamála setið einn slíkan fund.  Ánægja hefur verið með þessa fundi, en þar gefst færi á að miðla upplýsingum á milli landshluta um stöðu fyrirtækja og verkefni sveitarfélaga í faraldrinum.  Hvað útlánastarfsemina varðar hefur mjög mikill tími farið í samskipti við skuldara stofnunarinnar.  Byggðastofnun er, auk viðskiptabanka, sparisjóða og lífeyrissjóða aðili að samkomulagi um tímabundna greiðslufrestun á lánum vegna heimsfaraldurs Covid 19 en markmið samkomulagsins er að greiða fyrir hraðri og samræmdri úrlausn mála og stuðla að jafnræði á meðal lánveitenda og lántaka.  Fjöldi beiðna um frestun greiðslna hefur nú þegar verið afgreiddur.  Mest af þeim kemur eðlilega frá fyrirtækjum í ferðaþjónustu, en þó er ljóst að vandræði þeirra smita mikið frá sér inn í rekstrarumhverfi annarra greina.  Ljóst er að þetta mun hafa veruleg áhrif á sjóðsstreymi stofnunarinnar þegar frá líður. 

Síðasta starfsár var þó gott fyrir Byggðastofnun og byggðamál yfirleitt.  Byggðamál og byggðaþróun njóta nú stöðugt vaxandi athygli og áhuga jafnt meðal almennings og hjá þeim sem starfa á vettvangi stjórnmála, bæði á sveitarstjórnarstigi sem og á landsvísu.  Það er mat Byggðastofnunar að framkvæmd aðgerða skv. byggðaáætlun miði vel áfram og er vinna í tengslum við flestar aðgerðir hennar vel á veg komin.  Merkja má aukna áherslu á byggðamál hjá stjórnvöldum sem m.a. má sjá af því að fjölmörg þingmál tengjast nú beint og markvisst einstökum tillögum byggðaáætlunar.  Þá hefur færst mjög í vöxt að fulltrúar Byggðastofnunar séu kallaðir á fundi þingnefnda í umfjöllun um einstök mál.

Rekstur Byggðastofnunar gengur vel og hefur skilað afgangi undanfarin 7 ár.  Hagnaður ársins 2019 nam alls 95 mkr.  og nemur uppsafnaður hagnaður síðustu 7 ára rúmum 1100 milljónum króna.  Útlánasafnið hefur stækkað jafnt og þétt og nemur nú 16.2 milljörðum króna og eiginfjárhlutfall í árslok 2019 var 19.25% og stofnunin því vel yfir viðmiðum um lágmarks eigið fé.  Það er mikilvægt en ljóst er að verulega mun reyna á fjárhag Byggðastofnunar á næstu mánuðum og misserum og til þess getur komið að þörf verði á eiginfjárframlagi úr ríkissjóði til að mæta þeim áföllum þó erfitt sé nú að leggja mat á umfang vandans.

Nú í vor eru að verða mikil tímamót í sögu Byggðastofnunar þegar hún tekur í notkun nýtt hús fyrir starfsemina.  Þetta styrkir ímynd hennar sem faglega sterkrar stofnunar sem sinnir mikilvægu hlutverki í þágu lands og þjóðar en einnig er í þessu fólgin yfirlýsing af hálfu stjórnvalda um mikilvægi málaflokksins og þeirra verkefna sem Byggðastofnun starfar að.  Byggðastofnun var flutt frá Reykjavík til Sauðárkróks árið 2001 og hefur frá þeim tíma verið til húsa í leiguhúsnæði sem hentar ekki lengur þörfum hennar. Starfsemin hefur vaxið með því að Byggðastofnun hafa verði falin ný og stór verkefni og starfsfólki hefur fjölgað undanfarin ár.


Til baka

Fréttasafn

2024
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október
2023
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2022
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2021
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2020
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2019
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2018
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2017
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2016
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2015
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2014
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2013
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2012
janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
2011
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2010
janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
2009
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2008
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2007
mars maí júní júlí ágúst september október nóvember
2006
janúar febrúar mars maí júní ágúst september
2005
janúar febrúar mars júní október nóvember desember
2004
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október
2003
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí september október nóvember desember

Skráning á póstlista

  • Byggðastofnun  |  Sauðármýri 2  |  550 Sauðárkrókur 
  • Sími 455-5400
  • postur@byggdastofnun.is
  • Opið frá kl. 8:30-12:00 & 13:00-16:00  | kt. 450679-0389